Manitobavatn

Vesturfarar

Hvítfiskur

Fiskveiðar á landnámsárunum: Íslendingar sem settust að í Manitoba á síðustu árum 19. aldar þurftu eðlilega að aðlagast framandi staðháttum, gróðri og veðurfari. Meginlandsloftslagið reyndist mörum erfitt, ískaldir vetur og brennheit sumur. Svonefnt millivatnasvæði, þ.e. svæðið norður af Winnipeg milli Winnipegvatns og Manitobavatns freistaði margra og alveg ljóst að vötnin miklu höfðu aðdráttarafl. Bæði feikilega stór og minntu eflaust marga á Atlantshafið umhverfis Ísland. Íslenskt landnám hófst við vestannvert Winnipegvatn árið 1875 þar sem Nýja Ísland var myndað. Þótt upphafsárin hafi reynst mörgum erfið og margir flutt á brott á fyrstu fimm árunum þá kom að því að landnemar lærðu á vatnið og áður en 19. öldin var öll þá höfði íslenskir fiskimenn hafið mikla útgerð.  Um 1885 fara Íslendingar að hugleiða önnur svæði sem Manitobastjórn hafði til umráða og hvatti innflytjendur til að skoða. Könnunarleiðangrar út á sléttuna vestur af Winnipeg voru skipulagðir en sitt sýndist hverjum. Svæðið norðan og vestan við Manitoba var kallað norðvesturhérað og var Nýja Ísland staðsett þar við stofnun árið 1875. Haustið 1887 höfðu fáeinir Íslendingar sest að í svonefndri Lundarbyggð og eftir að kofi hafði verið reistur og heyja aflað fyrir fáeina gripi gafst tími til að kanna veiðar í Manitobavatni. Einhverjir höfðu náð sér í net sem flest voru 15 til 20 faðmar á lengd og með sex þumlunga riðu. Þessir íslensku frumherjar áttu ekki báta en fengu þá stundum lánaða hjá kynblendingum sem höfðust við á ýmsum stöðum á ströndinni. Til eru dæmi þess að menn hafi veitt án þess að hafa bát og er skýringin sú að að ein fiskitegund, svo nefndur hvítfiskur hafi á haustin gengið í torfum nánast alveg upp í landsteina þegar leið á haustin. Hvítfiskurinn úr vatninu þótti afbragðs góður hvort sem hann var soðinn eða reyktur. Á umræddu svæði austan við Manitobavatn er lítið um ár en lækir sem renna í vatnið voru nokkrir. Þegar leysa tók á vorin urðu lækir þessir líkari ám og tóku landnemar þá eftir því að ýmsar fiskitegundir gengu upp lækina. Fljólega lærðu menn að þekkja eina tegund, svonefnda pickerel sem er geddutegund og voru Íslendingar fljótir að finna á hana nafn, pikkur var hann nefndur og enn þann dag í dag er það notað af Íslendingum í Manitoba. Menn voru fljótir til þegar fisksins varð vart í lækjum, sóttu net sín og drógu yfir lækina þar sem mjóst var. Gat þá hver maður veitt það sem hann þurfti fyrir sig og sína. Yfirleitt var hann steiktur í smjóri, þótti bestur eldaður þannig en svo hertu menn hann líka. Það var því algeng sjón að sjá menn með harðfisk fram eftir sumri. Mikið var líka saltað svo aflinn varðveittist í sumarhitunum.

