Jón Sigfússon

Vesturfarar

Hringurinn sýnir landnám Jóns

Jón Sigfússon var einn sexmenninga sem lögðu af stað frá Winnipeg 24. maí, 1887 norðvestur í átt að Manitobavatni. Þessir menn voru Björn S. Líndal, Árni M. Frímann (Árni Magnússon úr Eyjafirði), Ísleifur Guðjónsson, Jakob Crawford og Hinrik Jónsson. Þeir könnuðu svæði við Grunnavatn og þar valdi Jón land, fyrstur allra Íslendinga. Hann sneri aftur til Winnipeg og fékk leyfi yfirvalda til að setjast að á landnáminu. Þetta var upphafið að svonefndri Lundarbyggð.

Á þessum uppdrætti sést jarðaskiptingin í Section 30. Land Jóns er honum merkt John Sigfusson og í sviga þar undir er nafn skóla sem þar var reistur og hét Franklinskóli. H. 1887 sýnir hvaða ár Jón nam hér land og fékk heimilisréttindi. Aðrir setjast þar að seinna samanber ártöl.

Þegar kom að ritun sögu Lundarbyggðar sem kafla í fjórða bindi ritverksins ,,Saga Íslendinga í Vesturheimi“ leitað ritstjórinn, Tryggvi J. Oleson, til Heimis Þorgrímssonar. Hann var fæddur á Akureyri en flutti vestur á 18. ári og dvaldi mikið í Lundarbyggð, bjó m.a. í Lundar um árabil. Heimir tók að sér verkið enda hafði hann kynnst mörgum íbúum byggðarinnar, farið vítt og breitt um sveitirnar og safnað efni. Í formála segir Heimir:,, Saga þessi er aðallega byggð á þeim heimildum, sem Almanak Ólafs S. Thorgeirssonar og Saga Álftavatns – og Grunnavatnsbyggða  hafa að geyma, og á þeim persónulegu kynnum, sem ég hef sjálfur af sveitum þessum. Ekki dettur mér í hug að ætla, að alls staðar sé rétt með farið, þótt ég hafi reynt eftir beztu getu að afla allra upplýsinga, sem ég á tök á að komast yfir. Þess utan hefur Tryggvi J. Oleson, sem umsjón hefur með þessu verki, verið mér önnur hönd og rannsakað og borið saman ýmsar heimildir, sérstaklega þær, sem aðeins er að finna í vestur-íslenzkum blöðum og tímaritum.“  Heimir nefnir  eðlilega Almanakið því það geymir ótal þætti og frásagnir af landnámsmönnum og þeirra byggðum. Margir lögðu ritstjórum og útgefendum Almanaksins lið og var Jón Jónsson, gjarnan kenndur við Sleðbrjót, einn þeirra en hann skrifaði þætti um Íslendinga austan við Manitobavatn og fjallar þar um Jón Sigfússon. Hér kemur kafli um Jón sem Heimir setti saman og byggir nokkuð á frásögn Jóns frá Sleðabrjót en sá fór vestur um haf árið 1903 og settist að í Lundarbyggð fyrst um sinn.

,,Jón Sigfússon er fæddur 2. október, 1862 á Nesi í Norðfirði í Suður-Múlasýslu. Foreldrar hans voru Sigfús Sveinsson og Ólöf Sveinsdóttir, er bjuggu á Nesi allan sinn búskap, um eða yfir 30 ár, alt þar til þau fluttu til Vesturheims árið 1887. Þegar Jón var á 16. ári réðst hann til búðarstarfa hjá Sveinbirni kaupmanni Jakobsen í Líverpól á Seyðisfirði. Eftir tveggja ára dvöl þar vék hann heim aftur til foreldra sinna. En að ári liðnu réðst hann aftur búðarmaður til Jóns kaupmanns Magnússonar  á Eskifirði. En eftir 1 ár vék hann heim aftur til foreldra sinna. Vorið 1883 lagði hann af stað til Ameríku, einn síns liðs.“ ,,Fór ég þangað“, segir Jón, ,,til að leita gæfunnar“. ,,Hann tók sér far með kolaskipi frá Seyðisfirði til Skotlands. Til Winnipeg kom hann 4. júní og hafði þá verið 6 vikur á leiðinni frá Íslandi. Þá var mjög litla vinnu að fá í Winnipeg. ,, En úr því ég var hingað kominn“, segir Jón, ,, þá hlaut ég að vinna“. Réðst hann því í vinnu við járnbrautarlagning og vann hann þar um sumarið og fram eftir næsta vetri. Í janúarmánuði hvarf hann aftur til Winnipeg og hafði þá rúma 200 dali í sjóði sínum. Tímanum, sem eftir var af vetrinum, varði hann til að nema enska tungu hjá B.L. Baldwinson (svona ritaði Baldvin Lárus Baldvinsson nafn sitt vestra), núverandi ritstjóra Heimskringlu, er þá veitti tilsögn nokkrum ungum mönnum. Sumarið 1884 kvongaðist Jón Önnu Soffíu Kristjánsdóttur (ættaðri úr Eyjafirði). Fluttist hann þá um sumarið til Nýja Íslands og hafði í hyggju að byrja þar búskap. Þar dvaldi hann næsta vetur, en ,,féll þar mjög illa“; var hann þá nær eignalaus, og kveðst ekki hafa séð neina framtíðarvon fyrir sig. Flutti hann því allslaus til Winnipeg vorið 1885 og dvaldi þar eitt ár.“

