Páll Þorláksson

Vesturfarar

Niðurlag ritgerðar séra Páls, sem faðir hans skrifaði niður fyrir hann og lauk því 11. febrúar, 1882. Neðst sést að prestur hafði enn orku til að undirrita en um þremur viku síðar var hann allur. Mynd PIP.

Björn Pétursson frá Eiðum í S. Múlasýslu flutti vestur til Manitoba árið 1876 og fór þaðan til Nýja Íslands sama ár. Þar kynntist hann séra Páli Þorlákssyni og fór að hans ráðum og flutti til N. Dakota árið 1880. Hann tók brátt virkan þátt í uppbyggingu nýrrar, íslenskrar nýlendu og bersýnilega tókst með þeim séra Páli góð vinátta. Ekki er vitað hvort prestur hafi átt hugmyndina að ritgerð Björns um hagi landa og annarra þjóðarbrota í Vesturheimi en alla tíð var það séra Páli mikið kappsmál að Íslendingar fengju gagnlegar upplýsingar um gengi Íslendinga í Vesturheimi. Ritgerð Björns sá dagsins ljós skömmu fyrir 1882 og las hann hana fyrir Séra Pál þar sem hann lá banaleguna snemma árs, 1882. Prestur var sáttur en sjálfur hafði hann íhugað að semja yfirlit yfir landnámssögu Íslendinga í N. Dakota. Þórstína Þorleifsdóttir fjallar um þetta mál í riti sínu Saga Íslendinga í N. Dakota, sem út kom árið 1926.  Þar segir hún að með leyfi séra Níelsar Steingríms Þorlákssonar birti hún í bók sinni ritgerð séra Páls. Þorlákur Gunnar Jónsson skrifar stuttan inngang og lýsir tildrögum:(JÞ)

,,Eftirfarandi ritgerð er munnleg frásögn séra Páls sál. Thorlákssonar, er hann, fyrir ósk og beiðni góðkunningja síns, Björns heit. Péturssonar, lét rita eftir sér um leið og hann talaði, þá er hann lá banalegu sína hér í Mountain í marzmánuði 1882. Var svo umsamið milli þessara tveggja manna, að Björn skyldi láta prenta þessa ritgerð Páls aftan við ritgerð eftir sjálfan sig, sem Björn hafði þá ný-samið og lesið Páli, og var um ástand og fjárhag landa og annara innfluttra þjóða í Ameríku. Þessi ritgerð Björns var prentuð og send til Íslands, en Páls ritgerð komst ekki að, og hefir hún því legið síðan í vörzlum þess, er færði hana í letur, og mega það teljast 18 ár.

Mountain, N. Dakota, í aprílmán. 1900.                                                                                                                                                                  Þorlákur G. Jónsson

,,Eg undirskrifaður hefi heyrt og íhugað ofanritað ávarp frá herra Birni Páturssyni, til landa vorra heima á Íslandi, og get ekki fundið neitt í því, sem þörf sé að breyta eða lagfæra, heldur finn, að það er samkvæmt þekkingu minni og reynslu hér. En eg vil, löndum mínum til frekari fróðleiks um þessa nýju bygð vora hér í Rauðárdalnum, bæta við nokkrum orðum frá sjálfum mér.

Viðurkenning á námi í guðfræði við Concordia Háskólann í St. Louis í Missouri árið 1875. Mynd PIP

 Það var haustið 1876, að eg fyrst fékk lítil kynni af þessum svonefnda dal, Rauðárdalnum. Svo stóð á, að sú fregn kom mér til eyrna, þar sem eg var prestur Íslendinga og Norðmanna í Wisconsin, að yfir þúsund Íslendingar færu vestur um Canada og ætluðu eigi fyr að nema staðar em í hinu nýfundna Nýja Íslandi í norðvestur hluta Canada. Þá er þetta var kunnugt hér af norskum blöðum, skoraði nefnd kirkjufélagsins norska (norsku synodunnar), sú er hefir þann starfa með hendi að líta til norskra innflytjenda, sem koma prestlausir hingað til lands og setjast að í óbygðum, á mig að fara og vitja þesara landa minna. Svo sem kunnugt er, varð eg við þessari áskorun, og lá leið mín um þenna dal.“

