Einar Ólafsson

Vesturfarar

Einar Ólafsson settist að í Winnipeg árið 1886 og vann hin ýmsu störf fyrstu árin en fékk fljótlega áhuga á blaðaútgáfu og var í útgáfustjórn Heimskringlu um skeið í ritstjórnartíð Jóns Ólafssonar og Eggerts Jóhannssonar. Hann hagnaðist nokkuð og lagði til fé í sjóð til að koma Heimskringlu aftur á réttan kjöl eftir gjaldþrot árið 1897. Með honum í félagi var Björn Frímann Jósafatsson og keyptu þeir útgáfurétt og prentverk. Fyrsta tölublað þeirra kom út 14. október, 1897 og ritstýrði Einar Heimskringlu um nokkurra mánaða skeið. Síðasta tölublað í hans ritstjórnartíð kom út 10. mars, 1898. Björn Frímann tók þá við ritstjórninni. Þeir seldu síðan Baldvini Lárusi Baldvinssyni blaðið í október, 1898.

Baldur á Gimli: Vikublaðið Baldur kom fyrst út 12. janúar, 1903, útgefendur voru einstaklingar í Nýja Íslandi, umsjón með útgáfunni hafði séra Jóhann P. Sólmundsson en Einar Ólafsson ritstýrði þar til hann féll frá. Séra Jóhann tók þá við ritstjórn og annaðist hana þar til blaðið hætti að koma út 2. febrúar, 1910. Einar var fylgismaður frjálslyndra í stjórnmálum og únitara í trúmálum. Sagt er að honum hafi sárnað heldur dræmar móttökur sem Baldur fékk utan Nýja Íslands einkum í Argylebyggð, suðvestur af Winnipeg. Íbúar þar, margir hverjir, voru fyrrverandi landnemar í Nýja Íslandi eða afkomendur frumbyggja þar. Það var skoðun margra Íslendinga í Manitoba að vel hefði tekist með landnámið og uppbyggingu samfélagsins í Argylebyggð og taldist hún ein farsælasta byggð Íslendinga í Kanada. Gera má ráð fyrir því að einhverjum ,,Ný Íslendingum” einkum þeim sem börðust þar áfram eftir brottflutningana miklu 1879-1881. Einar hellti sér yfir Argylebúa 19. janúar, 1907. Skoðum umfjöllun Guðna Júlíusar Oleson um þetta mál en hann talar fyrst um hagsældina í Argyle og framfarir þar en segir svo:,,Voru ýmsar ómildar árásir gerðar á Argylefólk á fyrri árum, það talið afturhaldssamt og þröngsýnt. Voru það sérdeilis menn, sem fylgdu hinni svokölluðu frjálstrúarstefnu, sem ádeilur gerðu, því Argylebúarfylgdu hinni eldri trúarkenningu og voru því taldir um of ,,orthodox”, en í sannleika voru þeir frjálslyndir og stóðu aldrei í neinum trúarbragðastyrjöldum, ofsóttu engan, létu hvern sjálfráðan og óáreittan með sína trúarhugsun og létu sem vind um eyrun þjóta, þó á þá væri ráðizt, hvort sem var í ræðu eða riti. Argyle-Íslendingar hafa verið félagslyndir og lagt áherzlu á eindrægni og samhug; hafa því sjaldan verið flokkadrættireða sundrung, og fáir hafa setið hjá, hvort sem hefur verið í kirkjulegum eða almennum félagsmálum, enda hafa þeir átt góða og áhrifamikla leiðtoga, sérstaklega á fyrri árum. Ein merkasta opinber árás á Argylebúa var gerð í blaðinu Baldur, er gefið var út á Gimli nálægt áramótum 1906-7, þar sem þeir eru taldir vera ,,andlegir Hornstrendingar’‘ Þessari árás var svarað af manni, sem undirskrifar greinina ,,Vinur Argylebúa” Þessari grein er svarað í Baldur 30. mars, 1907 með grein:,, Ó! – vinur Argyle-Íslendinga” og þar er meðal annarra orða þessi klausa: ,,Sú skoðun, að í Argylebyggð sé einn þrongsýnasti hópur Íslendinga, er ekki ný, og því miður mun hún á sterkum rökum byggð. Staðhæfingin í þessum orðum er sú, að sú skoðun sé til meðal fólks, að í Argyle sé einn hinn þröngsýnast hópur Íslendinga fyrir vestan haf, og sú skoðun sé ekki ný. Þessu reynir þú að andæfa með þessum orðum: ,,Hingað til hefur það verið almennt álit, bæði hjá Austur- og Vestur- Íslendingum, að Argylebyggð væri á undan flestum eða öllum íslenzkum nýlendum hér vestan hafs, ekki aðeins hvað snertir félagsskap, andlegan þroska og siðmenningu yfir höfuð”. ,,Hver hefur kennt þér dönskuna, Kláus?” ,,Það var kyrkjan með sinni uppspunnu innblástursvissu og þar af leiðandi valdboðskraft, sem ég talaði um í sambandi við Argylebúa, það var kyrkjan, sem ég talaði um í sambandi við galdrabrennutímabilið á Íslandi, og það var kyrkjunnar siðmenning, sem ég sagði, að hefði gert íslenzku þjóðina að skríðandi maðki og skilið hana eftir í flakandi sárum”. (SÍV 4, bls. 220) Deilendur skiptust á skotum, Einar skrifaði sitt síðast svar og birti 22. júní, 1907. Enn skoðum við ummæli Guðna Júlíusar :,,Þessi árás mun vera ein sú allra svænasta, sem gerð hefur verið á heilt mannfélag í söfu Vestur-Íslendinga; lýsir árásin rótgróinni óvild í garð kirkju og kristindóms. Má vera, að öfund hafi hér nokkru um ráðið, því sá þjóðarósómi sem var allríkur í eðli íslenzku þjóðarinnar á þeirri tíð, fluttist vestur með öðrum farangri frumherjanna, sem að vísu er enn við lýði, en ekki eins áberandi og var hér fyrrum. Ókunnugleiki hefur einnig hlotið að valda. Höf. (Einar Ólafsson inns, JÞ) var ekki persónulega kunnugur Argyle-Íslendingum nema þá að mjög litlu leyti. Er mjög varhugavert fyrir mann að ráðast á einstakling eða mannflokk án persónulegs kunnugleika, fara að mestu eftir gróusögum.” 