Framtíðarsvæði: ,,Eins og áður er getið, var um það leyti byrjað að leggja járnbraut norðvestur frá Winnipeg austan við Manitoba-vatn, og var í ráði að sú járnbraut yrði lögð alla leið til Hudsonsflóa. Leizt Jóni, sem öðrum fleirum, fýsilegt að leita bústaðar meðfram braut þessari í nánd við Winnipeg. Ástæður sínar fyrir því að hann hvarf að þessu ráði, telur Jón þessar:,, Heimilisréttarlönd umhverfis Winnipeg voru þá orðin mjög fá ótekin. En ég þóttist þá þegar fullviss um, að Winnipeg mundi, er fram liðu stundir, verða aðalmarkaður Norðvesturlandsins*. Á þeim árum skemdist hveiti mjög af frostum í Norðvesturlandinu; þókti mér því sem vissara væri að stunda griparækt.“  ,,Þegar Jón kom til Winnipeg aftur, keypti hann sér 4 ára uxa, og að litlum tíma liðnum lagði hann aftur af stað til landnáms síns, til að koma sér upp skýli yfir sig og fjölskyldu sína; því hann átti líka von á foreldrum sínum og bróður að heiman frá Íslandi. Í júlí um sumarið flutti hann alfarinn frá Winnipeg með konu og tvær dætur, Kristjönu 3 ára og Júlíönu 3 vikna gamla; þá voru einnig í för með honum foreldrar hans og Skúli bróðir hans, þá 17 ára.  Allan flutning sinn hafði hann á einum vagni, og tveim uxum beitt fyrir. En til að flytja fjölskylduna keypti hann mann, er hafði hesta fyrir vagninum. Urðu þeir honum samferða með fjölskyldur sínar Árni Freeman og Ísleifur, er fyr var frá sagt. Litlu síðar komu þeir Jón Sigurðsson, H. Halldórsson (Þetta var Halldór Halldórsson frá Gili í Bolungarvík í Ísafjarðarsýslu:innskot JÞ) og Jón Metúsalemsson o. fl. Eignir Jóns, er hann byrjaði bú, voru að sögn hans þessar: 3 kýr, 1 kálfur, 2 ekiuxar og vagn. Jón heyjaði fyrir þessum gripum um sumarið í félagi við nábúa sinn enskan, og kom honum þá þegar að góðu haldi að hann hafði numið enska tungu, því fyrir það veitti honum hægara en öðrum að eiga viðskifti við hérlenda menn. Jón léði hinum enska nábúa sínum uxana til að flytja farangur hans frá Winnipeg, en svo illa tókst til, að uxarnir sliguðust af of þungum drætti, svo þeir urðu aldrei framar vinnufærir.“

Sléttubruni: Sléttubrunar voru nokkuð algengir í Norður Ameríku á landnámsárunum. Sumur eru býsna heit og þurrkar gríðarlegir. Eldsmatur var alls staðar mikill því á sléttunni uxu grös og ýmsar jurtir sem visnuðu þegar leið á sumarið. Venjulega kviknuðu eldar þessir þegar eldingu laust niður. Landnemum var alls staðar gert þetta ljóst og hvernig best væri að verjast þessum eldum. Menn áttu að brenna allbreiðan hring allt í kringum hús sín, það vandlega, að þegar æðandi eldurinn kæmi þar að slokknaði hann eða færi framhjá býlinu. Íslendingar lentu samt oft í því á fyrstu landnámsárunum að missa hey, stundum hús og jafnvel skepnur. Nú skal framhaldið sögunni af Jóni Sigfússyni:(JÞ)

