Pétur A Þorkelsson

Vesturfarar

Norskir bændur í heyskap í Minnesota um 1900. Mynd Norwegians in Minnesota

Norskir innflytjendur í Wisconsin höfðu allmikið forskot á frændur þeirra frá Íslandi sem settust þar að upp úr 1870. Þeirra frumbýlingsár voru þá að baki, aðlögunin að bandarísku samfélagi var augljós, meira kapp var lagt á enska tungu, norsk mannanöfn viku fyrir bandarískum og þótt söfnuðir í dreifbýlinu töldust norskir þá sungu prestar messu á ensku. Norðmönnum var orðið ljóst að ef tilgangi brottflutningsins til Ameríku ætti að nást þá var aðlögun að samfélaginu árangursríkast. Með þetta veganesti ákváðu norskir íbúar í Wisconsin að leita vestur á bóginn á svæði í suðvestur Minnesota árið 1875. Með þeim fór Gunnlaugur Pétursson frá Hákonarstöðum á Jökuldal, fyrstur Íslendinga til að nema þar land. Tíu árum seinna bjuggu þar 80 íslenskir bændur á jörðum sínum, íslenskir daglauna- og verslunarmenn voru 24 í þorpunum Minneota og Marshall. Þótt vestra hefði verið talað um íslensku byggðina eða nýlenduna í Minnesota þá er nú staðreyndin sú að meðal Íslendinga bjuggu landnemar af öðru þjóðerni og bar mest á norskum. Skólar fylgdu forskrift ríkisins þar var engin íslenskukennsla heldur var kapp lagt á enskunám, gott vald á enskri tungu var lykill að framtíð æskunnar í Bandaríkjunum. Pétur Aðalsteinn Þorkelsson var níu ára þegar foreldrar hans settust að í þessari ungu byggð. Drengurinn átti aldeilis eftir að spjara sig, verða nýtur þjóðfélagsþegn. Um hann skrifaði séra Guttormur Guttormsson prestur í Minnesota grein sem birtist í Almanaki Ólafs Þorgeirssonar í Winnipeg árið 1946.  Gefum honum orðið:

Dr. P. Adelstein Johnson

Pétur Aðalsteinn Þorkelsson

,,Nokkrir ágætismenn íslenzkir hafa orðið viðskila við landa sína hér vestan hafs. Þeir eru sumir nærri því gleymdir Íslendingum, og hafa þó getið sér góðan orðstír í annara garði. Einn af þeim mönnum er kirkjuhöfðinginn P. Adelstein Johnson D.D., fyrrum yfirmaður (State Superintendent) Congregationalista suður í Iowa. Hann heitir íslenzku nafni Pétur Aðalsteinn Þorkelsson og er fæddur 10. dag desembermánaðar, 1868, að Hálsi í Svarfaðardal. Foreldrar hans voru hjónin Þorkell Ingimundarson og Sigríður Guðmundsdóttir. Ingimundur faðir Þorkels var Ögmundsson, en kona Ögmundar og amma Þorkels var Guðríður, dóttir séra Jóns Þorlákssonar skálds að Bægisá.* Dr. Johnson er því fimti maður frá séra Jóni. Foreldrar Péturs bjuggu tvö ár að kleif á Árskóga-strönd, en fluttu þaðan vestur um haf til Winnipeg árið 1876. Um haustið hóf Pétur sinn námsferil á skólum þessa lands, þá átta ára gamall. Á þeim árum hirtu enskumælandi menn mjög lítið um stöfun eða framburð á útlendum nöfnum; þeir höfðu þau í skopi; gáfu útlendingum önnur nöfn, rétt út í bláinn, einkum ef börn eða unglingar áttu í hlut. Margir Íslendingar breyttu nöfnum sínum til að komast hjá vandræðum. Höfðu þá stundum tvö heiti, annað í sinn hóp en hitt hjá “enskum” – líkt og átt hefir sér stað víða um heim í sambýli þjóðflokka, bæði að fornu og nýju. Heyrt hefi eg að foreldrar Péturs tæki nafnið Johnson af því að Pétur lenti í erfiðleikum með föðurnafn sitt á barnaskólanum í Winnipeg, og má það vel vera satt”.

