Richard Beck var ritstjóri Almanaks Ólafs Þorgeirssonar í Winnipeg árið 1950 og skrifaði þá um Erlend látinn: ,, Óvenjulega mikill fróðleiksmaður, sem margt liggur eftir í vestur-íslenzkum blöðum, og þó enn meira í handriti“ Steinunn Brynhildur, dóttir Erlends, varðveitti handritið, bréf Erlends og fleira um árabil en það munu hafa verið barnabörn Erlends sem héldu minningu hans á lofti, komu öllu safni hans til Íslands þar sem það er varðveitt. Árið 2002 kom út bók, ,,Heima & Heiman“ í Reykjavík og önnuðust Kristján B. Jónasson og Þorvaldur Kristinsson útgáfuna, Mál & Menning gaf út. Ritið byggir á skrifum Erlends Guðmundssonar, nokkurs konar ævisaga hans. Þar er að finna fjarskalega góðar lýsingar á mannlífinu, atvinnuháttum á Gimli við Winnipegvatn.