Gunnar B Björnsson

Vesturfarar

Gunnar  Björn fæddist í íslensku samfélagi í Minnesota og ólst upp í Minneota þar sem faðir hans, Gunnar Björnsson ritstýrði blaðinu Minneota Mascot. Snemma kom áhugi hans á fjölmiðlun í ljós og það leiddi hann í framhaldsnám í blaðamennsku.  Vestur-Íslenzkar Æviskrár I geymir ágæta samantekt á lífshlaupi Gunnars bls. 64-65:

,,Byrjaði unglingur að nema prentverk í prentsmiðju föður síns. Ritstjósi við Minneota Mascot 1934-37. Samdi ritstjórnargreinar fyrir Minneapolis Tribune og Times-Tribune 1939-41. Réðst til National Broadcasting Co. 1941, en var sendur til Íslands í sept. 1941 og starfaði á vegum sömu stofnunar þangað til í febr. 1944. Þá sendur af NBC til Svíþjóðar og þaðan til vígvallanna í evrópu og fylgdist með níunda hernum upp að Saxelfi. Þá fór hann til Danmerkur og Noregs, þegar þau lönd losnuðu undan nasistum. Dvaldist í Stokkhólmi og á Norðurlöndum til haustsins 1945. Hvarf þá til Washington. D.C. enn á vegum NBC, og var meðal annars útvarpsfréttamaður við ,,Hvíta Húsið” í forsetatíð Trumans og hélt áfram  útvarpsstarfi í Washington til ársins 1950. Hvarf þá aftur til Minneapolis, þar sem hann hefur verið blaðafulltrúi hjá refmagnsfyrirtækinu Northern States Power Co. Ræðismaður Íslands síðan 1950. Sæmdur riddarakrossi hinnar íslenzku Fálkaorðu í júní 1955. Heimsótti Ísland ásamt konu sinni 1955. Hefur skrifað ótal blaðagreinar og greinar um íslenzk og vestur-íslenzk efni í The Icelandic Canadian. Ritstjóri tímarits hjá fyrirtæki því, sem hann vinnur nú fyrir.”