Jónas Hallgrímsson orti Móðurást árið 1837 heima á Íslandi. Hann skrifaði félögum sínum í Fjölni og sendi þeim kvæðið. Brot úr bréfi skáldsins rataði á síður blaðsins og hljóðar svo:,,Fyrst að ég á annað borð er farinn að minnast á kvæðin í Sunnanpósti þá er bezt að ég segi þér sögukorn af mér og einu þeirra. Ég orkti það upp aftur hér um daginn. Það heitir Móðurást og tilefnið er, eins og þú manst, að förukona í Noregi varð úti í kafaldsbyl, en börn hennar tvö, sem hún hafði með sér, fundust lifandi; því konan sveipaði þau í klæðum sínum og bjargaði þeim með dauða sjálfrar sín. Það er fljótséð, að þessi viðburður er fullgott yrkisefni, ef skáld ætti með að fara; og það hefir sá fundið sem orkti kvæðið í Sunnanpóstinum þótt báglega tækist að yrkja. Hann hefir ekki varað sig á, að það mun vera viðbjóðslegt og styggja fegurðartilfinning allra sem þess háttar tilfinning er nokkur í, þegar hann er að lýsa konunni, hvað hún var skinnhoruð og húsgangsleg, og hvernig hún situr og tínir af sér ræflana spjör fyrir spjör svo hún er alsnakin eftir fyrir auga lesandans – auk annarra smámuna t.a.m. ,,fóta kann ei fram róa árum“ o.s.frv. Ég er ekki skáld eins og þú veizt og sendi þér ekki kvæðið mitt í því skyni að þér muni þykja nokkuð til þess koma; heldur svo þú sjáir, hvað ég vildi hinn maðurinn hefði forðast að segja; því ég hef borið mig að sneiða hjá öllu, sem mér féll verst við skáldskap hans“.( Úr Kvæðasafni Jónasar Hallgrímssonar) Höfundur ljóðsins í Sunnanpóstinum er ókunnur, einungis bókstafirnir A.H. fylgja ljóðinu.
Móðurást Jónasar Hallgrímssonar hefur örugglega hrært hjörtu landsmanna, allir þekktu blindbyl og fostkaldan mel, mörgum ,,hvarf auga um heldimma nótt vegur á klakanum kalda“. Og áreiðanlega hefur ljóðið oft komið í huga margra vesturfara um hávetur á ískaldri sléttunni í Norður Dakota og Manitoba. Með þetta í huga er rétt að heyra meir um Guðrúnu Einarsdóttur sem vestur fór með börn sín tvö til Nýja Íslands árið 1878. Barnsfaðir Guðrúnar var Sigmundur Matthíasson sem fæddur var í Loðmundarfirði 7. september, 1841. Hagur foreldra hans batnaði lítt við fæðinguna, hann bjó reyndar hjá þeim ein níu ár en síðan tók við dæmalaust líf barnsins því hann hrökklaðist frá einum bæ til annars ýmist sem tökupiltur eða léttapiltur. Árið 1868 fer hann að Hamragerði í Eiðaþinghá og þar er Guðrún Einarsdóttir vinnukona. Kannski átti hún einhvern þátt í því að í Hamragerði dvaldi hann í fimm ár og 28. október, 1872 ól Guðrún dóttur, Borghildi og 29. október, 1874 kom Vilhjálmur í heiminn. Hér skal staldrað við í frásögninni því lesandi kann að halda að hamingja foreldranna hafi verið mikil og eflaust þótti Sigmundi vænt um Guðrúnu og börnin tvö. En hann átti afar erfitt með að halda ástarlífi sínu í sómasamlegum skorðum. Á árunum 1872-1877 var hann ekki við eina fjölina felldur og þegar hann ákvað að kvænast annarri konu og gekk í hjónaband snemma árs 1878, var Guðrúnu nóg boðið. Þann 17. júní, sama ár yfirgaf hún Ísland og sigldi vestur til Kanada með börn þeirra tvö og fót yil Nýja Íslands. Var hún þar hjá hálfbróður sínum, Metúsalem Oleson næstu árin en sumarið 1883 fór hún suður til Mountain í N. Dakota. Þar átti hún vini og kunningja, það leið að jólum og áramótum. Á nýju ári vildi Guðrún kanna ýmsa möguleika í íslensku byggðunum m.a. í Garðar en þar voru sestir að fleiri vinir. Í marsbyrjun 1884 hugsar hún sér til hreyfings, fannst hún vera byrði á því fólki sem hún bjó hjá í Mountain og ákveður að fara til vina í Garðar. Heimilisfólkið allt réði henni frá að ætla þessa leið með börnin sín tvö, Borghildi átta ára og Vilhjálm sex. Á þessum tíma árs er yfirleitt allra veðra von á sléttunni, mjög algengt að margra mánaða kyrrð í lofti sé rofin með kraftmiklum byljum, stundum gengur á með slíkum ósköpum af og til út mars en að endingu gefst veturinn upp fyrir vorinu og látunum linnir. Margrét J. Benedictsson skrifaði kafla um Íslendinga á Kyrrahafsströnd í Almanakið og í einum þeirra árið 1929 er eftirfarandi lýsing á örlögum Guðrúnar:,, Var færi slæmt, – snjór á jörðu all-mikill og krapi. Vildi fólk á Mountain, að hún biði næsta dags, en Guðrún vildi það ekki, og hvað dagur mundi endast sér. Er vegalengd þessi talin að vera um 6 mílur. Halda menn að hún hafi vilst er tók að dimma, og tekið ranga braut. Börnunum hafði hún sagt að bíða sín, meðan hún svipaðist eftir bæ, og passa sig, að leggjast ekki fyrir, hvað sem á gengi, fyr en hún kæmi aftur, eða einhver vitjaði þeirra. Halda menn af þessu, að hún hafi vitað, að dagar hennar væru taldir, enda varð hún úti – lézt þessa nótt. Einhver ferðamaður hafði séð til ferða þeirra á annari braut en við var búist, og sagði hann frá því daginn eftir. Börnin höfðu og séð til þessa manns og kallað til hans, en hann heyrði það ekki. Daginn eftir var farið að leita, og fundust þau öll, Guðrún dáin, en börnin, sem hlýtt höfðu móður sinni og verið á rölti fram og aftur um nóttina voru lifandi og lítt eða ekkert skemmd. Gengur það kraftaverki næst að þau skildu lifa nóttina af. Sumir segja að Guðrún hafi týnt af sér það er hún gat af fötum sínum og látið á börnin, en sjálf hafði hún gengið skamt þar frá, lagst þar fyrir og sofnað.“