Gísli Einarsson frá Hrífunesi í V. Skaftafellssýslu bjó í Spanish Fork, líkt og Einar Hermann og kynntist honum ágætlega. Hann skrifaði um Einar grein, sem birt var í Almanakinu 1916 en undir hana kvittar Gísli svo; G.E. Bjarnason. ,,Einar Hermann Johnson er fæddur á Hermundarfelli í Norður Þingeyjarsýslu á Íslandi 2. desember, 1854. Faðir hans var Jón bóndi og hreppstjóri Einarsson, dáinn 20. ágúst, 1865, Gíslasonar skálds, Benediktssonar, Þorsteinssonar sem lengi bjó í Laxárdal í sömu sveit og sýslu, á fyrri hluta hinnar nítjándu aldar; en Benedikt, Gísli, Einar og Jón, bjuggu allir á Hermundarfelli, hver fram af öðrum, og voru taldir nýtir og gagnlegir menn í mannfélaginu, þó litlar færu sögur af þeim, utan Gísla; hans var víða getið, og við hann, af orðspori, kannast óefað margir vorra eldri manna, því lengi voru til, og eru líklega enn, vísur og kveðlingar eftir hann, þó ekkert af því tagi, verði tilfært hér. Jón, faðir Einars var á sinni tíð, orðlagður dugnaðar og merkismaður; búhöldur góður, og besti smiður, bæði á tré og járn, og talinn mikið vel að sér í öllum almennum fræðum. Kona hans hét Ingunn Guðmundsdóttir; dáin 10. desember, 1901, Þorsteinssonar á Hafurstöðum, Þorsteinssonar á Sjóarlandi, Guðmundssonar á Hallgilsstöðum á Langanesi, Þorsteinssonar í Fagradal í Vopnafirði í Norðurmýrasýslu, mesta hraustmennis að burðum, Styrbjörnssonar bónda á Ketilstöðum í Jökulsárhlíð, hins mesta garps og mikilmennis; hans er víða getið í sögum og ævintýrum, og talinn ættfaðir stórrar og merkrar kynslóðar í því héraði. Jón og Ingunn foreldrar Einars voru systkinabörn; Lilja móðir Jóns og Rósa móðir Ingunnar, voru dætur Péturs Hanskamakara; og bjó hann eittsinni á Ísólfsstöðum á Tjörnesi; faðir Jónasar Péturssonar er alment var kallaður ”Jónas snikkari”, faðir Jóhanns Gottfreðs bónda er lézt í Pipestone nýlendu í Manitoba. Er ætt sú lítt kunn. En á hina hliðina, föðurætt Ingunnar móður Einars, segja ættfróðir menn að megi rekja til Ólöfar ríku Loftsdóttur á Skarði – dáin 1484. – Hún átti Björn riddara Þorleifsson, af Vatnsfjarðarætt; og eru það 16 liðir.”
