Björn Sæmundsson Líndal

Vesturfarar

Björn Sæmundsson fór einsamall vestur til Kanada árið 1878, bjó fyrst í Ontario en fór þaðan til Minnesota. Var þar í fjögur ár en flutti svo norður til Winnipeg. Allmargir, ungir Íslendingar voru samankomnir í borginni, sumir nýkomnir frá Íslandi, og áttu erfitt uppdráttar vegna atvinnuleysis. Flóðið í Rauðá 1882 svo og minnkandi vinna við Kanada-Kyrrahafsjárnbrautina svonefndu ýttu við mönnum svo árið 1886 var ákveðið að skoða vesturhluta svonefnds millivatnasvæðis, þ.e. landið vestur af Nýja Íslandi við Winnipegvatn og austur að Manitobavatni. Í Winnipeg starfaði svokallað Framfarafélag Íslendinga sem lét sér hagsmuni Íslendinga í Manitoba miklu varða. Frímann B. Anderson var þá ritstjóri Heimskringlu og mikill áhugamaður um íslenskt landnám í fylkinu og reyndar kanadísku sléttunnar allrar. Hann og stjórn Framfarafélagsins leitu til ríkistjórnar Kanada um styrk til að kosta leiðangur vestur þangað sem nú er hluti Saskatchewan. Þetta er svonefndur Qu’Appelle dalur. Frímann og Björn Sæmundsson fóru fyrir leiðangrinum en auk þeirra slóst í hópinn Stefán Gunnarsson og innleiddur leiðsögumaður. Þeir héldu í vestur og skoðuðu allstórt svæði þar sem nú er Moosomin, vestur til Grenfell og suður til Stoughton.

Kortið sýnir Winnipeg og sennilega leið þaðan vestur í Qu’Appelle dal. Pipestone er svo í suðvesturhorni Manitoba.

Þar var landið gott en nánast allt hafði verið numið svo þeir héldu til baka og könnuðu svæði vestur og suður af Pipestone. Á þessu svæði er jarðvegur sendinn og nokkuð grýttur og ekki þótti þeim grasspretta góð. Frímanni leist vel á því hann taldi næsta auðvelt að brjóta þar land því enginn skógur eða kjarr var þar fyrirstaða. Bersýnilega var það Frímanni kappsmál að finna stórt og frjósamt akurlendi en Björn var á öðru máli því hann kaus nautgriparækt frekar en akuryrkju. Þeir sneru til baka til Winnipeg án þess að hafa fundið ákjósanlegan nýlendustað. Rétt að geta þess að þegar árin liðu þá settust allmargir Íslendingar að á svæðinu við Pipestone.

Austurströnd Manitobavatns – annar leiðangur: Skömmu eftir komuna til Winnipeg var annar leiðangur skipulagður og nú norðvestur af Winnipeg. Aftur átti Frímann hlut að máli og í grein sem hann skrifaði í Heimskringlu 4. nóvember, 1886 sést að með honum fór Jón Júlíus, bróðir Káins og innlendur leiðsögumaður. Björn Sæmundsson er ekki nefndur í greininni sem einn leiðangursmanna en í ýmsum heimildum vestra virðast höfundar greina um þennan leiðangur vera vissir um þátttöku Björns m.a. Jón Jónsson frá Sleðbrjót í Almanaki Ólafs Þorgeirssonar (1910) svo og Wilhelm Kristjánsson í  sama riti. Þá tilgreinir Skúli Sigfússon  Björn í sinni grein í Afmælisriti Lundarbyggðar frá 1947 þegar hann fjallar um skoðunarferðina. Það var farið að hausta þegar ferðin var farin dagana 21. – 25. október. Fimm daga leiðangur um mikið svæði getur varla talist umfangsmikið en einkum heillaði svæði við suðurenda Grunnavatns (Shoal Lake) en þar sýndist Frímanni jarðvegur ákjósanlegur. Með þessa niðurstöðu sneru þeir til baka til Winnipeg, ákveðnir í að fara fljótt aftur og skoða nú landið vestan við Grunnavatn. Þeir fóru norður 31. október og fóru um landið umrædda á einum degi og leist vel á. Þarna skiptust á skógarbelti, engjar, mýraflákar og harðbalar.  Með þessa vitneskju sneru menn til baka til Winnipeg en 24. maí, næsta ár (1887) fóru aðrir á svæðið og þeirra á meðal var Björn Sæmundsson sem skoðaði sig vel um án þess að nema land. Björn og Svava settust svo að í Grunnavatnsbyggðinni árið 1891.

