Hannes Skúlason

ID: 19231
Fædd(ur) vestra
Fæðingarár : 1878
Fæðingarstaður : Gimli
Dánarár : 1951

Hannes Skúlason fæddist á Gimli í Nýja Íslandi árið 1878.  Dáinn í Wynyard í Saskatchewan árið 1951. Anderson vestra.

Maki: 1908 Margrét Guðmundsdóttir f. 23. desember, 1888 í Rangárvallasýslu, d. í Wynyard 1949.

Börn: 1. Sigríður 2. Lára 3. Skúli 4. Kristín (Christine) 5. William 6. Louisa 7. Karl (Carl) 8. Erlendur (Erlend eða Earle) 9. Hannes (Hank).

Lestarferð Hannesar endaði í Sheho og þaðan gekk hann í áttina að Foam Lake þar sem hann fékk ráð frá umboðsmanni ríkisins. Loks sést svo Wynyard og þar norður af nam hann land.

Hannes var sonur Skúla Árnasonar og Sigríðar Erlendsdóttur landnema á Bræðraborg í Nýja Íslandi árið 1876. Þar fæddist Hannes og flutti með foreldrum sínum árið 1881 í Argylebyggð þar sem þau námu land skammt suður af Cypress River. Þar ólst Hannes upp en árið 1904, þegar nánast ekkert land var að finna í byggðinni ákvað Hannes að leita annað. Hann tók lest frá Winnipeg til Yorkton í Saskatchewan og þaðan á endastöð í Sheho, norðvestur af Yorkton. Þaðan gekk hann áfram þar til hann fann umboðsmann ríkisins sem leiðbeindi landnemum og skráði þeirra val. Hannes fékk far með birgðaflutningateymi uns hann kom á stað norður af þar sem bærinn Wynyard er í dag. Þar fann hann álitlegan stað og var einn fyrsti Íslendingurinn til að nema þar land. Hann sneri til baka, skráði landnám sitt og tók svo lest til baka til Winnipeg.  Vorið eftir (1905) fór hann norður á land sitt með vini sínum og saman byggðu þeir þar bjálkakofa. Árið 1908 eru samgöngur miklu skárri og þá fóru nýgift hjónin, Margrét og Hannes á framtíðarlandið. Þau fluttu löngu seinna til Wynyard þar sem þau bjuggu sín síðustu ár.

Frá vinstri: Skúli, Kristín, Lára, Hannes, Karl, Margrét, Louisa, Sigríður og William. Fyrir fram Margréti og Louisa er Earle og fremstur í hvítri skyrtu er Hannes. Mynd RbQ