Nýja Ísland: Járnbrautir voru þá skamt á veg komnar hér norðureftir dalnum, og hlaut eg að taka mér far með gufuskipi á Rauðárfljótinu, 150 mílur eftir beinustriki, en 4-500 mílur eftir fljótinu, norður til bæjarins Winnipeg í Manitoba. Skipstjóri sagði mér þá frá því, að hann hefði nýfluttan fjölda Íslendinga til Winnipeg, og kvað það leiðinlegt að svo margt efnilegt fólk, væri leitt fram hjá hinum frjósömu óbygðum beggja vegna við Rauðá, norður á það land, sem hann áliti óbyggilegt. Hann stakk upp á því við mig, að eg reyndi að snúa þeim við. Eg sýndi honum fram á, hve ómögulegt það væri, eftir ástæðum þeirra, þar sem þeir ættu mikla hjálp í vændum hjá Canada-stjórn, ef þeir settust að í Nýja Íslandi. Auk þess væri það óskoðað og óreynt af mér, hvort Nýja Ísland þyrfti að álítast óbyggilegt. – Nú leið hálft annað ár, og um vorið ’78 hafði eg dvalið missiristíma í Nýja Íslandi, og farið um bygðina fram og aftur, jafnvel út um óbygðir þess. Þóttist eg þá vera farinn að sjá þess full merki, að Íslendingar myndu seint eða aldrei geta þrifist á þessu landi. Það væri auðsætt, ef málið væri látið afskiptalaust og eigi reynt að finna annað betra land, til að vísa Ný – Íslendingum og íslenzkum innflytjendum á, að þá myndu fleiri og fleiri að heiman vera leiddir í sömu bágindin. Ásetti eg mér því að leita eftir betra landi strax um vorið, þótt litlar líkur væru til, að margir gætu fært sér það í nyt sökum hinnar miklu fátæktar.

Butler Olson og frú. Þau voru frumbyggjar á sléttunni vestur af Cavalier og reyndust fyrstu íslensku lannemunum þar ætíð vel. Seinna fluttu þau norðu í Brownbyggð í Manitoba.

