Þórður kynntist verslun og viðskiptum hjá kaupmanni á Seyðisfirði árin 1906-1909. Í Vestur íslenskar æviskrár er í bók 2 ágæt samantekt um lífshlaup Þórðar, sem vel sýnir hversu fjölhæfur hann var: ,,Fluttist þá vestur (innsk.JÞ 1909) með foreldrum og settist fyrst að hjá þeim við Kristnes, Sask., en tók árið eftir heimilisréttarland 6 mílursuðaustur frá Leslie, Sask. – Vann að verzlunarstörfum hjá S.V.B. Stephanson í Leslie 1911-12 og síðan í timburverzlun Þórðar Vatnsdal í Wadena, Sask., 1912-15. Veturinn 1915-16, stundaði hann nám við Hemphill Industrial School í Winnipeg og vann næsta sumar við landbúnað hjá Tryggva Arasyni í Argyle, Man. Veturinn 1916-17 stundaði hann fiskveiðar á Winnipegvatni. Bóndi á heimilisréttarlandi sínu í Leslie 1917-22. Kornkaupmaður fyrir Sask. Co-op Elevator Co. í Edfield, Sask., 1922-28. Starfaði síðan fyrir Sask. Weat Pool í Kuroki, Sask., 1928-49 og í Arcola, Sask., 1949-61. Starfaði alls í 37 ár fyrir hveitisamlagið í Saskatchewan, og var sæmdur gullpeningi og gull-úri frá samlaginu fyrir góða þjónustu, er hann lét af starfi. Jafnframt kornlyftustarfinu verzlaði hann með bíla, kol, timbur og áburð. Einnig seldi hann vátryggingar fyrir ýmis félög. Hann var skipaður friðdómari 1932 og gegndi því embætti til 1959. Hann kom til Íslands 1959 á vegum Bar Diamond Ranching Co. í Arcola og keypti þar 75 hesta fyrir félagið, sem sendir voru flugleiðis vestur. Þórður gegndi skólanefndarstörfum á 12 ár. Hann var umboðsmaður dönsku Frímúrareglunnar í Saskatchewanfylki lengi…”