Séra Hjörtur Leo

Vesturfarar

Það kom snemma í ljós að Hjörtur Leo var góðum gáfum gæddur, barnaskólinn í Kanada var honum auðveldur, stóðst strax inntökupróf í miðskóla. Því námi lauk hann í Winnipeg, gerðist kennari og gekk hún vel. Honum var boðin skólastjórastaða á Gimli árið 1900. Ljótunn Sveinsson skrifaði um Hjört í ,,Sögu Álftavatns- og Grunnavatnsbyggða” . Þar segir :,,Haustið 1905 hóf hann nám við Wesley College í Winnipeg og lauk þar burtfararprófi árið 1907, hlaut hann þá nafnbótina Bachelor of Arts frá háskólanum. Voru stærðfræði og mælingafræði hans uppáhalds námsgreinar, og munu fáir námsmenn hafa staðið honum framar í þeim greinum. Að loknu námi við Wesley College, stundaði hann guðfræðisnám við Lúterska prestaskólann í Chicago og lauk þar þriggja ára námi á tveimur árum. Var prestvígður í St.Pauls kirkju, Minneota, af forseta kirkjufélagsins, séra Birni B. Jónssyni, 2. maí 1909. Þjónaði hann Konkordíu og Þingvallasöfnuðinum í Saskatchewan næstu árin. Hann hélt áfram námi samhliða prestsskapnum, stundaði hann þá Hebreskunám og kirkjulega fornfræði. Manitobaháskóli sæmdi ,,Magisters artium” nafnbótinni fyrir ritgjörð um Jóhannesarguðspjall. Auk prestakallsins í Saskatchewan, þjónað hann þrívegis um hríð söfnuðum vestur á Kyrrahafsströnd, í Blaine, Point Roberts og vancouver. Síðar var hann starfandi prestur við Manitobavatn, og síðast um allmörg ár á Lundar. Samhliða prestsskapnum stundaði hann kennslu og var það annað ævistarf hans. Tvisvar kenndi jann við Jóns Bjarnasonar skólann í Winnipeg, eitt ár sem skólastjóri, einnig kenndi hann við miðskóla Lundar”….

Umsagnir annarra

Ljótunn heldur áfram ,,Ég skrifaði fáein orð um séra Hjört í fyrra hefti Lundarbókarinnar, ætla ég því að leyfa mér að taka upp nokkrar setningar úr greinum, sem skrifaðar hafa verið um hann, af mönnum, sem eru svo miklu færari en ég. Magnús J. Bjarnason skrifaði ,,Endurminningar um séra Hjört Leo”, sem birtist í Eimreiðinni 1932. Meðal annars segir hann: ,,Séra hjörtur batt ekki bagga sína sömu hnútum og samtíðarmenn hans yfirleitt, og þess vegna misskildu sumir hann. Hann gat aldrei fengið sig til, að fylgja ýmsum listareglum tízkunnar, og honum var mjög illa við allt yfirskinstildur og hégómadýrkun. Hann hlífðist heldur ekki við að lára óbeit sína á því í ljós, hvar og hvenær sem var. Hann átti marga og einlæga vini. Og hann var ávalt sannur vinur vina sinna. Séra Hjörtur var, að mínu áliti, frábær gáfumaður og lærdómsmaður, ágætur kennari og snjall ræðumaðu, en hann var framar öllu skáld og mannkostamaður.” Næst gefur Ljótunn Dr. Guðmundi Paulson orðið:,,Séra Hjörtur Leo var framúrskarandi maður á sviði mennta og menningar. Hann var fluggáfaður, hafði unun af að læra, og persónugildi hans gerði hann eftirtektarverðan. Þessir kostir, samfara hans ágætu menntun, gerði hann að ógleymanlegum kennara. Hann gat skilið hlutina frá sjónarmiði nemandans, oh hafði mikil áhrif á líf þeirra, er þráðu æðri menntun og betri lífsskilyrði. Hann var glaður í viðmóti og spaugsamur og laðaði að sér eldri og yngri. Sérstaklega þótti honum vænt um áhugasama nemendur, sú hjálp, er hann veitti þeim var ótakmörkuð. Það mætti líkja honum við gáfaðan Víking, sem siglir burt til að kanna haf lærdóms og vísinda, á líkan hátt og Víkingar leituðu nýrra landa, frægðar og frama. Séra Hjörtur var ágætur ræðumaður, og var gæddur þeirri gáfu, að útlista skýrt og greinilega námsgreinar nemendanna, því er ekki að furða þó hann væri óvanalega góður kennari. Lærdómur í hans augum var eftirsóknarverður, án tillits til framtíðarhagnaðar, sem of oft gleymist á nútíðar menntastofnunum. Hann bar ætíð umhyggju fyrir velferð nemenda sinna, eftir að þeir byrjuðu lífsstarf sitt og var þeim alltaf hjálpsamur og vinveittur. Jafnframt því að vera mikill áhrifamaður opinberlega, hafði hann sérkennilega mikil og bætandi áhrif á nemendur af íslenzkum stofni. Hann var ávalt mikils metinn í samkvæmum stúdenta og menntamanna. Hans vingjarnlega viðmót og hjálpsemi, laðaði að sér þá, sem umgengust hann. Návist hans og hans göfuga hjartalag útilokaði allan ótta, efasemdir og áhyggjur, sem lífinu eru samfara”.