Séra Níels Þorláksson

Vesturfarar

Séra Níels Steingrímur Þorláksson dvaldi í Milwaukee í Wisconsin með foreldrum sínum og systkinum árin 1873-1876. Páll bróðir hans undirbjó hann fyrir frekara nám vesturinn 1875-76 en um haustið 1876 hóf Níels nám við Luther College í Decorah í Iowa. Norskir landnemar í Wisconsin höfðu myndað söfnuði í Wisconsin og eigið kirkjufélag, Norwegian Synod. Þeir sendu guðfræðinema í skólann í Decorah og var Páll, bróðir Níelsar fyrsti Íslendingurinn til að setjast þar á skólabekk. Hann var vígður til prests árið 1875 hjá norska kirkjufélaginu. Níels lauk B. A. prófi frá skólanum árið 1881 og fór þaðan í nýstofnaða nýlendu Íslendinga í N. Dakota. Hann settist að í Mountain og rak þar verslun ásamt Haraldi bróður sínum en hugur hans stefndi annað og árið 1883 sigldi hann til Noregs og hóf guðfræðinám við Oslóarháskóla um haustið. Hann lauk þar námi og var vígður prestur 21. ágúst, 1887 af séra Jóni Bjarnasyni til safnaðanna í Minnesota.

Prestþjónusta – Önnur störf

Íslensku frumbýlingarnir í Minnesota, sem mynduðu íslensku byggðina á árunum 1875-1880 ákváðu að mynda íslenska söfnuði. Þeir höfðu til hliðsjónar lög íslensku safnaðanna í Nýja Íslandi sem séra Jón Bjarnason stofnaði en sitthvað úr lögum safnaða séra Páls Þorlákssonar í Nýja Íslandi var notað. Rétt að benda á að prestarnir í Nýja Íslandi deildu um trúmál, Séra Páll var vígður til prests í norska kirkjufélaginu en séra Jón var prestur íslensku þjóðkirkjunnar. Frumbýlingunum í Minnesota tókst að sneiða hjá öllum deilum en báðir prestarnir í Nýja Íslandi heimsóttu landa sína í Minnesota og unnu þar ýmis prestverk. Söfnuðirnir í Minnesota voru fjórir og var séra Níels fyrsti presturinn til að setjast að í byggðinni og þjóna öllum söfnuðunum. Árið 1894 kvaddi hann söfnuðina í Minnesota, tók köllun norskra safnaða í N. Dakota og þjónaði þeim til aldamóta. Í Selkirk í Manitoba hafði ýmislegt gengið á í safnaðarmálum Íslendinga þar, fámennt samfélag Íslendinga átti erfitt með að ná saman um kirkjumál og urðu deilur manna á meðal. Einn hópur vildi úrsögn úr íslenska kirkjufélaginu en því mótmæltu aðrir. Með hjálp góðra manna leystist deilan. Guðni Júlíus Oleson skrifaði þátt um íslensku nýlenduna í Selkirk sem birt var í Sögu Íslendinga í Vesturheimi 5. bindi. Þar segir m.a.,,Strax er deilan var um garð gengin, fóru menn að vinna saman að safnaðarmálum. Þá var fólkstal safnaðarins 25 fullorðnir, en 21 ófermdur. 28. júní, (1893) var kirkjan vígð af varaforseta kirkjufélagsins, séra F. J. Bergmann. Séra Jónas A. Sigurðsson þá nývígður prédikaði. Aðrir viðstaddir prestar voru: séra N. S. Thorláksson, séra B. B. Jónsson, séra Hafst. Pétursson. Séra Jón Bjarnason var um þær mundir veikur og gat ekki tekið þátt í starfi. Ekki varð neitt úr því, að séra Fr. J. Bergmann yrði fastaprestur í Selkirk, sem ekki var von, eins og þá stóðu sakir, söfnuðurinn fámennur og flestir ennþá fátækir. En söfnuðurinn sótti fram með hugrekki og bjartsýni. Á þessum árum sendi söfnuðurinn köllunarbréf þeim séra B. B. Jónssyni og séra Jónasi A. Sigurðssyni, en báðir höfnuðu. Séra Oddur V. Gíslason, sem var þjónandi prestur að nokkru í Nýja-Íslandi um þessar mundir, var kallaður 26. mars, 1895. Þjónaði hann í Selkirk á árunum 1895-1898, er hann hafði tíma afgangs.” Íslenski söfnuðurinn hafði eflst, safnaðarbörnum fjölgað og efnahagur margra batnað. Þann 25. október, 1895 var nefnd kosin til að velja hentugan stað fyrir nýja og stærri kirkju og lauk kirkjubyggingu árið 1899. Skoðum frekari skrif Guðna:,, Um þessar mundir var séra N. Steingrímur Thorláksson kallaður til safnaðarins, og eftir ráðagerðir og bollaleggingar tók hann kölluninni og fluttist með fjölskyldu sína til Selkirk í júní 1900 og þjónaði þar til ágústloka 1927, og fylgdi því starfi fyrir söfnuð og prest guðs blessun. Hafa börn hans mörgum öðrum fremur komizt vel til manns. Frá Selkirk kom fram eini Íslendingurinn hér vestra, sem ræktað hefur trúboðsstarf erlendis. Séra Octavius, elzti sonur séra Steingríms, var um langt skeið í Japan, fram um heimsstyrjöldina síðari.” Séra Níels lét af prestsþjónustu á 40 ára prestsafmæli sínu 21. ágúst, 1927. Hann lét kirkjumál Íslendinga sig miklu varða alla tíð og var einlægur stuðningsmaður Hins evangelisk-lútherska Kirkjufélags, var ritari þess, varaforseti og forseti. Hann var svo gerður heiðursforseti árið 1940 og hélt því embætti til dauðadags. Hann skrifaði ótal greinar í kirkjuleg tímarit Íslendinga vestra svo sem Sameininguna, Aldamót og Áramót. JÞ.