Pikkur

Skúli Sigfússon einn af frumbyggjum í Lundarbyggðinni segir svo frá fiskveiðunum í SÁG bls. 232-235: ,,Vatn það, sem Álftavatnsbyggð dregur nafn af, er norðvestur af íslenzku byggðinni og um tíu mílur enskar austur af Manitobavatni; lækur rennur úr því í Manitobavatn og er ekki djúpur. Fiskur gengur upp eftir honum á vorin, og er mjög mikil gengd af honum. Aðalveiðistöðin var 1 1/2 mílu frá Manitobavatninu. Menn fóru þangað vanalegast með vinnuuxa sína (tvíæki), tóku þegar þar var komið kassann af vagninum, notuðu hann sem bát til að komast yfir, ráku niður hæl á vesturbakkanum, settu við hann högld eða spýtu, sem hægt var að draga streng í gegnum og draga svo netið að sér í honum til að taka fiskinn úr því. Eitt net var nóg og gaf manni nægilegt að gera. Ef gert var að fiskinum og hann slægður, var netið orðið nógu fullt til að draga það á land aftur og hreinsa úr því.  Menn fengu þannig oftast nóg yfir daginn fyrir uxana að draga heim að kvöldi. Oft voru þar 20 pör af uxum og einn eða tveir menn með hverju. Flest sá ég þar 25 uxapör í einu. Þetta var mikil hjálp fyrir nýbyggja á þeim árum.” Fiskveiðar frumbýlingsáranna snerust fyrst og fremst um að veiða í sig og sína. Fyrstu árin hugleiddu menn ekkert að veiða fyrir markað því engin leið var að flytja aflann á markað. Þetta breyttist upp úr 1890 þegar kanadamaður hóf útgerð á vatninu á gufubát sumarið 1891 og í kjölfarið hófust líka veiðar á seglbátum. Helgi Einarsson var fyrstur Íslendinga til að hefja sumarveiðar. Hann byggði frystihús við Álftavatnslæk norður af Lundar. Rak hann það fram að aldamótum en varð þá að hætta því öll sumarveiði var þá bönnuð.

Vetrarveiðar: Íslendingar sáu fljótlega kosti þess að stunda fiskveiðar á veturna. Fæstir þeirra voru í stakk búnir til að eignast gufubát hvað þá að reisa frystihús. Eini kostnaður við vetrarveiðar voru netin, gríðarlegar frosthörkur sáu svo til þess að fiskur varðveittist vel úti á vatninu og við flutninga á ísnum á markaði sunnan við vatnið. Vertíðin byrjaði venjulega um miðjan nóvember þegar ísinn var orðinn vel mannheldur.  H. Þorgrímsson segir svo í kaflanum um Lundarbyggðina í fjórða bindi Sögu Íslendinga í Vesturheimi. ,,Á meðan ísinn er glær og þunnur, er fljótlegt verk að leggja netin. Fyrst er höggvin vök og 30 til 40 feta langri stöng ýtt undir ísinn. Í annan enda hennar er undirdrátturinn bundinn. Svo er höggvið fyrir framendann á stönginni og henn ýtt áfram aftur. Þetta er endurtekið þar til stöngin er komin netlengd frá fyrstu vökinni, eða um 45 faðma. Næst er lausa endanum á undirdrættinum hnýtt í klóna á netinu við fyrstu vökina, en hinn endinn leystur frá stönginni og honum brugðið um öxl og netið síðan dregið undir ísinn. Þegar þessi aðferð er notuð, verður að höggva einar sex eða sjö vakir til þess að koma einu neti undir, en þar er engin frágangssök á meðan ísinn er ekki meira en 10 til tólf þumlunga á þykkt. Aftur á móti er það mjög seinlegt og erfitt, þegar kemur fram yfir hátíðir, því þá er ísinn oft orðinn allt að því þrjú fet á þykkt, en í vertíðarlok (15. marz) er hann oft kominn á fimmta fet. Það má nærri geta, að það hefur ekki verið áhlaupaverk að höggva svona þykkan ís með vanalegri skógarexi, en annað verkfæri höfðu menn ekki fyrstu árin. Mann fóru því snemma að smíða sér hentugra verkfæri. Þetta kölluðu þeir ís-pikk. Hann var í laginu ekki ólíkur sporjárni eða hefiltönn, um þrjá þumlunga á breidd og 12-18 þumlunga á lengd, gerður úr hertu stáli. Þetta áhald var fest á sex feta langa viðarstöng. Framan af voru þessi pikkar smíðaðir í sveit, en seinna fóru verkstæði að smíða þá, og voru þeir þá gerðir allir úr stáli og í einu lagi. Þá hættu allir við heimasmíði á þessum tólum. Jafnvel þegar notuð eru beztu verkfæri þessarar tegundar, er það enn erfitt og seinlegt verk að höggva þykkan ís. ”