Landaleit: Réðust þá með mér til ferðar nokkrir menn: Jóhann Hallsson og Gunnar sonur hans og Magnús Stefánsson frá Gimli og í Winnipeg bættust tveir við: Sigurður Jósúa Björnsson og Árni Þorláksson. Þegar vér fórum frá Gimli, var oss helst í hug, að leitast ekki fyr fyrir um land en vér kæmum til Lyon Co. í Minnesota, í sambandi við hina íslenzku bygð þar. Meðan við áttum dvöl í Winnipeg, vildi svo til, að Magnús Stefánsson hitti að tali ritstjóra nokkurn, er kvaðst kunnugur Norður Dakota, og ekki gæti vísað okkur á betra land en væri við hin svonefndu Pembina-fjöll. Þessi maður virtist taka innilegan þátt í bágindum Íslendinga í Nýja Íslandi, og vildi hafa talað við mig um þetta. Eg hugði fyrst að þetta væri einhver landspekúlant, sem ætti sjálfur lönd í þessu héraði, og vildi að þau bygðust sem fyrst; en eg áleit þó rangt að fyrirlíta ráð hans algerlega, og snerumst vér félagar þess vegna að því að nema staðar í Pembina strax, og taka okkur ferð þaðan vestur í land að Pembina-fjöllum. Það mun hafa verið um miðjan apríl; veður var hið blíðasta. Við stigum af skipi í Pembina síðla dags og gistum á lítilfjörlegu inni (krá með gistingu: Innskot Jónas Þór) þar á árbakkanum, því þá voru þar eigi mörg, og því síður merkileg hús. Morguninn eftir fórum við fótgangandi vestur um slétturnar; sunnanvert við hina svonefndu Tunguá, sem kemur vestan úr Pembinafjöllum. Úti á sléttunni sást þá ekkert hús, heldur bara hús á stangli meðfram skógarjaðrinum þar við ána. Við komum í stöku hús og spurðum tíðinda um hitt og þetta landinu viðvíkjandi. Virtust flestir lítið vita nema um sína eigin jörð og nágranna sinna, og voru þeir vel ánægðir yfir þeim. Þó voru nokkrir, er rendu grun í að hæðir þessar myndu vera til, og þar myndi vera nýtilegt land. Bestar upplýsingar fengum við þar sem við gistum, á póstafgreiðslustaðnum Cavalier, 24 mílur suðvestur af Pembina, bjá þýzkum ríkisbónda, John Betchel, sem þá hafði setið þar að búi í tvö ár. Þá var bygðin nær Tunguá nær þrotin, en tók við einlæg óbygð á alla vegu. Frá Cavalier héldum við næsta dag í sömu stefnu í óbygð. Var þá skógurinn meðfram ánni farinn að aukast og landið að hækka og megrast. Við gengum ýmist norðan til eða sunnanvert við ána, sem þar myndar djúpan dal, þar til við komum í fjallasýn. Þá lækkaði landið alt í einu. Við sáum fyrir okkur grænar flatneskjur víðsvegar með skógarbeltum svo langt sem augað eygði suður og vestur. Hæðirnar blöstu við að vestan. Þótti okkur nú útlit landsins fara að verða það, sem við á Íslandi köllum sveitarlegt. Fundum við hina sömu feitu jörð, sem áður á grassléttunum. Vér áðum þarna nokkra stund, og kom oss saman um að snúa hér aftur, því liðið var á daginn og vér orðnir lúnir. Sömuleiðis réðst það með oss, að þeir félagar mínir skyldu verða hér eftir, og rannsaka betur þetta land, er nú lá fyrir oss, en eg skyldi, eins og eg hafði ætlað, skoða land í Dakota og Minnesota, 300 mílum sunnar. Eg taldi það þá sjálfsagt, að vér yrðum að kjósa oss hér bygð austan undir heiðunum, þótt langt væri frá markaði að svo komnu, sakir hinna miklu skóga, er vér þóttumst sjá hvarvetna á þessu svæði, ef jarðvegurinn reyndist jafngóður og þar sem vér þá vorum. Lesarinn mun nú renna grun í, að vér vorum nú búnir að fá að líta það land – en þó mestmegnis álengdar, sem nú nefnist Íslendingabygð í Dakota og mun þegar skipað meira en 600 Íslendingum, sem margir eiga fallega akra og góðan bústofn. Næstu nótt gistum við hjá norskum manni, B. Olson að nafni, sem bjó þar inni í skóginum suðvestur af Cavalier; nýlega fluttur þangað; einn sinnar þjóðar: með konu og börn. Hann tók oss sem bræðrum sínum, og kvað oss velkomna í nágrenni við sig.“

Jóhann Hallsson. Byggðin þar sem hann nam land bar seinna nafn hans og nefndist Hallsonbyggð Mynd SÍND.