Kortið sýnir landnám Björns árið 1891.

Grunnavatnsbyggð: Jón Jónsson frá Sleðbrjót skrifaði þátt um Grunnavatnsbyggð í Manitoba og birtist hann í Almanaki Ólafs Þorgeirssonar í Winnipeg árið 1912. Hann fékk landnema til að senda sér upplýsingar um sig og sína og fyrstu árin í Vesturheimi. Þeirra á meðal var Björn Sæmundsson og segir Jón meðal annars þetta um hann:,, Björn S Líndal er fæddur á Gautshamri í Strandasýslu árið 1853. Faðir hans Sæmundur Björnsson bóndi á Gautshamri var Björnsons prests, Hjálmarssonar í Tröllatungu. Hjálmar faðir síra Björns var einnig prestur í Tröllatungu. Móðir Björns Líndals var Guðrún Bjarnadóttir, bónda á Þórustöðum í Bitru í Strandasýslu. Björn Líndal hefir búið í Grunnavatnsbygð síðan hann flutti þangað og er einn gildasti bóndi þar, hefir hann rausnarbú og verzlun all-stóra. Björn er hár maður vexti og karlmannlegur, höfðinglegur og prúður í framkomu. Hann er vel greindur og gætinn, fastur í lund og fylginn sér. Hann hefir verið lengi póstafgreiðslumaður (Markland posthús), féhirðir skólans á Markland milli 10 og 20 ár og starfað ötullega að öllu því er hann hefir látið sig skifta í félagsmálum.’‘ Gefum nú Birni orðið:

Síðustu árin á Íslandi: ,,Eg ólst upp hjá foreldrum mínum á Gautshamri, þar til faðir minn dó og síðan hjá móður minni, þar til árið 1872 er eg fluttist með henni að Þamárvöllum í Bitru, giftist hún þar aftur Jóni bónda Bjarnasyni, er þar hafði lengi búið. Árið 1874 gerðist eg lausamaður, kostaði það á þeim tíma 6 vættir að vera frjáls maður á Íslandi. Heimili átti eg á Þórustöðum í Bitru, því hver lausamaður varð að eiga heimili. Eg vann að algengum útiverkum á sumrum, en að vefnaði á vetrum. Vorið 1875 fór eg í vinnumennsku til Þorsteins Jónssonar og Guðrúnar Jónsdóttur, er bjuggu í Broddanesi í Strandasýslu og árið eftir flutti eg með þeim að Skriðunessenni í Strandasýsly, hjá þeim var eg vinnumaður þar til haustið 1877, 9. des. Þá varð sá atburður að húsbændur mínir druknuðu. Það skeði á sjóferð, að kvöldlagi, frá Broddanesi að Skriðunessenni. Á skipinu voru húsbændur mínir, Þorsteinn og Guðrún, og Matthías Jónsson, er þá bjó einnig á Enni, Bjarni unglingspiltur og Anna Bjarnadóttir, vinnukona húsbænda minna. Skipið barst upp á sker og hvolfdist. Eg kunni nokkuð til sunds og tókst að koma þeim hjónum báðum á kjöl skipsins. En þá kom önnur alda enn voðalegri og velti um aftur. Eg náði aftur til skipsins. Brimrótið var voðalegt og eg sá þá ekkert af fólkinu, nema stúlkuna. Henni gat eg bjargað til lands, því þetta var örskammt frá landi. Má svo segja, að þessi alda hafi hrundið mér til Vesturheims, því sumarið eftir, 1878, flutti eg vestur um haf.“