Gamall ,,jigger”

,,Jiggerinn” ,,Mann sáu það fljótt, að mikið yrði unnið, ef hægt væri að koma neti undir ís með því að höggva aðeins eina vök fyrir hverja netlengd að fyrstu vökinni ótaldri (þ.e.a.s. 16 vakir fyrir 15 neta streng). Sagt er, að maður nokkur frá Selkirk, Andy Vinsly að nafni, hafi skömmu fyrir 1930 fundið upp vél þá, sem gerði þetta mögulegt. Með henni var hægt að renna undirdrættinum heila netlengd í einu. Þessi véj, sem var frekar ófullkomin í fyrstu, endurbættu þeir Jóhann M. Gíslason og Steinþór Vigfússon, hugvitsmenn og smiðir frá Lundar. Þetta er mjög einfalt verkfæri, og smíða flestir fiskimenn sína eigin jiggers, en svo er þetta áhald nefnt. Jiggerinn er búinn til úr 8 til 10 feta löngum planka (vanalega úr sedrusvið, því í honum er mest flotmagn). Í plankann miðjan er söguð rifa um 3 fet á lengd og 2 til 3 þumlunga á breidd. Framan við rifuna er fest 4 eða 5 feta löng járnspöng. Í hana er borað gat um 18 þumlunga frá plankanum, og tunga fest þar við á þolinmóð með hnoði og bolta. Tungan sjálf er úr sedrusvið, og gengur lausi endinn í rifunni á plankanum, en flotmagnið heldur henni að ísnum. Í þeim enda tungunnar, sem að ísnum veit, er fest beitt stáltönn. Í neðri enda járnspangarinnar er festur sterkur þráður, og er hann dreginn í gegnum lykkju, sem fest er í plankann að aftan. Jiggerinn er setur gegnum vök undir ísinn, og veit þá náttúrulega járnspöngin niður. Síðan er undirdrættinum hnýtt í lykkju á jigger-setrengnum. Með því að kippa í strenginn þrýstir járnspöngin tungunni upp á við, svo að tönnin grípur ísinn, en plankinn tekur kipp áfram, og er þá um leið slakað á strengnum. Þyngdin á járnspönginni dregur þá tunguna í sínar fyrri skorður, en flotmagn plankans varnar því, að hann kippist til baka. Með því að kippa í og sleppa strengnum til skiptis á þennan hátt mjakast jiggerinn áfram undir ísnum. Þar sem svarar til netlengdar á undirdrættinum er settur hnútur eða annað merki, svo að hægt sé að vita, hvenær verkfærið er komið nógu langt. Þegar komin er netlengd, er kippt snögglega í snærið, svo að járnspöngin slæst við litla stálplötu, sem fest er neðan á plankann aftan til, svo höggið heyrist glöggt gegnum ísinn. Með því að hlusta nákvæmlega má ákveða, hvar jiggerinn liggur, og þar er vökin tekin. Þetta er kallað að spotta eða ,,hlusta” jigger, og er það ekki vandalaust verk jafnvel í logni, en ef mjög er hvasst, er það oft frágangssök, og verður þá að hætta að leggja. Það glymur að vísu ævinlega í ísnum, þegar jiggerinn er látinn berja (en svo er það kallað, þegar jiggernum er haldið kyrrum og spönginni slegið við), en í logni er auðvelt að ganga á hljóðið. Í stormi bergmálar hljóðið svo víða, að illt er að greina, hvaðan það kemur. Jiggerinn er dásemdar verkfæri, þó frægð hans nái ekki lengra en til þeirra, sem fást við að veiða undir ís.” 