Ástandið í Nýja Íslandi: Nú líður eitt misseri. Þá kem eg aftur frá Minnesota og Wisconsin til Nýja Íslands sem fastur prestur þeirra safnaða, sem höfðu myndast þar veturinn áður undir minni umsjón.  Á leiðinni norður hafði eg gert krók á mig vestur til þeirra félaga að Pembina-heiðum. Höfðu tveir af þeim tekið sér lönd fast hjá Olson. En tveir, Jóhann Hallsson og sonur hans og sá þriðji, er bæst hafði í hópinn, tengdasonur Jóhanns, Gísli Egilsson, höfðu numið land nokkrum spöl vestar  en þar sem vér áðum um vorið. Sagði eg þeim greinilega frá landskoðun minni suðurfrá; það með, að mér þætti ekkert efamál að kjósa hér bygð fremur en þar, sérstaklega af þeim tveimur ástæðum, að bæði lægi þetta land nær fyrir Ný-Íslendinga að komast á það, og auk þess væru hér svo hentugir og miklir skógar, en syðra, í Minnesota, ekki að fá nema grasivaxnar sléttur, skóglausar með öllu. Jóhann Hallsson hugsaði sig ekki lengi um, eftir að við skildum um vorið, að hverfa aftur til Nýja Íslands að sækja fjölskyldu sína og búslóð. Vakti þetta ekki alllítið athygli manna í Nýja Íslandi. Nú líður og bíður fram eftir vetrinum. Menn fara að hugsa þetta mál og ræða það, fyrst sín á milli, og mælist misjafnlega fyrir eins og gengur. Sumir fóru að yrkja um Nýja Ísland föðurlandssöngva. “Framfari“ breiddi þá út, en almenningur virtist ekki reiðubúinn til að taka undir þá. Menn sannfærðust æ betur um að framtíð Nýja Íslands væri ófríð, en aftur á hinn bóginn var það ískyggilegt, að ganga frá húsum og verkum sínum þar um langan tíma, stjórnarláni, hálfbygðum kirkjum, gröfum ástvina sinna, og verða svo að yrkja upp nýjan stofn í annari eyðimörku. Kom þar um síðir hreyfingum þessum, að boðað var til opinbers fundar af þáverandi Þingráðsstjóra, Ólafi Ólafssyni frá Espihóli. Sá fundur var þó ekki sóttur nema af tiltölulega fáum mönnum. Eg lýsti því þar yfir, að það væri að vísu réttast fyrir menn að sitja sem fastastir í Nýja Íslandi, ef þeir hefðu gildar ástæður til að vona, að þeir gætu haft þar sómasamlega ofan af fyrir sér og sínum, og lifað saman eins og kristnir og siðaðir menn. En ef að menn hefðu þær ekki, þá væri það skylda þeirra, sjálfra sín og niðja þeirra vegna, að leyta sem allra fyrst á lann leyfilegan hátt eftir lífvænlegri bústað. Eg gaf mönnum þá þær upplýsingar um Dakota, sem eg gat. Fundurinn komst loks að þeirri niðurstöðu, að fela okkur Ólafi Ólafssyni að semja lýsing af Nýja Íslandi og frumvarp til stjórnarinnar um brottflutning þaðan. Það skyldi síðan ganga um til undirskrifta þeirra, sem vildu vera með í fyrirtækinu. Það leið fram yfir miðjan vetur, og fóru fleiri að brjótast í að komast suður fyrir landamærin til að skoða sig um. Þar á meðal var Jón Bergmann, sem aftur skrifaði einhverjar hinar greinilegustu fréttir héðan ofan til Nýja Íslands og vakti bréf hans mikla eftirtekt manna, því maðurinn er kunnur að frábærri gætni í orðum og verkum. Það má geta þess hér, að frá Gimli til Pembina eru 120 mílur, og þaðan vestur að heiðum 40 mílur. Þessa leið urðu nú menn flestir að fara gangandi vegna féleysis, enda var ekki hægt að sjá, hvernig konur og börn og gamalmenni ættu að komast þetta hjálparlaust. En það var um að gera að gefast ekki upp, því málið var alvarlegt og áríðandi, en mótspyrnan mikil á allar lundir frá hendi agentanna og vina þeirra. (Hér á séra Páll við Sigtrygg Jónasson og John Taylor. Innskot Jónas Þór) Eg átti samtal um þetta við söfnuði mína, hvort það ekki væri eindreginn vilji þeirra, að flytja suður, og játuðu menn því yfir höfuð, en kváðust þó ekki sjá, hvernig þeir gætu það af eigin ramleik. Þegar hér var komið sögunni, vorum við Ólafur (eða öllu heldur Ólafur einn) búnir að semja skjal til Canadastjórnar, og fá undirskriftir 130 fjölskyldufeðra undir það, snúa því og senda til stjórnarinnar. Það er kunnugra en frá þurfi að segja, hvert svar stjórnin gaf. En vér hugsuðum aðeins um að bjarga oss og þeim, er vildu bjargast láta upp úr foræðinu á þurt land. Sumarið kom, menn smá komust upp, og það mestmegnis fyrir þann styrk, er Norðmenn fyrir mína milligöngu skutu til vor, svo að um haustið 1879 mátti finna um fimtíu fjölskyldur, sem höfðu komið sér niður á völdum jörðum hér austan við heiðarnar. 