Minnesota

Miðbær Marshall

,,Árið 1878 flutti fjölskyldan suður í íslenzku bygðina í Minnesota, og átti heimili hér um bil árstíma í hvorri bygð og nokkur ár í bænum Minneota. Þorkell faðir Péturs dó í Vesturbygð á útmánuðum “harða veturinn” 1881. – Frá Minneota flutti ekkjan með börnum sínum til Marshall fáum árum síðar. Skólaganga Péturs varð lítil eða engin fyr en hann kom til Minneota. Í frumbygðunum voru þá skólar mjög í barndómi. Hann vann fyrir sér í bænum utan skóla eftir föngum; gætti að sumarlagi stórgripa fyrir bændur, eins og margir nafnkunnir Vestur-Íslendingar hafa gjört í æskunni. Þegar leið fram yfir 1880 fóru Íslendingar að setjast að í Marshall, því að þar var fremur gott um atvinnu. Bærinn var í framför. Marshallbúar bættu tveim miðskólabekkjum við barnaskólann árið 1886, og þá var kominn fullur miðskóli eftir fjögur ár. Unglingar frá íslenzku bygðunum sóttu þangað miðskólamentun fram yfir aldamótin; og mun óhætt að fullyrða það, að Íslendingar hafi drjúgum vaxið í áliti hjá innlendum lýð þar í Suður-Minnesota þegar börnin þeirra komu í Marshall skólann. Á þennan skóla gekk Pétur í nokkur ár og vann fyrir sér jöfnum höndum; fyrst um vetur við gripahirðingu hjá bónda skamt frá bænum; lagði þá nokkuð hart að sér; vann eftir það hjá lækni þar í Marshall, sem C. E. Persons hét, og naut hjá því fólki góðrar vináttu. Með Pétri voru í Marshall skólanum þrír piltar íslenzkir: Sigurður Sigvaldason frá Búastöðum í Vopnafirði, trúboðinn alkunni; Kristján Magnússon Gíslasonar (C. M. Gislason) frá Hrafnsstöðum í Bárðardal, síðar lögfræðingur og ríkisþingmaður, og í nokkur ár embættismaður kornskoðunarnefndar ríkisins; og Þorvaldur Björnsson, Gíslasonar (W. B. Gislason) sem lengi var kaupmaður í Minneota og síðar póstmeistari. Unglingar þessir þóttu hinir efnilegustu námsmenn allir og sköruðu fram úr í flestum greinum”.

Framhaldsnám – Framtíðarstarf

,,Pétur lauk námi þar í bæ árið 1889. Var hann efstur í sínum bekk og hlaut af því þann heiður að flytja kveðjuerindið að loknu burtfararprófi, eins og siður er vestan hafs. Efni voru nú lítil heima fyrir til æðri mentunar. Móðirin ekkja með yngsta barnið í ómegð. En þá kom honum aðstoð nokkur eða tilvísun úr annari átt. Persons læknir og fólk hans voru Congregationalistar. Hjá þeirri kirkju hafði Pétur gengið á sunnudagsskóla, – Íslendingar voru þá prestlausir suður þar – og haft ágætan kennara sem laðaði huga piltsins að kristinni trú og hvatti hann til að læra guðfræði. Varð það úr, að Pétur komst um haustið á háskóla (college) hjá Congregationalistum í Tabor suður í Iowa. Hann vann fyrir sér um veturinn hjá skólastjóranum, Dr. Brooks, sem reyndist Pétri frábærilega vel ávalt síðan. Sunarmánuðum varði hann til fjáröflunar; seldi bækur eitt sumarið. Svo gekk hann í félag með öðrum skólapiltum- þeir ferðuðust um, héldu samkomur og skemtu fólki við söng og ræðuhöld. Pétur var þá oftast ræðumaðurinn. Eftir fjögur ár á Tabor College lauk hann Bachelor of Science prófi við þann skóla. Vann síðan fyrir sér eitt ár við kennimannsstarf, en fékk svo styrk einhvern hjá Congregationalistum til guðfræðináms við Yale Divinity School í Connecticut. Þar tók hann fullnaðarpróf-Bachelor of Divinity- vorið 1897. Pétur stóð sig prýðis-vel í námi þar eins og annarsstaðar. Var hann svo vígður hjá Congregationalistum og þjónaði söfnuðum fyrst í Montevideo í Minnesota og þar næst í Ottumwa suður í Iowa. Varð hann skjótt í miklu áliti hjá kirkjubræðrum sínum; þeir kusu hann til yfir manns yfir Congregational kirkjunni suður þar – State Superintendent- árið 1907; og þeirri stöðu hélt hann í 31 ár, þangað til hann lét af embætti sumarið 1938″