Birtingur

Vertíðin: Snemma á landnámstímanum, þegar nóg var af fiski lögðu menn þetta 10 til 15 net hver og þurftu sjaldan að færa þau yfir veturinn. Þegar árin liðu og mennstunduðu veiðar til að selja fisk var algengt að hver maður legði 35 til 50 net og þurfti oft að færa hvert þeirra. Þá reyndist jiggerinn ómetanlegur. Fiskimennirnir í Lundarbyggðinni byggðu fljótlega litla kofa á skógivöxnum vatnsbakkanum þar sem skjól var gott. Þetta voru bjálkakofar með moldargólfi og þarna höfðu menn sínar bækistöðvar. Veiðimennirnir fóru að tínast niður að vatni seint í október því tíma tók að undirbúa vertíðina. Byrjað var á eldivið, menn ýmist keyptu af kynblendingum á svæðinu eða nýttur sér skógivaxin stjórnarlönd. Þar máttu menn höggva lögum samkvæmt. Þá þurfti að huga að netunum, greiða og leggja niður gömul net og hnýta sökkur og flár á ný. Oftast reyndu menn fljótlega að koma neti í vatnið til að veiða ofan í sig og hunda sína. Allt varð að vera tilbúið þegar vatnið lagði því svokallaður birtingur (leucichthys tullibee) gekk stundum í miklum torfum um miðjan nóvember upp á grynningar til að gjóta. Fiskur þessi svipar til hvítfisks, er talsvert minni og bragðdaufari. Verðið var iðulega lægra en ef vel veiddist af birting þá mátti hafa sæmilegt upp úr aflanum og þótti það vísa á góða vertíð. Þegar best lét voru menn að ná 200-300 pundum í hvert net og fengust nokkur cent fyrir hvert pund. Þegar ísinn var orðinn mannheldur flýttu menn sér út á vatnið til að leggja netin. Hundarnir nýttust illa á glærum ísnum, höfðu enga fótfestu svo í staðinn voru notaðir litlir handsleðar, sem menn drógu.  Sérstakir leðurskór voru notaðir og bundu fiskimennirnir á sig brodda sem festir voru á leðuról. Hún var svo bundin yfir ristina.

Heimir Þorgrímsson skrifaði í SÍV4 og lýsti upphafinu svo ,,Fyrstu dagana, meðan ísinn var nœfurþunnur (2-4 þumlunga), var mjög fljótlegt að koma netunum undir, enda þurfti ekki mörg net til þess að menn hefðu ærið að gera að taka fiskinn úr. Ef frost var í veðri, var fiskurinn skilinn eftir við vakirnar og safnað saman og dreginn til lands þegar  tími  gafst. Ef blotaði í, varð aftur á móti að draga fiskinn í land og grafa hann í snjó, svo að hann skemmdist ekki áður en hægt var að koma honum til markaðar. Eftir því sem leið á haustið og birtingurinn hvarf, voru netin færð nokkru utar og pikkurinn veiddur á grynningum á milli sandrifa, sem liggja víðast hvar þetta eina til þrjár mílur frá landi. Oftast nær var sæmileg veiði á þessum miðum fram undir jól, en ef þessi veiði brást, voru netin færð nokkru utar eða út á „botnamót“, þar sem sandurinn þverr og leðjan tekur við á vatnsbotninum, því fiskur færir sig yfirleitt frá landi eftir því senm líður á vetur. Þó að það sé bráðnauðsynlegt að komast sem fyrst út á vatnið, þá er það hreint ekki hættulaust, hvorki fyrir fiskimanninn sjálfan né útgerðina. Það kemur oft fyrir, að fyrstu  ísalög brotna, ef stórviðri skella á áður en allt vatnið leggur. Oft tapa fiskimenn þeim  netum sínum,  sem  fyrst eru lögð, og  sjaldan  líða margar vertíðir, að ekki drukkni aò minnsta kosti einn fiskimaður í vatninu, annaðhvort af því að farið er út á ísinn  áður en hann er orðinn nógu þykkur, eða þá að straumur étur vakir í ísinn, en þangað til vatnið hefur frosið saman er ætíð nokkur ólga í vatninu, eftir því hvernig vindar blása. Þegar ísinn er orðinn  svo  sem  eitt  fet á þykkt er hægt að sækja veiðar út á djúp. Þá flytja fiskimenn kofa sína á hestum út á vatnið og setja þá niður þetta 8-10  mílur frá landi.  Þetta eru vanalega smákofar 9×12 fet á stærð, byggðir úr þunnum borðviði. Utan á þá eru lögð eitt eða tvö lög at tjörupappír. Þessir kofar standa vanalega á viðarstöplum svo sem 18—20 þumlunga á hæð, og er þá þiljað á milli kofans og íssins, annaðhvort með boðvið eða tjörupappír, og byrgt svo upp að með snjó. Þetta gerir hvort tveggja að halda kofanum frá ísnum og gera hann þanig hlýrri og skapa geimslupláss, þar sem hægt er að geyma fiskkassa, sem stungið er þar undir í gegnum lúku á kofagólfinu. Síðan farið var að selja fiskinn þíðan, hefur verið nauðsynlegt að geyma hann þar, sem hann skemmdist ekki, þangað til hægt er að koma honum á markað, en vanalega er hann fluttur á járnbrautarstöð einu sinni eða tvisvar í viku,  eftir því hvað útgerðin er stór. Á þeim dögum, sem fiskur var fluttur frosinn tíl markaðs, var hann jafnan látinn liggja við vakirnar þangað til tækifæri gafst að koma honum á járnbrautarstöðina. Í þá tíð var allur fiskur fluttur á opnum sleðum, sem hestar gengu fyrir.       

