Söngfélag var stofnað í Winnipeg árið 1881 og mun Þorsteinn Einarsson hafa átt mestan þátt í því. Hann mun hafa lært að spila á orgel á Íslandi og fljótlega eftir komuna til Winnipeg árið 1878 og segir Friðrik J. Bergmann um Þorstein: ,, Gekst hann fyrir því, að sönghæft fólk ísl. kæmi saman til söngæfinga og varð töluvert í því ágengt, að menn lærðu ofur-lítið að syngja saman.“ (Alm. 1905, bls.102) Ekki fara margar sögur af söngskemmtunum félags þessa eða hvort það hafi verið sama félag og söngfélagið Gígjan sem hélt sína fyrstu tónleika 1. maí, 1886. Leifur sagði þá um fyrirhugaða söngskemmtan:,,Félagði á það líka sannarlega skilið, að þessi fyrsti samsöngur þess sé vel sóttur. Það hefur barizt hraustlega gegn hinum mörgu örðugleikum, sem því hafa mætt. Þessa örðugleika hefur það með atorku yfirstigið, stendur nú föstum fótum, og hefur með því lagt hyrningarstein íslenzkrar söngfræði hér í vesturlandinu.“ Ekki tók Þorsteinn þátt í þessum tónleikum því hann lést árið 1884.