
Guðmundur Jónsson Mynd Dalamenn
Guðmundur Jónsson fæddist 24. júlí, 1865 í Dalasýslu. Dáinn 24. mars, 1947 í Mouse River, N. Dakota. George Freeman vestra.
Maki: 1888 Guðbjörg Helgadóttir f. í Mýrasýslu 17. maí, 1872, dáinn 7. júlí, 1959.
Börn: 1. Sigríður Lilja f. 11. janúar, 1889 2. Elizabet Helga f. 14. mars, 1890 3. John f. 26. júní, 1893 4. William f. 19. september, 1895 5. Ellen Mae f. 24. október, 1901 6. Mabel Emily f. 4. maí, 1904 7. Esther Björg f. 18. apríl, 1909 8. Carl Julius f. 3. júlí, 1912. Tveir drengir dóu í barnæsku og annar sonur, Victor Valtyr dó um aldur fram.
Guðmundur flutti vestur til Kinmount í Ontario með móður sinni, stjúpföður og systkinum árið 1874. Þau fluttu þaðan um vorið 1875 til Milwaukee í Wisconsin þar sem þau bjuggu um nokkurt skeið. Þaðan flutti fjölskyldan til Elk Rapids í Michigan þangað var þá Helgi Guðmundsson kominn með sína fjölskyldu. Kona hans Helga var systir Sigríðar, móður Guðmundar. Guðbjörg Helgadóttir kom þangað árið 1882. Fjölskyldur þessar fóru saman vestur í Akrabyggð í N. Dakota árið 1884 en byggð þar hafði þést þó nokkuð og undi Helgi Guðmundsson þar illa. Það varð úr að hann og Guðmundur fóru vestur í Mouse River byggð til að skoða lönd og valdi Helgi þar stað fyrir sig og sína. Guðmundur kom vestur þangað ári síðar eða vorið 1887 og bjó þar alla tíð. Meira um Guðmund í Íslensk arfleifð að neðan.