Ófrosinn fiskur á markað: Það mun hafa verið árið 1915, að Íslendingurinn Helgi Einarsson, einn af frumherjum Lundarbyggðar, byrjaði á því að senda þíðan fisk á Bandaríkjamarkaðinn. Þá varð auðvitað að breyta allri meðferð á fiski, því fiskkaupmenn gátu auðveldlega séð á roðinu, hvort fiskurinn hefði frosið eða ekki, en frosinn fiskur er ekki í hálfvirði á við þíðan. Þegar fiskimenn notuðu hunda til að komast á milli netja, var léttur kassi festur á sleðann, og í hann var fiskurinn látinn, en lukt sett í  kassann til þess að varna fiskinum frá því aò frjósa. Þegar búið var að fylla kassann, var honum ekið heim að kofa, og þar var hann geymdur eins og þegar hefur verið lýst, þangaò til hann var fluttur til bæjar, annaðhvort á hestum eða í vörubíl, eins og nú tíðkast oft. Til þess að hægt sé að flytja þíðan fisk á hestum er nauðsynlegt að byggja á sleðann kofa, sem hitaður er með litlum ofni. Þessir kofar eru kallaòir caboose (framborið  kabús) . Ef kassabílar eru notaðir, er segldúkur dreginn yfir kassann og ofn notaður til hitunar, ef vegalengd krefst.               

