
Petrína Magnúsdóttir Mynd WtW
Petrína Gunnhildur Magnúsdóttir fæddist í Lundar í Manitoba árið 1889.
Maki: 26. desember, 1915 Jón Pétur Bergþórsson f. í Möðrudal í N. Múlasýslu árið 1883, d. 5. febrúar, 1958 í Lundar.
Börn: 1. Guðrún (Runa) f. 1915 2. Ólafur (Oli) 3. Vilhelmína (Mina) 4. Albert 5. Magnús 6. Jón (John).
Petrína var dóttir Magnúsar Ólafssonar og Helgu Jónsdóttur sem vestur fluttu árið 1887 og settust að í Lundarbyggð. Petrína ólst upp í byggðinni, gekk þar í skóla en seinna fór hún í landbúnaðarskóla í Winnipeg. Vann ýmis störf í Lundar áður en hún giftist. Jón var sonur Bergþórs Jónssonar og Vilhelmínu Eyjólfsdóttur og fór með þeim vestur til Kanada árið 1889. Jón ólst upp í föðurhúsum í Lundarbyggð og fór fljótlega að vinna fyrir sér. Ungur fékk hann vinnu í verslun Joe Halldorson í Lundar. Hann keypti hesta og vagn, fyllti vagninn af alls kyns nauðsynjum í versluninni og ferðaðist til afskekktra staða við Manitobavatn og seldi vörur. Á veturna notaði hann sleða. Hann var venjulega nokkra daga í leiðangrinum og gisti þá hjá bændum. Seinna vann hann hjá CNR járnbrautafyrirtækinu.