Uppvaxtarárin- Kanada,,Einar ólst upp á Hermundarfelli með föður og móður, og síðan með stjúpföður, Ólafi Gíslasyni og móður sinni, þar til árið 1870, að sú familía flutti að Brimnesi á Langanesi; þar var hann í þrjú ár. Árið 1873, fór hann sem vinnumaður til Björns bónda Björnssonar í Laxárdal í Þistilfirði og dvaldi þar um þriggja ára tíma. En þaðan flutti hann að Bakka á Langanesströndum, til Lárusar bónda Guðmundssonar, sem var Húnvetningur að ætt, en kona hans hét Kristbjörg Jónsdóttir, Gíslasonar skálds Benidiktssonar, sem hér að framan er getið. Voru þau því náskyld, Einar og kona Lárusar. Um vorið 1877, lenti Einar austur í Vopnafjörð og var þar eitt ár, á bæ sem heitir Hámundastaðir, fór svo aftur að Bakka til Lárusar, og átti þar heimili, þar til hann fór til Ameríku 1. júlí, 1879. Gekk ferðin greitt, og lenti hann og þeir sem með honum voru, nær 250 að tölu, í Quebec 19. júlí. Þaðan var haldið til Toronto, og þar skildi Einar við samferðafólk sitt. Frá Toronto fór Einar til Alvinston, og settist þar að fyrir tíma, hjá Jónasi frænda sínum, sem flutt hafði vestur fyrir nokkrum árum – fór 1874, Jónas þessi frændi hans var Jónatansson, bónda Þorkelssonar frá Flautafelli í Þistilfirði. Móðir Jónasar hét Guðlaug Jónsdóttir, systir Kristbjargar á Bakka, svo þeir Einar og Jónas voru það sem vanalega er kallað þrímenningar. Einar dvaldi svo um nokkurra ára tíma á ýmsum stöðum í Ontario fylki; lengst þó í London, og Chatham og þangað flutti Jónas líka, og andaðist þar hinn 23. ágúst 1883. Árið 1884, flutti Einar til Norður Dakota, var það um haustið, snemma í nóvember; kom hann á þeirri ferð við í Chicago, og hitti þar nokkra landsmenn sína, en endaði ferðina á Mountain N. D. Þar var hann svo á ýmsum stöðum í hálft annað ár, eða þar til um vorið 1886, að hann fluttist til Duluth, Minn., og þaðan, eftir fjögur ár, eða 1890 til Helena Mont., síðan þaðan suður til Spanish Fork í Utah, og þar hefir hann hafst við síðan.
Fjölskylduhagir: Einar er tvíkvæntur, og eru báðar konur hans dánar. Fyrri kona hans hét Guðrún dóttir Hallgríms bónda Ólafssonar Gottskálkssonar frá Svertingjastöðum í Kaupangssveit í Eyjafirði; og Sigríðar Jónasdóttur, frá Veturliðastöðum í Fnjóskadal, Bjarnasonar frá Reykjum Halldórssonar frá Bakka. – Bjuggu foreldrar Guðrúnar á Fremstafelli í Köldukinn í Suður-Þingeyjarsýslu. Guðrún var alsystir Jónasar Hall á Garðar*, og þeirra systkina. Hún andaðist 19. september, 1889.” *N. Dakota. ,,Seinni kona Einars hét Ingibjörg, dóttir Árna bónda Sveinssonar á Hálsi í Hálsþinghá í Norður Múlasýslu, og síðar á Hærukollsnesi, Péturssonar prests á Berufirði. En móðir hennar hét Guðný Jónsdóttir Guðmundssonar bónda á Kélduskógum, og Guðrúnar Gunnlaugsdóttur, prests, Þórðarsonar á Hallormsstað. Ingibjörg lést 10. janúar, 1913. Með konum sínum eignaðist Einar tvo sonu, og eina dóttir; eru synir hans báðir stórir og mannvænlegir menn, og dóttirin mesta myndar kona; öll eru börn hans fullorðin og gift. Dóttir hans býr í Spanish Fork, og hjá henni hefur Einar verið með annan fótinn síðan hann varð ekkjumaður í seinna sinn. Einar er maður vel við vöxt; nær 6 fet á hæð. Hann er fríður sínum; djarflegur, kurteis og viðfeldinn í allri framkomu. Hann er tryggur og vinafastur; en vina vandur, líkt og margir forn-Íslendingar voru. Það er sérstaklega skemtilegt að hitta hann heima hjá sér, og á skrifstofu sinni, því hann er bæði ræðinn og fróður um margt, auk þess sem hann er mjög gestrisinn, eins og margir landar vorir eru. Hvað stjórnmálum viðvíkur, er hann mjög ákveðinn ”republican”, en hæverskur, og gott að koma máli sínu fram við hann. Vel er hann heima í lögum þessa lands; hefur hann orðið mörgum að liði, bæði löndum vorum og öðrum í þeim sökum. – Sem fréttaritari, held eg fáir hafi komist til jafns við hann, að minsta kosti, enginn gert betur, sem eg tilveit, vegna þess, að hann hefir jafnan haft snoturt lag á að krydda ritgerðir sínar með ýmsum skrítlum, sem hafa lýst andans fjöri, og allir hafa gaman af að lesa, sem ekki er nein undur, því maðurinn er vel hagmæltur, en alt er það meinlaust, skrítlur hans og kveðskapur.”
