Kolbeinn Pétursson fór til Ameríku árið 1900 með fósturforeldrum sínum. Þeir settust að á Point Roberts í Washingtonríki þar sem Kolbeinn fór fljótlega að vinna. Unglingur vann hann í verslun, við landbúnaðarstörf og seinna við póstþjónustu til ársins 1924. Þá urðu kaflaskipti í lífi hans því hann flutti til Seattle, innritaðist í guðfræði í The Pacific Theological Seminary og lauk þaðan prófi árið 1927. Hann var vígður prestur í Fyrstu Lúthersku Kirkju í Winnipeg 26. júní sama ár. Kólbeinn varð prestur Hallgrímssafnaðar í Seattle, Washington haustið 1927 og þjónaði þar fram á mitt ár 1928. Réðst þá prestur til St. James safnaðar í sömu borg þar sem hann þjónaði til ársins 1958. Þá tók við þjónusta í ýmsum prestaköllum víða í Bandaríkjunum og Kanada svo sem Washington, Oregon, N. Dakota og Manitoba. Bæði greinar og sálmar eftir séra Kolbein birtust í íslenskum blöðum og tímaritum svo sem Lögbergi og Sameiningunni.