Erfið fæðing – íslensk byggð: Það sumar flutti eg alfarinn hingað. Tók mér land í miðri bygð, eftir því sem nú hagar til. Bygði mér þar hús með tilhjálp landa minna. Þá var heilsa mín þegar mjög biluð, og eg lítt fær um að standa í þessari stöðu, sem eg var í, en mikið var þar enn eftir ógert af því sem gera þurfti. Stofn nýlendunnar var að vísu fenginn, en langur vetur stóð fyrir dyrum hrakinni og snauðra manna langt úti í óbygðum. Ýmsir urðu smeykir, aðrir fóru að spá hrakspám og tala um að snúa aftur til Nýja Íslands. Eg hafði byrjað þetta fyrirtæki í Drottins nafni og treysti því fastlega, að Hann myndi ráða fram úr því, enda varð það traust eigi til skammar. Veturinn leið, og var einhver hinn versti, sem menn höfðu lifað hér. Mörg hús voru stundum matarlaus í einu, en það tókst ætíð að að ráða bót á því í tíma, svo eigi varð tjón að, bæði fyrir lán frá bændum, sem eg varð persónulega að taka að mér að borga innan vissra tíma, og samskot frá Norðmönnum hingað og þangað í norsku Synodunni. Spart var haldið á öllu, eftir því sem hægt var, og menn mega eiga það, að þeir voru nýtnir og sparsamir þann vetur.  Lesarinn gæti þess, að flestallar fjölskyldur hér höfðu ekki enn haft neitt tækifæri til þess að fá neitt úr jörð, og nú var um að gera , að þær gætu haldist við og unnið á löndum sínum við jarðyrkju og heyskap til undirbúnings undir næsta sumar. En sem nærri má geta, skorti bæði útsæði og mat til þess um vorið 1880. Eg fékk því Harald bróður minn, sem komið hafði frá Wisconsin árinu áður með nokkuð af gripum, til þess ásamt mér að setja gripi sína í veð fyrir útsæði og mat, og talsvert af nauðsynlegustu jarðyrkjutólum. Um þetta leyti var eg staddur suður í Minnesota til lækninga, en hafði iðulega fréttir af því, hvernig gekk til hér nyðra, bæði í Dakota og Nýja Íslandi. Meðal annars barst mér sú fregn, að í Nýja Íslandi hefði verið beitt allri orku til þess að koma í veg fyrir, að Norðmenn veittu mér lengur hjálp til þess fyrirtækis. Hefði í þeim tilgangi verið boðaður fundur um alla nýlenduna, og því lýst yfir, að gerðir mínar mæltust illa fyrir, og þætti yfir höfuð til óvirðingar Íslendingum. Á þeim fundi hafði verið ályktað, að grein til mótmæla útflutningsfyrirtæki mínu skyldi rituð og sett í norsk og ensk blöð.  Skömmu síðar barst þetta bréf mér í hendur á norsku. Eg las bréfið og íhugaði efni þess, og þottist sjá, að það myndi geta gert nokkurt ógagn í bráð, hvað samskot og aðra hjálp snerti, því nú lá hvað mest á henni, eftir því sem ástatt var í Dakota. Í bréfinu var lýst yfir því, að þetta uppátæki mitt væri með öllu óþarft. Framtíð væri hin ágætasta í Nýja Íslandi og almenningur hæst ánægður með kjör sín. Íslendingar sárgramir yfir slíku atferli mínu. Fréttir þær, sem eg hefði ritað þaðan, væru ósannar, og ýmislegt að öðru leyti ranghermt. 

