Edvard H Björnsson

Vesturfarar

Edvard Hjálmar Björnsson óx úr grasi í Minneota, litlu þorpi í miðri Íslendingabyggð í suðvestur horni Minnesota. Þar rak faðir hans, Gunnar Björnsson prentsmiðju og ritstýrði og prentaði fréttablað byggðarinnar. Edvard var áhugasamur um störf föður síns, lærði prentun og var aðeins 23 ára þegar hann tók við ritstjórn. Vestur-Íslenzkar Æviskrár I geymir ágæta umsögn um Edvard og störf hans bls.69.

,,Ólst upp í prentsmiðju föður síns, lærði prentaraiðn og varð ritstjóri Minneota Mascot 1927-31. Hlaut blaðið í ritstjórnartíð hans 1. verðlaun fyrir ritstjórnargreinar meðal smærri vikublaða í Bandaríkjunum. Varð meðritstjóri Minneapolis Tribune sumarið 1931. Haustið 1937 réðst hann einkaritari Shipstead öldungaráðsþingmanns, og byrjaði 1939 að vinna fyrir upplýsingaþjónustu landbúnaðarráðuneytisins í Washington (Farm Credit Administration, Department of Agriculture). Kvaddur til Íslands í des. 1940 til að veita forstöðu skrifstofu ,,láns-og leigu” -deildar Bandaríkjastjórnar í Reykjavík. Annaðist þessi skrifstofa aðallega fiskkaup handa Bretum fyrir lánsfé Bandaríkjamanna og keypti fisk fyrir um það bil 65 millj. dollara, greiddi einnig fyrir sölu íslenzkra afurða og vörukaupum í Bandaríkjunum. Hann dvaldist á Íslandi þangað til júlí 1943. Eftir heimkomuna til Washington, D.C., hvarf hann aftur til Minneapolis sem meðritstjóri Minneapolis Tribune, og hélt því starfi til dauðadags, þrátt fyrir vaxandi vanheilsu. Sæmdur riddarakrossi hinnar íslenzku Fálkaorðu 5. febr. 1944. Í útgáfunefnd (Board of Publication) fyrir United Lutheran Church in America, Lutheran Welfare o.fl. kirkjulegar nefndir. Skrifaði greinar í ýmis tímarit, t.d. American Scandinavian Review.”