Sauger

Fiskimenn hafast við í kofum sínum á ísnum frá því skömmu fyrir jól og fram í vertíðarlok, 15. marz. Með góðum ofni er auðvelt að halda þessum ofnum heitum á daginn, en ef ekki er kappkynt á nóttunni, er vanalega skænt yfir vatnsfötuna að morgni. Aftur á móti er hægt að hita kofana á mjög skömmum tíma, og er því aðbúðin sæmileg hvað betta snertir.  Strax  og  komið er á fætur sjóða menu sér  hafragraut  eða  annað góðgæti, og að morgunverði loknum búast beir til veiða jafnsnemma og bjart er orðið. Fyrsta verk manna er er að týgja hunda sína eða hesta. Ef hundar eru notaðir, eru þeir bundnir við staura, sem festir eru í ísinn, en hjá staurunum er settur fiskkassi með heyrusli í botninum, og í honum liggur hundurinn og skelfur sér til hita á nóttunni. Í byljum skeflir oft yfir hundana, en það virðist ekkert gera þeim, og aldrei kelur þá, nema þeir blotni í fætur í krapa eða vegna annarra óhappa. Í gamla daga voru hundar notaðir því sem næst eingöngu við fiskveiðar, en nú er sú öldin af, og flestir vilja heldur hafa hest og ,,kabús”, því að þá er hægt að bregða sér inn í sleðakofann og ylja sér, þegar þess er þörf. Á Manitobavatni var sjaldgæft, að notaðir væru fleiri en fjórir eða fimm hundar fyrir sleða. Mest var undir því komið, að forysturakkinn væri góður, því hann réð jafnan ferðinni og kunni þar að auki að hlýða einföldum skipunum.Sjaldan sátu menn á sleðanum, nema þegar fyrst var farið af stað og hrollur var í hundunum og þeir ólmir. Eftir fyrsta sprettinn hlupu menn við fót með fram sleðanum. Sjaldan leggja menn net lengra en þrjár eða fjórar mílur frá kofa sínum, svo hægara sé að koma veiðinni heim. Þegar komið er á strenginn, eru hoggnar vakir fyrir fyrsta netinu og það dregið upp á ísinn og fiskurinn tekinn úr því. Netið er svo dregið undir aftur með undirdrætti, sem alltaf er hnýtt í annan enda netsins, ef  menn vilja leggja það aftur í stað. Þá er tekið næsta net í strengnum og svo koll af kolli. Í fyrri daga, meðan nóg var af pikk, voru notuð net með stærri möskva (þetta 4- 5 þumlunga). Á seinni árum hefur fengizt lítið af fiski í svo stóra riða, og var mönnum þá leyft að nota 3 1/4 riða. Í þessi smærri net veiddist nokkuð af saugers (stizostedion canadense, fiskitegund náskyld pikk, en miklu minni) og perch (Perco flavescens). Þessar fiskitegundir seljast að jafnaði fyrir svipað verð og pikkurinn, en vegna smæðar þessara fiska sækjast fiskimenn meira eftir pikknum, þar sem hann er að finna. Um hádegisbilið er vanalega haldið heim í kofa, og fá menn sér þá matarbita, en ekki er lengi staðið við og svo unnið fram í rökkur, eða til kl. 5 í skammdeginu. Þá eru hundarnir teknir úr aktygjum og þeim gefið. Ekki fá þeir annað en fisk, og aldrei er þeim gefið nema einu sinni á dag, en þegar þeir hafa etið fylli sína, leggjast þeir í ból sín og lúra til morguns, nema ef svo ber við, að gestir koma, en þá er uppi fótur og fit. Fyrsta verk fiskimanna eftir að heim er  komið er að hressa upp á eldinn og búa svo til kaffi eða te. Síðan er gengið að því að ,,pakka” fiskinn, en hann er eðlilega allur í einni kös eins og hann kemur úr netunum. Pikkur, Sauger og Perch  er ,,pakkaður”  (hver tegund í sínu lagi) í kassa og eru látin því sem næst 50 pund  af  fiski í hvern kassa og um 30 pund af ís.”