Viðbrögð prests: Að öllu þessu íhuguðu, sá eg það, að til þess að veikja áhrif þessa bréfs um leið og það kæmi út í blöðunum, varð eg tvent að gera. Fyrst það, að rita fáein orð í blöðin á móti þessu skjali; hitt annað, að taka mér ferð á hendur meðal Norðmanna í Minnesota, skýra málið fyrir þeim persónulega og hvetja þá til bráðrar liðveizlu. Eg byrjaði á kaupmanninum, sem eg var hjá, sýndi honum bréfið og fékk hann til að lofa að lána bygð vorri eitt hundrað tunnur af hveiti til eins árs, og fjörutíu nautgripi til tveggja ára, alt með 10 prósent rentu. Þar næst reit eg yfirmönnum járnbrautarfélagsins “St. Paul, Minneapolis and Manitoba“, í St. Paul. Bað eg þá að skjóta téðu láni norður til Pembina fyrir ekki neitt (það er um 400 mílur), því það hlaut annars að kosta mig þrjú hundruð dollara. Félagið tók því strax vel. Lánið kaupmannsins kom til Pembina (þó eigi nema 25 gripir í það sinn). Fregnin flaug upp undir heiðar; vonir manna hrestust og lifnuðu, en helzt til margir voru þurfamenn fyrir þessu. Kaupmaður hristi höfuðið yfir ofdirfsku minni, og kvaðst gera þetta alt fyrir mig.  Eg bað hann þá að lána mér hest, til þess að ríða út til norskra bænda í nágrenni við hann, og fá þá til að lána mér jafnmarga gripi. Hann hló, en léði mér hestinn. Að tveim vikum liðnum lét eg reka þrjátíu og fjóra gripi inn í rétt kaupmanns, sem og þá bætti við 9 gripum frá sér. Því næst reit eg téðu járnbrautarfélagi í St. Paul, sagði þeim frá hvað bændur hefðu gert, og spurði hvað flutningur myndi nú kosta með braut þeirra. Þeir svöruðu strax, að þeir skyldu líka flytja það fyrir ekkert. En meira vildu þeir ekki lofa. Sjálfur fylgdi eg þessum gripum, ásamt tveim norskum gripagæzlumönnum, til Pembina, og þaðan heim tíl mín. Var nú sjáanlegur fögnuður af þessum feng, en fengurinn hvarf og brátt, líkt og í sjóinn, því nú höfðu bæzt við í bygðina ýmsir örsnauðir menn frá Nýja Íslandi. Eg hafði fengið þetta lán hjá bændum með sömu kostum sem hið fyrra, að því undanteknu, að þeir létu mér eftir gripina með lægra verði, þótt eg yrði hér að setja á þá líkt verð og hina, til þess að geta brúkað suma af þeim til lúkningar nokkru af þeim skuldum, sem á mér hvíldu að borga strax fyrir bygð vora, því til þess hafði eg aðeins $200.oo lán. Skömmu eftir þetta kvaddi eg til fundar, skýrði fyrir mönnum hvað eg hafði gert, og leitaði frekari upplýsinga um ástand manna yfir höfuð, og vonir þeirra um að geta bjargað sér næsta vetur, því að svo framarlega sem þeir gætu það, áleit eg að bygðin væri sloppin. Bauð eg mönnum að fara einar 200 mílur suður til Minnesota, og reyna enn að safna lánsgripum hjá hinum norsku söfnuðum þar. Var að því gerður góður rómur; og menn lofuðu að gera sem, þeir gætu, til að leita sér atvinnu; enda má óhætt fullyrða það, að fáir eða engir hafa legið á liði sínu, síðan þeir komu hingað. Í júlímánuði fór eg suður aftur, þó ekki meira en hálfa leið við það, sem eg hafði farið áður. Þar ýmist reið eg eða ók um hinar norsku bygðir, og var mér vel tekið als staðar, sérstaklega af sóknarprestunum, sem ýmist lögðu mér til reiðskjóta, eða óku mér fyrir ekki neitt, fylgust jafnan sjálfir með og studdu mál mitt drengilega við sóknarbörn sín. Eftir nær því tveggja mánaða ferðalag á þenna hátt, hafði eg fengið loforð fyrir 85 – áttatíu og fimm- nautgripum yngri og eldri, og 65 sauðkindum, auk dálítis í peningum. Þá komu til mín, eftir fyrirmælum norðan úr bygð vorri, tveir ungir menn og tveir drengir. Söfnuðum við með tilhjálp Norðmanna, fénaði þessum saman í eitt, tákum það norður, og komumst með flest alt heilt á húfi heim til vor 2. október. Síðan kvaddi ég þrjá menn í nefnd, til þess að leggja sanngjarnt söluverð á þenna fénað, og eftir því verði lánuðum við flest út í bygðina, með því skilyrði, að það yrði borgað á þrem árum, þriðjungur árlega, rentulaust. En sumt seldum við upp í matarskuldir bygðarinnar. Þenna fénað hafði eg fengið ýmis sem rentulaust lán til þriggja ára, eða sem hreinar gjafir. En til þess að tryggja lánardrottnum mínum borgun þessa, er þeir höfðu lánað bygðinni, hlaut eg að selja alt, og mun þó ekki betur en hrökkva til, þó alt standi í réttum skilum frá bygðarinnar hálfu. Þess má geta hér, að þau höfuð munu – því miður – vera til í bygð vorri, sem eiga bágt með að skilja það atriði, hvernig eg hafi getað fengið suma gripina gefins, og þó haft gildar ástæður til þess að selja alla, þegar hingað kom. En fyrir slík annes verður aldrei siglt, og ekkert örðugt kærleiksverk framkvæmt, ef menn hreyktust upp við það að vera misskildir og grunaðir um græsku af sumum. Nú virtust þá loksins vera fullar líkur til, að bygð vor myndi bjargast næsta vetur, því ýmist voru þeir, sem höfðu töluvert upp úr jörð það haust, 1880 og auk þess voru nokkrir sjálfbjarga menn, og jafnvel kraftmenn, komnir hingað í bygð vora það sumar, frá Lyon Co., Minnesota og Shawano Co., Wisconsin. Margir komu aftur úr kaupavinnu með töluvert fé. Og margir nýir menn norðan úr Winnipeg og Manitoba með talsverðum krafti. 