Starfslok – Ritstörf

,,Hann bjó öll sín embættisár í bænum Grinnell í Iowa og býr þar enn. – Tabor College sæmdi hann doktors nafnbót árið 1907; og Grinnell College veitti honum sama heiður árið 1938. Dr. Johnson var vel metinn kirkjuleiðtogi og vinsæll með afbrygðum; hafði þó embættisferil nokkuð örðugan, ferðalög mikil og allskonar ómök og áhuggjur fyrir söfnuðinn og prestinn.Hann hefir jafnan verið ötull starfsmaður; þótti og ráðhollur og nærgætinn undirmönnum sínum. Þegar dr. Johnson lét af embætti var honum og frú hans haldið heiðurssamsæti mikið í Sioux City. Fyrir því stóðu embættismenn og erindsrekar á þingi Congregationalista þar í ríkinu. Veizlan fór fram á miðvikudegi 4. maí, 1938; sátu þar að borðum 250 manns. Þeim hjónum voru gefnir 11 hundruð dalir í peningum; beðin að verja því fé til ferðalaga; og þessari höfðinglegu gjöf fylgdi bæklingur með 200 kveðjum og heillaóskum frá kennilýð og leiðandi Congregationalista og mörgum merkismönnum víðsvegar að. Ræðumenn fluttu þar hugheilt lof um manninn og starf hans allt. Dr. Johnson er ekki síður mannkostum búinn en hæfileikum. Hann er ljúfmannlegur og skemtinn heim að sækja. Hefir hann komið sér vel hvar sem leið hans lá, allt frá barnsaldrinum og fram á elliár. – Það sem eg hefi eftir hann séð á prenti ber vott um trúað og kristilegt hugarfar og andlegt viðsýni. Rithátturinn myndarlegur og blátt áfram. Frú Johnson er af innlendum ættum, Alice Piper að frumnafni, dóttir verzlunarmanns í Tabor. Hún er merkiskona vel mentuð; vinnur mikið að kristindómsmálum. Þykir hún hafa veitt manni sínum hinn bezta stuðning í öllu starfi hans. Þau eiga tvær dætur, báðar giftar. Systkini Dr. Johnsons eru þrjú á lífi: Hallgrímur Johnson, umsjónarmaður stórbygginga í Watertown í Suður Dakota; Mrs Kristín Josephson búsett í sama bæ; hún skrifar oft í íslenzku-blöðin undir nafninu “Kristín í Watertown”; og Guðlaug Mrs. Gilliland, sem býr í borginni Washington, vel mentuð kona. Nú er þessi landi vor seztur í helgan stein, sem kallað er, eftir langt og gott æfistarf; en iðjulaus mun hann aldrei verða svo lengi sem honum endast ár og kraftar. Hann flytur messur og gjörir önnur prestsstörf við og við; þess er nú þörf, segir hann. Síðustu árin hefir hann verið að semja bók, sem nú er nýlega komin út; það er saga Congregationalista í Iowa ríki á næstliðnum hundrað árum. Heitir hún The First Century of Congregationalism in Iowa. Dr. Johnson hefir fengist nokkuð við sálmakveðskap. Hann er nú að safna þeim ljóðum í kver, sem líklega verður gefið út áður en langt líður.

“það, sem hér er sagt um ætt dr. Johnsons, er haft eftir systur hans Kristínu, en hún hefir það eftir móður sinni, sem var skýrleikskona. En hér um slóðir eru nú engin gögn til frekari rannsóknar eða sannprófunar á því máli! -G.G.