Harmafregn – Andlát Einars: Heimskringla birti eftirfarandi frétt 22. ágúst, 1907:,, Einar Ólafsson ritstjóri Baldurs réði sér bana með skammbyssu þ. 16. þ.m. á skrifstofu blaðsins. Einar sál. var maður ókvæntur og heilsuveill. Hann hafði verið 20 ár hér í Manitoba. Hann var 42 ára gamall.”   Í næsta blaði Heimskringlu, 29. ágúst, 1907, minntist Magnús Pétursson, úr Húnavatnssýslu, Einars en þeir höfðu unnið saman að prentun og útgáfu í Winnipeg. Magnús skrifar um Einar og segir: ,,Hann var vel máli farinn og í bezta lagi ritfær, en þó nokkuð seinn stundum, að koma hugsunum sínum í þann búning, er honum líkaði. Þótt skólamentun hans væri eigi ýkjamikil, þá var hann samt prýðilega fróður maður, enda var hann sílesandi og skilningurinn skarpur. Kunningjum hans þótti hann stundum nokkuð einrænn og þunglyndur, en gat líka verið dillandi skemtinn og ræðinn, þegar svo bar við að horfa. Og ekki man ég skemtilegri stundir, en að sitja að samræðu með Jóni Ólafssyni og Einari, þegar uppi var ,,góði gállinn” hjá þeim báðum. Einar var framúrskarandi frjálslyndur og einlægur í öllum skoðunum. Hann fyrirleit hjartanlega alla skinhelgi og hræsni og gerði þá kröfu til allra manna, að þeir töluðu og skrifuðu hiklaust meiningu sína, hvort sem þeir mættu eiga von á skjalli eða skætingi. Einar fylgdi Únítarahreyfingunni hér vestan hafs af kappi frá byrjun, – ekki fyrir það, að hann þættist þess endilega vís, að þeir hefðu fundið allan sannleika í þeim efnum, heldur fyrir það, að sú stefna greip hann sem skynsamasti leiðarvísir í rétta átt. Og hann gat ekki orðið þeim mönnum samferða, sem forðast birtuna, en vilja að allir kúri í öskustó gamals vana og skrípatrúar.” Á forsíðu sama tölublaðs Heimskringlu stóð þetta:

Stökur
Kveðnar við fráfall Einars Ólafssonar

Nú er Einar Ólafs bur
oft sem reit með prýði
hörmulega helsærður
Hniginn lífs í stríði.

Einatt fölna foldarblóm
fyrr en komi vetur
skildi fyrir Skuldar-dóm
skotið enginn getur.
S.B.