Ungir, íslenskir karlmenn í Winnipeg blönduðu snemma á frumbýlingsárunum geði við jafnaldra sína af öðru þjóðerni. Þessi kynslóð ungmenna flutti vestur til Ameríku með foreldrum sínum á fyrsta áratug vesturfaratímabilsins 1870-1914. Þannig var um Björn Stefán Brynjólfsson frá Skeggjastöðum í Húnavatnssýslu sem fæddur var 3. nóvember, 1864. Foreldrar hans, Brynjólfur Brynjólfsson og Þórunn Ólafsdóttir fluttu vestur með barnahópinn sinn til Kanada árið 1874 og dvöldu fyrsta veturinn í Kinmount í Ontario. Þaðan lá leið þeirra austur í Markland í Nova Scotia árið 1875 þar sem þau bjuggu í sex ár en þá fluttu þau til N. Dakota. Björn Stefán dvaldi skemur í Marklandi því haustið 1879 innritaðist hann í lútherskan háskóla, Thiel College í Greenville í Pennsylvania í Bandaríkjunum. Mun hann í fyrstu hafa ætlað að nema þar guðfræði að ráði föður síns en hætti við og neyddist til að hætta þar námi vegna augnveiki. Hvarf hann þaðan vestur til Winnipeg árið 1880 þar sem hann leitaði eftir félagsskap við unga, íslenska menntamenn og bar það árangur. Hann hafði kynnst bókmenntaáhuga samstúdenta í Pennsyilvania og félagi þeirra og brátt fékk hann áhugasama landa sína í Winnipeg til að stofna með sér félag. Friðrik J Bergmann skrifar um þetta félag í Almanakið árið 1905:,, Mun flest hafa farið þar fram á ensku, því hann var eðlilega betur að sér í enskri tungu en íslenzkri. Nefndist félagið því ensku nafni og kallaðist The Oriental Literary Society ekki vegna þess að meðlimir þess ætluðu einkum austurlenzk vísindi fyrir sig að leggja, heldur hins, að sólin er í austri og upplýsir heim allan og vermir ljós og hita. Eins ætlaði félag þetta að vera ofurlítil sól, er ræki myrkur mentunarleysisins á flótta og færði mönnum ljós þekkingar og hita mentunarinnar. Voru einkunnarorð þess á latínu: per gradus – fet fyrir fet, svo enginn skyldi hugsa að þeir ætluðu að gjöra alt í einu. Félag þetta mun hafa haldið fundi sína fyrir lokuðum dyrum. Lítur út fyrir, að það hafi verið lagt út á ýmsan veg og stundum miður góðgjarnan. Voru ýmsir svo djarfir að kalla það af þessari ástæðu leynifélag eða frímúrarafélag; jafnvel galdrafélag höfðu sumir leyft sér að nefna það, og hafa þeir að líkindum álitið helzta ætlunarverk þess að leggja stund á egipzka speki, er lengi hefir álitin verið nokkurn veginn hið sama og kukl. Auðvitað var þetta alt í gamni, en ,,ófrjálslegt“ mun það þótt hafa eftir þeirrar tíðar skilningi á frelsinu, að félag þetta skyldi ekki leyfa öllum aðgang að fundum sínum. Ekki hafa félagsmenn þurft að taka sér þetta nærri. En til þess að seðja forvitni almennings hélt það opinberan fund, og var öllum boðið þangað að koma, er vildu. Voru þar ræður fluttar af ýmsum, en Jón Runólfsson skáld fékk það hlutverk að gjöra grein fyrir ætlunarverki félagsins og markmiði og hrekja þá hleypidóma, er upp höfðu risið. Mun þá öllum hafa ljóst orðið, að galdurinn var ekki hræðilegur og tilgangurinn lofsverður. Var fundur þessi haldinn 12. maí, 1883 og þótti hann hin bezta skemtun. Ekki sést neins staðar getið um frekari aðgjörðir félags þessa og mun það að líkindum að eins hafa staðið þenna vetur og fremur verið til að glæða áhugann fyrir góðum bókum og lestri þeirra, heldur en hitt.“ Eitt í máli Friðriks um Björn er ólíklegt, nefnilega að enskan hafi verið orðin honum tamari en íslenskan árið 1881 eftir aðeins sex ára dvöl í Norður Ameríku. Hann var 10 ára þegar hann kom vestur og bjó hjá foreldrum sínum og systkinum til ársins 1879. Þótt tilgangur félagsins hafi etv. ekki vakið mikla hrifningu hjá þorra Íslendinga í Winnipeg þá er hann merkilegt dæmi um aðlögun að norðuramerísku samfélagi. Í íslensku sveitunum í Manitoba, N. Dakota og Minnesota voru samskipti við íbúa af öðru þjóðerni afar lítil, þorri bænda var íslenskur, notaði því móðurmálið daglega og þurfti sáralítið að spreyta sig á ensku. Meira að segja var hægt að fara í kaupstaðinn (Winnipeg) úr dreifbýlinu til að sækja nauðsynjar því um 1880 voru íslenskir kaupmenn komnir þar með hvers kyns verslanir. Dagleg samskipti við enskumælandi meirihluta íbúa borgarinnar krafðist hins vegar einhverrar enskukunnáttu og því lögðu íslenskir borgarar áherslu á að ná tökum á málinu. Foreldrar í borginni áttuðu sig fyrr á því að lykillinn að bjartri framtíð barnanna í Norður Ameríku var góð enskukunnátta. Segja má að hér verði kaflaskipti í stuttri sögu Íslendinga í álfunni því enginn lætur sig lengur dreyma um alíslenska nýlendu, einhvers staðar afskekkta í N. Ameríku þar sem allir íslenskir vesturfarar byggju. Segja má að framvegis væri mætti tala um annars vegar borgaraleg- og hins vegar dreifbýlissamfélög. Nýhafinn áratugur endaði með mjög greinilegum mun á þessu tvennu; íslensk gildi létu fyrr undan norðuramerískum í Winnipeg en í sveitunum, íslenskt mál í borginni bar þess greinileg merki, vestur-íslenskan var þar langt komin með að slíta barnsskónum. Kannski er skýringin á snöggum endalokum bókmenntafélagsins sú að Björn Stefán flutti úr borginni suður til N. Dakota árið 1882 en þangað voru þá foreldrar hans og systkini komin frá Marklandi.