Breiðablik

Vesturfarar

Séra Friðrik J. Bergmann tók að sér ritstjórn tímaritsins Breiðablik, sem fyrst kom út í júní árið 1906. Það kom út mánaðarlega í átta ár, síðasta tölublað þess sá dagsins ljós í maí, 1914. Útgefandinn var Ólafur S. Thorgeirsson og sá prentsmiðja hans um prentunina. Tryggvi J. Oleson skrifaði :,, Breiðablik var í stóru átta blaða broti, 16 blaðsíður að stærð og með skrautkápu. Því var lýst sem mánaðarriti ,,til stuðnings íslenzkri menningu“. Í fyrsta tölublaði ávarpar útgefandinn lesendur á þessa leið:“ Breiðablik vilja af alefli leitast við að styðja alt það, er verða mætti íslenzkri menning til eflingar og frama.“ En ritstjórinn kemst þannig að orði:“Og af alefli vildum vér að því styðja, að samúðarþel milli blaðamanna og flokka næði að eflast, en æsingar og flokkshatur að bælast og hverfa“