,,Eftir sláttinn brenndi Jón umhverfis bústað sinn, að sið nýbyggjara, til að varna sléttueldi ; síðan lagði hann af stað til Winnipeg að leita sér kaupavinnu og afla sér á þann hátt peninga til heimilisþarfa. En litlu síðar barst honum sú fregn til Winnipeg, að fjós hans og hey hefði alt brunnið til kaldra kola í sléttueldi. Lagði hann af stað heimleiðis og hóf ferð sína frá Winnipeg kl. 9 að morgni. Hann var fótgangandi og gekk eftir járnbrautarstæðinu. Um ferð þessa farast honum þannig orð“: ,,Þegar ég var kominn 7 eða átta mílur þoldi ég naumast að stíga niður,  því ég var á hörðum verkamannaskóm, sem gaddar stóðu hér og þar inn úr. Ég hélt samt áfram hvíldarlaust og kl. 7 um kveldið var ég kominn 45 mílur, og átti þá eftir um 30 mílur. Ég hélt samt áfram næsta morgun og komst heim kl. 2 um daginn“. Þegar Jón kom heim tók hann til sláttar með orfi og ljá. Hey það, er hann aflaði sér, var mjög lélegt, en þó tókst honum að fleyta fram á því sumu af gripunum næsta vetur. Tvær kýrnar mjólkuðu nokkuð, og tók Halldór Halldórsson þær til fóðurs, og átti mjólkin úr þeim að borga fóðrið. Með hjálp nábúa sinna, enskra og íslenzkra, kom Jón því gripum sínum sæmilega af. Vorið eftir keypti Jón 1 kú og 3 vetrunga, fyrir peninga, sem foreldrar hans komu með að heiman; hafði hann nú 4 kýr. En þá báru honum ný vandræði að höndum. Hann þurfti til Winnipeg í verzlunarferð, að afla vista til heimilisins. En nú hafði hann engin akneyti, nema uxana sliguðu, er áður er frá sagt. Samt lagði hann af stað með nokkrum nábúum sínum enskum. En komst lítið áfram. En svo bar heppilega til, að einn samferðamönnum hans hafði 2 ekiuxa, er hann var fús til að selja, ef hann fengi peninga fyrir þegar. Voru uxarnir vænir mjög og mesta búmannseign. Jón falaði uxana til kaups og kaupin tókust. Setti Jón sjálfur þá kaupsskilmála, að ef hann kæmi ekki með peningana á tiltekinn stað í Winnipeg eftir að hann hefði dvalið hálfan dag í borginni, þá skildi hann skila uxunum aftur. Seljandinn gekk að þessum kostum og Jón skildi veiku uxana eftir á miðri leið. Héldu þeir félagar leiðar sinnar. Jón skilaði peningunum á tilteknum stað og tíma, og borgaði uxana að fullu. Um þetta farast Jóni þannig orð.“ ,,Þegar ég kom til Winnipeg, hafði ég enga hugmynd um, hvernig ég gæti fengið þessa 100 dollara. Ég var þá fáum kunnugur í bænum og bjóst ekki við að mér gengi vel að fá lán. Ég hitti að máli Árna kaupmann Friðriksson og sagði honum ástæður mínar. Hann lánaði mér þegar orðalaust 100 doll. í sex mánuði. Nú féll mér illa að vera lengi í skuld, seldi ég því 3 kýr (átti 1 eftir) til að geta borgað uxana. Síðan færði ég Árna peningana á réttum tíma, og fékk hann ekki til að taka neina rentu. Ég vona hann fái renturnar borgaðar þegar honum liggur mest á“. 

Betri tíð: ,,Þegar hér var komið, fór hagur Jóns að batna. Nú (1914) er hann talinn efnaðasti Íslendingur þar í bygðinni, hefur hann oft haft á fóðri um 300 nautgripi, er hann hefur átt…Jón á nú eitthvað 12 bújarðir, er hann notar nær allar árlega til heyskapar og gripagöngu.“

* Svæðið vestur af Manitoba vestur að Klettafjöllum var kallað Norðvesturland þar til fylkin Saskatchewan og Alberta urðu til upp úr 1900. Í dag er Norðvesturlandið svæði norðan við Saskatchewan, Alberta og broti af Bresku Kolumbíu. Vestan við er Yukon en austan Nunavut!