Næstu ár:  Í Nýja Íslandi var nú svo ástatt, að jafnvel sumir þeir, sem höfðu hafið það land upp til skýjanna vorið áður, voru nú uppgefnir, og  langaði þá þaðan út af lífinu. Því skömmu eftir það, að hið áðurnefnda skjal hafði birzt í blöðunum, ylgdist Winnipegvatn og flæddi víða inn yfir bygðina, svo að augu sumra sjóndapurra manna lukust upp, og að þeir jafnvel sáu nú, að Nýja Ísland var þá yfir höfuð of deiglent, til þess að miklar bygðir gætu þrifist þar. Þessu flóði fylgdu og önnur fleiri, enda gáfust þá höfundar áðurnefnds skjals upp að senda fleiri skýrslur til blaðanna um ánægjulegt ástand Nýja Íslands. Síðan er nú liðið á annað ár, og er merkilegt að sjá, hversu bygð vorri hefir skotið fram á þessu tímabili; enda mun nú enginn efast lengur um, sem nokkuð þekkir til hér, að hún muni komast í fagran blóma innan fárra ára. Ber til þess eigi hvað minst sá atburður, að voldugt járnbrautarfélag virðist hafa staðráðið, að leggja járnbraut sína austan heiðanna eftir nýlendunni endilangri. Aðrar þjóðir keppa um að komast hingað nú. Allir dást að fegurð og gæðum landsins, og hve hentuglega er skift milli vor nægum skógi, graslendi og ágætu rennandi vatni ofan úr heiðunum, enda er landið tekið nær hólmalaust. Og svo er komið, að bygðin getur varla aukist nema vestur heiðarnar, sem enn eru ómældar. Heiðarnar eru ennþá skamt rannsakaðar af oss. Eg hefi t.d. sjálfur ekki komið lengra en hér um bil 3 til 4 mílur vestur á þær. Brúnirnar og dalverpin austan í þeim er skógi vaxið. og þar fyrir ofan tekur strax við öldumynduð grasslétta, svo langt sem augað eygir. Ýmsir eru þegar farnir að nema lönd uppi á þeim, bæði Íslendingar og aðrar þjóðir, og láta vel yfir landkostum. Það sem við köllum bygð vora, má segja að sé svæði 16 mílna langt og 6 til 12 mílna breitt. Menn, sem segjast hafa farið vestur eftir öllu, skýra frá, að langt vestur á heiðunum séu fiskivötn og skógar, og hinn indæli jarðvegur, og að ennþá vestar komi aðrar heiðar eða fjöll, sem beri langt af þessum með fögru útsýni  m. fl. Sem stendur hafa menn þó ekki alment leyfi til að taka sér lönd lengra vestur en 24 mílur frá heiðarbrúnunum.  En svæðið verður náttúrulega víkkað af Bandaríkjastjórninni, eftir því sem bygðin færist vestur, eins og venja er til. 