Upphafið handan hafs:,,Eg dvaldi fyrsta sumarið í Ontario, en um haustið fluttist eg til Minneota í Minnesota. Um veturinn var eg nokkra mánuði í skóla, er Eiríkur Bergmann o.fl. stóðu fyrir. Fór kenslan fram í íbúðarhúsi og var kennarinn Norðmaður. Vorið eftir fór eg í vinnu út á járnbraut, var þá öll mín eign 50 doll. Í Bandaríkjunum dvaldi eg 4 ár. Fyrst við algenga bændavinnu og síðar við verzlunarstörf. Þar nam eg ýmislegt er mér hefir síðan að gagni komið; þar hefi eg unað bezt æfi minnar og á þar marga góðkunningja er eg þrái að sjá. Til dæmis um hvað Íslendingar nýkomnir máttu þá búa við, get eg þess, að tímann sem eg dvaldi í Ontario, varð eg að vinna fyrir 25c á dag. Málleysið og þekkingarleysið hazlaði mér völl. Eg gat ekki leitað eftir betra, þar var ekki til neins að flýja með kvartanir. Eg hlaut að taka hverju því sem höndum bar. Nú hafa innflytjendur til velmegandi vina eða ættingja að flytja all-flestir og geta lifað hjá þeim góðu lífi, þar til eitthvað raknar úr fyrir þeim – Til Winnipeg flutti eg 1882 um sumarið og vann þar fyrst við verzlun hjá Helga Jónssyni, ritstjóra ,,Leifs“. Síðan hjá enskum verzlunarmanni. Árið 1883 giftist eg Svövu Björnsdóttur, Kristjánssonar (Skagfjörd), var ætt sú úr Skagafirði. Móðir Svövu er Kristrún Sveinungadóttir. Árið 1883 ferðaðist eg vestur að Kyrrahafi og voru með mér í þeirri för Haraldur Jóhannesson, Ólafssonar af Húsavík með skylduliði sínu, Jón Jónsson bróðir Tómasar lögmanns í Winnipeg og 1 unglingspiltur ættaður úr Hrútafirði. Hugmyndin var að leita eftir nýlendusvæði vestur við hafið. Eg fór 200 mílur norður eftir Vancouver-eyju og um meginlandið umhverfis, sem nú nefnist Vancouver. Ekki leist mér að þar gæti orðið íslenzk nýlenda í nokkru samhengi. En hafið fanst mér eg þurfa að sjá. Ekki til að þreyta fangbrögð við það eins og fyrri, heldur til að rannsaka hvort ekki væri á ströndinni frjósamur og fagur landblettur, fýsilegur til bústaðar fyrir mig og aðra Íslendinga er þráðu hafið. Eg dvaldi um tíma í Viktoríuborg á heimleiðinni, hélt svo þaðan til Washington-héraðsins og Montana, því þá var C.P.R brautin ekki fullgjör vestur. Eftir það dvaldi eg í Winnipeg þar til eg flutti hingað og er gjör skýrst frá tildrögum þess í þætti Álftavatnsbygðar“. 

Á þessum uppdrætti yfir landnámsmenn í Grunnavatnsbyggð sjást umsvif Björns. Hann nam land árið 1893, bætir svo við sig löndum 1904, 1908 og 1912. Hann á í raun stóran hluta lands umhverfis vatnið sem seinna fékk svo nafn hans. Á uppdrættinum má sjá lönd Jóns Jónssonar (1893), Sveinbjörns Sigurðssonar (1893) Magnúsar Jónssonar Freemans (1891) Árna M. Frímans (1891) og Bessa Tómassonar(1891)