Félagsmál-ýmis störf: Í öllum félagsskapar-málum, hefir hann jafnan verið með þeim fyrstu og fremstu, og styrkt félagsskap, bæði í orði og verki. Hann var hinn fyrsti hvatamaður að stofnun verzlunarfélags Íslendinga hér; sömuleiðis lestrarfélagið, Þjóðminningarfélagið, og fleira, og oftast forseti þeirra. Hann hefur líka verið aðal-yfirmaður hins volduga ”Maccabee” – félags hér í bænum, og ríkinu, svo árum skiftir, og lagt undirstöðuna til þess sem það félag er nú orðið hér í bænum. Hann hefur líka verið umboðsmaður og útsölumaður ýmsra verzlunarfélaga síðastliðin 15 ár, og farnast vel. Margt fleira mætti rita hér um Einar, og geta ýmsra merkra viðburða, sem komið hafa fyrir á lífsleið hans, ef tími og rúm leyfði. Vér Íslendingar í Spanish Fork, höfum orsök til að vera stoltir af Mr. Johnson, vegna hans miklu og góðu hæfilegleika; líka þess, að hann ritaði landnámssögu þátt okkar svo ágætlega, og síðast af því að hann er sannur Íslendingur”. G. E. Bjarnason frá Hrífunesi í Vestur-Skaftafellssýslu.
Það er ljóst að Einar hefur upplifað tilraunir landa sinna í Ontario, N. Dakota og Minnesota til að varðveita íslenska arfleifð. Hann veit um íslensku fréttablöðin í Winnipeg, lestrarfélög hvarvetna svo og þjóðminningardaga í Winnipeg og Mountain, N. Dakota. Hann dró ekki á langinn að kynna sínar hugmyndir í Spanish Fork og kom þeim í verk. Undirtektir hafa eflaust verið dræmari í Spanish Fork vegna þess að þangað fór enginn með það efst í huga að varðveita uppruna sinn af fremsta megni, þangað fór fólkið frá Íslandi vegna nýrrar trúar sinnar fyrst og fremst, í faðm trúbræðra frá öllum heimshornum sem saman unnu að sköpun sæluríkis Mormóna. Einar endaði grein sína í Almanakinu árið 1915 með þessum orðum: ,,Eins og hér að framan er ávikið, líður flestum Íslendingum hér heldur vel, og útlitið með framtíðina eins gott og hægt er að búast við, eftir öllum ástæðum. Það hefir enginn innflutningur átt sér stað meðal vor, svo teljandi sé, síðast liðin 20 ár. – Þar af leiðir, að tölu hinna íslenzku Íslendinga hér, fækkar einlægt. Og útlit er helzt fyrir, að íslenzk tunga muni líða hér undir lok með okkur þeim eldri. Það sem eg hef fyrir mér með þetta, er dagleg sjón og reynsla. Íslendingar þeir sem hér búa nú, eru komnir í þriðja ættlið, þegar talað er um þá alla sem Íslendinga. Fyrsti liðurinn, þeir elztu, sem fæddir eru á Íslandi, kunna náttúrulega ísl þolanlega og halda henni við. Annar liðurinn, börn vor, skilja talsvert í henni, en fá ef þeim geta talað hana vel, vilja heldur tala ensku, og gera það í flestum tilfellum. Þriðji liðurinn, barna-börn vor, sem nú óðum fjölga og koma til sögunnar, skilja hvorki né tala íslenzku, og af því greg ég það, að íslenzk tunga hverfi hér með eldri kynslóðinni, en við því verður ekkert gert. Einasta meðalið til viðhalds tungu vorrar, væri nokkurn veginn stöðugur innflutningur frá Gamla föðurlandinu´´.