Perch

Verðminni tegundir fara venjulega í hundana. Kofarnir á vatnsbakkanum eru  bústaðir mannanna meðan á vertíðinni stendur. Algengast er að þrír til fjórir deila kofa og skiftast þeir á að elda. Aðalmáltíðin er á kvöldin og þá er eldað nautakjöt eða svínakjöt, kartöflur og baunir og alltaf er til brauð og smjör. Það er kannski merkilegt að fiskur er sárasjaldan eldaður þótt það komi fyrir og er þá helst matreiddur hvítfiskur. Kjöt og kartöflur er fryst, sett í sérstakan kassa sem negldur er nokkuð hátt upp á vegg svo hundar komist ekki í það. Meðan beðið er eftir matnum huga menn að fatnaði sínum, þvo vettlinga sem eru þurrkaðir á snúru fyrir ofan ofninn.  Í mestu kuldum er algengt að menn noti 8 – 10 pör á dag. Þótt úti sé nístingskuldi þegar degi tekur að halla og sólar nýtur ekki lengur voru kofarnir hinir vistlegustu. Fletin eru við veggi og fer vel um menn þar, eftir máltíð gripu menn í spil eða hölluðu sér og lásu. Fiskimenn kunnu að klæða sig, þeir voru ýmsu vanir á gamla landinu. Flestir gengu í þykkum ullarnærfötum, þá þykkri skyrtu, þunnum ullarbol og buxum, stundum tvennum þegar kuldinn var mestur.  Þá smeygðu menn sér í þykka ullarpeysu, sérstakar strigabuxur og svo úlpu. Klæðnaðurinn breyttist eðlilega með tímanum, ný, hentug efni sáu dagsins ljós, allri tækni í klæðagerð fleytti fram. Til dæmis voru fyrstu skjólfötin  harla ófullkomin, þykk og þung. Úlpur leystu þau af hólmi á öðrum áratug 20. aldar og með hverju árinu sem leið voru einhverjar umbætur gerðar. Sú gerð sem lengst var notuð var ýmist úr silki eða striga, fóðruð vel að innan og dregin saman með teygju í mittið. Teygjubönd voru líka í ermaopunum en ermarnar náðu vel fram á úlnliðinn, utanyfir vettlingana. Hetta brydduð með loðskinni nær vel fram fyrir andlit og hlífði vel. Aðeins klaufar eða kærulausir kólu í framan í þess háttar flík.  Fótabúnaður var mikið vandamál því skór urðu að vera besta vörn gegn ísköldum vindum eftir ísnum. Fljótlega litu menn á fótbúnað frumbyggja, hvernig vörðust þeir slíkum vindum og frosti? Kynblendingar, indjánar og Frakkar eða Bretar bjuggu í skóginum á strönd Manitobavatns og þar gengu allir á sérstökum mokkasíum. Þess háttar skór ef svo má kalla voru gerðir úr mjúkri elgshúð og var venja fiskimanna að vera í tvennum pörum af sokkum, sumir stundum í þrennum. Þessir skór voru léttir og hlýir, hentuðu vel á ísnum yfir há vetrartíman á hjarninu en þóttu hálir á glærum ísnum á haustin og ekki máttu þeir blotna þegar hlýna tók þegar stutt var til vors og snjór að blotna. Þá notuðu menn ,,rubbers” einskonar togleðurskó. Menn sem klæddu sig sómasamlega gátu stundað veiðarnar án þess að kala en allir lærðu að dagar komu með þvílíkum byljum og sterkum vindi að enginn átti erindi út á vatnið. Þegar vakir kröpuðu nánast strax og búið var að opna þær og netin frusu um leið og þau voru dregin upp var nánast vonlaust að ná fisknum úr þeim án þess að þau eyðilögðust.  Slíkur veðurhamur var ekki algengur, oftast snemma vetrar og svo í vetrarlok.  Venjulega einkenndi algert dúnalogn vertíðina og þótt frostið færi í -40 gráður á celcius var kuldinn ekki óbærilegur en við -20 til -30 gráður og stinningsvind þá héldust hvorki menn né skepur úti á vatninu.

Kortið sýnir Manitobavatnið allt frá Reykjavík í norðri og botn þess í suðri þar sem bærinn Westbourne reis en þangað fluttu fiskimenn fiskinn fyrstu árin allt frá 130 til 240 km leið eftir því hversu norðarlega veiðistaðirnir voru. Áningastaðurinn Dog Creek sést rétt suðaustur af Vogum.

