Séra Jóhann Bjarnason

Vesturfarar

Séra Jóhann Bjarnason Mynd VÍÆ IV

Jóhann Bjarnason var sonur hjónanna Bjarna Helgasonar og Helgu Jónasdóttur. Hann var hjá foreldrum sínum á Síðu í Víðidal og seinna að Hrappstöðum en fermdur fór hann að vinna fyrir sér ýmist hjá bændum við hefðbundin sveitastörf en líka stundaði hann sjómennsku. Vesturheimur var stöðugt í umræðum manna á meðal, sum systkina Jóhanns fóru vestur og árið 1887 fór móðir hans til Winnipeg. Bjarni, faðir hans, var ekki tilbúinn en 1890 fór Jóhann vestur samferða bróður sínum Helga. Báðir fóru til Winnipeg og þar fór Jóhann fljótlega að læra ensku jafnframt því að vinna hvaða vinnu sem bauðst, meira að segja vann hann á rakarastofu.

Menntun – Prestþjónusta

Eflaust hefur Jóhann velt framtíðarstarfi fyrir sér og kannski hugnaðist honum verslun og viðskipti því hann hóf nám í verslunarskóla í Winnipeg haustið 1896 og sundaði námið til vors 1897. Um haustið hóf hann síðan nám í ,,höfuðlagsfræði” (Phrenology rannsóknir á höfuðlagi manna)) hjá Fowlers & Wells í New York og útskrifaðist með Diploma. Hann kaus að gera hlé á námi á þessum tímamótum því faðir hans, Bjarni var orðinn blindur á Íslandi. Hann sigldi því til Íslands, sótti föður sinn og fór með hann til Mountain í N. Dakota árið 1900 en innritaðist svo haustið 1901 í ríkisháskólann í Seattle en fann sig ekki þar. Smám saman fann hann hvert hann vildi stefna og árið 1904 var hann sestur á skólabekk í lútherskum prestaskóla í Chicago í Illinois. Árið 1908 lauk hann þaðan prófi og 17. maí, 1908 vígði séra Jón Bjarnason hann til prests í kirkju Bræðrasafnaðar í Riverton í Nýja Íslandi. Um leið varð hann prestur allra, íslenskra safnaða í norðurhluta Nýja Íslands á vegum Lutherska kirkjufélagsins. Þjónaði hann þar á árunum 1908 til 1928, flutti þá til Winnipeg og hélt áfram prestsþjónustu t.a.m. í Gimli og Selkirk. Hann var ritari íslenska, Lutherska kirkjufélagsins frá 1924 til ársloka 1940. Skrifaði greinar í Sameininguna, tímarit félagsins og eins í íslensku vikublöðin.