Sigurjón Sveinsson

Benedikt Jóhannesson Myndir SÍND

Niðurlag: Lesaranum mun nú, sem vonlegt er, þykja orð mín vera orðin helzt til mörg, en einu litlu atriði vil eg þó bæta við, er mér virðist vel lagað til að gefa löndum mínum ljósa hugmynd um, hve fljótt duglegum bónda getur miðað áfram á þessum löndum. Tveir ungir menn og einhleypir, Sigurjón Sveinsson og Benedikt Jóhannesson, komu hingað frá Wisconsin sumarið 1879, og tóku sér jarðir hvor við hliðina á öðrum, og bygðu sér lítilfjörleg skýli. Gengu í félag og skiftust á um að vera heima og fara í kaupavinnu. Þeir voru víst félitlir, en kunnu til landvinnu hér í landi. Haustið 1881, eða næstliðið haust, skáru þeir upp af akri sínum 400 tunnur af bezta hveiti og 150 af höfrum, auk venjulegra garðávaxta. Auk þess hafa þeir keypt og alið upp nokkra gripi á þessu tímabili. Ofanskráð hefi eg samið fyrir áskorun annara, liggjandi í rúminu, þjáður af langvinnum sjúkdómi, en annar ritar fyrir mig. Ábyrgist eg, að sé nokkuð mishermt, getur það eigi verið annað en það er engu skiftir. Tilgangi mínum er fullnægt, ef augnamið og tildrög stofnunar nýlendu þessarar geta fremur fyrir það orðið skilin á réttan hátt. Landar mínir heima, sem berjast um arðlítið ár eftir ár á ófrjósömum harðbala-jörðum, gætu  betur séð, að Drottinn á hér gott land, einnig handa þeim, ef þeir geta og vilja færa sér það í nyt. Og svo sé Drottinn lofaður fyrir trúfasta hjálp sína við oss ómaklega syndara.

Mountain, Pembina Co., Dakota, 11. febrúar, 1882

Páll Þorláksson

Til umhugsunar: Til að átta sig betur á deilum séra Páls Þorlálssonar og leiðtoga fólksins í Nýja Íslandi skal bent á greinar í Framfara eftir Sigtrygg Jónasson, Halldór Briem, ritstjóra blaðsins, séra Jón Bjarnason o.fl. Tilgangurinn með stofnun Nýja Íslands, afskekkt í óbyggðum á vesturbakka Winnipegvatns var fyrst og fremst til að varðveita íslenska arfleifð í Vesturheimi. Einangraðir og utan við kanadískt samfélag átti að reisa sjálstæða, íslenska byggð, engum háð eða skuldbundin. Séra Jón Bjarnason var fulltrúi íslenskar þjóðkirkju en séra Páll var menntaður hjá norsku kirkjufélagi (Norwegian Synod) í Bandaríkjunum og var vígður prestur hjá því félagi. Hann þáði laun frá félaginu og tengdist því þess vegna sterkum böndum. Þeir sem kusu hann sinn prest í Nýja Íslandi (Pálsmenn) voru þá í augum hinna sem voru í söfnuðum séra Jóns (Jónsmenn) að hafna íslensku þjóðkirkjunni, taka skref inn í norðuramerískt samfélag. Að þiggja síðan lán og gjafir frá norskum bændum, sem vitaskuld voru allir í söfnuðum norska kirkjufélagsins var ófyrirgefanlegt í hugum Jónsmanna og bar ekki mikinn vott um vilja til að standa óstuddir og sjálfstæðir Íslendingar vestanhafs. Minnt skal á að Kanadastjórn lánaði Íslendingunum í Nýja Íslandi 80 þús. dali sem greiðast átti að fullu árið 1889. Það var aldrei greitt til fulls heldur látið falla niður þegar ljóst var að þorri landnámsmanna í Nýja Íslandi 1875-1880 flutti þaðan brott. JÞ.