Fiskiflutningar: Menn höfðu ekki stundað fiskveiðar gegnum ís þegar þeim var ljós kostur þess að nota hesta í stað hunda, Hestar drógu miklu meir, bæði úr landi í upphafi vertíðar og eins við flutinga aflans í land. Þá var það eðlilega mikill kostur að hestarnir drógu sléðakofann út á ísinn og gátum menn þá skotist þar inn í hlýjuna og til að fá sér kaffi eða matarbita. Hestarnir fóru reyndar hægar yfir og þurfti oft að skoða ísinn áður en hestarnir fóru yfir hann því víða leyndust sprungur. Á hverjum vetri springur ísinn hér og þar og fljótlega áttuðu menn sig á því að þær mynduðust iðulega á svipuðum slóðum ár hvert. Þar sem þunnur ís springur eru sprungurnar nokkrir þumlungar að breidd en eftir því sem ísinn þykknar breikka þær og voru sums staðar allt að 4 fet á breidd. Sprungurnar gliðna eða ganga saman eftir því hvort kólnar eða hlýnar. Þegar hlýnar ganga þær saman með miklum drunum og dynkjum og myndast jakahroð við sprungubarmana sem hleðst stundum upp í nokkurra feta hæð. Þegar svo aftur kólnar opnast sprungurnar aftur. Það kom fyrir að menn misstu hesta í sprungu og varð þá að bregðast fljótt við því klárarnir misstu kraft nokkuð hratt vegna kuldans og gefast upp. Þá var ráð að bregða snöru um háls hestsins og herða að þangað til honum liggur við köfnun því þá berst hann um. Ef menn voru tveir saman eða fleiri  þá var rétti tíminn að grípa í fax og draga hestinn úr vökinni. Þegar tveir hestar drógu og annar fór niður í sprungu þá var kaðall bundinn í taglið á þeim sem í vatnið fór og dró þá hinn hesturinn hann upp. Það kom fyrir að hesti var ekki bjargað og var það eiganda mikil eftirsjá.

Á fyrstu árum var mikið verk að koma fisknum á markað. Menn höfðu bækistöðvar norðarlega á vatninu en þaðan til Westbourne þorpsins sunnan við vatnið eða Winnipeg gar verið um 130 – 240 km. leið að ræða eftir því hversu norðarlega menn voru við veiðar. Vegalengdin frá Reykjavik (efst á kortinu) til Winnipeg er um 210 km svo dæmi sé tekið.  Í dag er þessi leið ekin á fáeinum klukkustundum en þegar íslenskir fiskimenn snemma á 20. öld  sendu aflann á markað í Winnipeg þá vissu þeir að framundan væri nokkurra daga ferðalag fyrir ökumenn. Þeir sem tóku að sér þess háttar flutninga voru kallaðir ,,freitarar” (orðið dregið af enska orðinu freight) Á langri leið þurfti oft að hvíla og voru áningarstaðir þónokkrir. Þeir voru kallaðir ,,stopping pláss” eða  ,,stopping hús” (dregið af enskunni stopping places) og voru þetta mestmegnis íslensk heimili þar sem menn og skepnur voru boðin velkomin. Þar bauðst skjól og hressing og ef áliðið var dags þá næturgisting. Einn slíkur áningastaður var við Dog Creek þar sem bjuggu íslenskur maður og færeysk kona hans. ( Heimir Þorgrímsson segir manninn hafa verið Stefán Stephansson Hrútfjörð og konan heitið Súsanna. Stefán varð blindur og lést um 1930 og flutti Súsanna þá til Ashern í Manitoba. Hún mun hafa dáið árið 1951 SÍV. iv bls. 306)  Seinna þegar járnbraut hafði verið lögð norður til Lundar  styttist ferðalagið verulega og þegar járnbraut var kominn í þorpin bæði vestan og austan við vatnið var flutningsleiðin lengst rúmir 30 km. Fiskikaupendur voru á hverri járnbrautarstöð, oftast íslenskrar ættar og voru þeir umboðsmenn fiskútflytjenda í Winnipeg. Mestur hluti seldist suður til Bandaríkjanna og þótti pikkurinn úr Manitobavatni hið mesta lostæti á borðum gyðinga í New York.