Frumherjakonur

Vesturfarar

Árið 1949 birti Árdís, ársrit Bandalags Lúterskra Kvenna myndina hér að neðan en hún var tekin í Winnipeg. Með myndinni var skrifað eftirfarandi:

,,Íslenzkar frumherja konur”                   

Aftari röð, talið frá vinstri: Mrs. Jóhann Briem, Mrs. W. H. Paulson, Mrs. Arni Frederickson, Mrs. H. Hermann, Mrs. Jón Björnsson, Mrs. S. Christopherson. Fremri röð: Mrs. Sigtryggur Jónasson, Mrs. Friðrik Bergmann, Mrs. Jón Bjarnason, Mrs. Friðjón Frederickson, Mrs. Páll Bardal.

Eftirfylgjandi kafli er helgaður minningu íslenzkra frumherja kvenna vestan hafs, er með fórnarlund sinni, atorku og kristilegu hugarfari höfðu djúp áhrif á samfélag sitt. Mynd þessi er tekin árið 1891, og voru þessar konur staddar í Winnipeg ásamt mönnum sínum, sem voru það ár erindrekar á kirkju hins Ev. Lút. Kirkjufélags Vestur- Íslendinga.                                                 

Guðrún Briem F. 17. april – D. 18. apríl 1937.

Kom með foreldrum sínum til Nýja Íslands 1876. Giftist hún síðar Jóhanni Briem, bróður séra Valdimars sálmaskálds, Jakobs, sem mörgum var kunnur vestan hafs og frú Rannveigar Jónasson. Hún var starfandi meðlimur í Bræðrasöfnuði í Riverton, þar sem Grund, Briems heimilið, stóð. Í mörg ár stjórnaði hún sunnudagaskóla safnaðarins og lét sér af hjarta annt um velferðarmál safnaðar síns. (Guðrún Ólöf Magnúsdóttir Thorlacius)

Jónína Margrét Paulson F. 14. febr. 1862 – D. 2. Apríl 1894.

Hún var bróðurdóttir séra Jóns Bjarnasonar og litlu eftir að hún kom frá Íslandi giftist hún Vilhelm H. Paulson. Hún var fríðleiks og gáfukona, starfandi í kvenfél. Fyrsta lút. safn. í Winnipeg. Fráfall hennar á unga aldri var samfélagi hennar harmdauði. (Jónína Margrét Nikulásdóttir)

Sigurbjörg Frederickson F.14. ágúst 1861 – D. 8. júlí 1941.

Var með foreldrum sínum í hópi þeim, sem settist að í Kinmount, Ont., 1874, en fóru til Nýja Íslands 1875. Í Winnipeg giftist hún Árna Frederickson og voru þau fram úr skarandi meðlimir Fyrsta lút. safnaðar þar til þau fluttu til Vancouver B. C. (Sigurbjörg Þorláksdóttir).

Magnea Hermann F. 22. jan. 1846 – D. 3. feb. 1920.

Kom með manni sínum, Hermanni Hjálmarssyni Hermann frá Íslandi árið 1890, og með fjölskyldu sinni settust þau að í Garðar byggðinni í N. Dak. Þar tilheyrðu þau um margra ára skeið Garðar söfnuði. Síðar voru þau í Winnipeg meðlimir Fyrsta lút. safnaðar. – Magnea og frú Lára Bjarnason voru systur. (Magnea Pétursdóttir)

Helga Björnson F. 18. jan. 1842 – D. 16. des. 1932

Kona Jóns Björnssonar frá Héðinshöfða í Þingeyjarsýslu, kom til þessa lands, ekkja með ungum syni sínum, Kristjáni Benediktssyni. Á fyrstu árum í Nýja Íslandi giftist hún Jóni Björnssyni og voru þau með frumherjum Argyle byggðar. Síðustu ár þeirra bjuggu þau að Baldur, Man. Helga var meðlimur Kvenfélags Frelsissafnaðar. (Helga Gísladóttir)

Caroline Christopherson F. 11. maí, 1856 – D. 9. des. 1923.

Fædd í þessu landi, dóttir William Taylor, bróðir John Taylor umboðsmanns kanadísku  stjórnarinnar í Nýja Íslandi. Seint á vetri 1876 voru gefin saman í hjónaband af kynblendinga presti, Sigurður Christopherson og Caroline Taylor, brúðhjónin öðrumegin bólusóttarvarnarlínunnar og presturinn hinumegin. Með Skafta Arasyni og Kristjáni Jónssyni fór Sigurður vestur og nam fyrstur land í Argyle byggð, og þar bjuggu þau hjón og voru vel starfandi meðlimir í Frelsissöfnuði. Síðan fluttu Christophersson hjónin til Crescent, B.C. og bjuggu þar til æfiloka. Susan, systir Mrs. Christopherson var kona séra Halldórs Briem. Báðar þær systur töluðu Íslenzku og voru heima hjá sér í íslenzkum félagsskap.

Rannveig Jónasson F. 26. ágúst 1853 – D. 7.ágúst 1916.

Kom frá Íslandi 1876 þá nýgift Sigtryggi Jónassyni. Bræður hennar voru Jóhann og Jakob Briem í þessari álfu og á Íslandi, Sálmaskáldið, vígslubiskub séra Valdimar Briem. Hún tilheyrði Fyrsta lút. söfnuði í Winnipeg, en að öðru leyti gaf hún sig ekki mikið að félagsmálum. Rannveig var frábærlega vel gefin og víðlesin. Á heimili þeirra var gestkvænt og skemtilegt að koma. Sértakt lag hafði hún á því að bæna börn að sér með hlýrri og vingjarnlegri kurteisi.

Guðrún Bergmann F. 29. sept. 1855 – D. 10. sept. 1938.

Giftist séra Friðrik Bergmann í apríl 1888 á næsta ári eftir að hún kom frá Íslandi. Þá var séra Friðrik prestur í Garðar byggð í Norður Dakota, en síðar flutti fjölskyldan til Winnipeg, þar sem hann gegndi kennara og presstöðu  í mörg ár. Heimili þeirra var víðþekkt að innilegri gestrisni og hlýleik gagnvart þeim, sem þar dvöldu um lengri eða skemmri tíma og drjúgan þátt lagði hún til þess með sínu hógværa ljúflyndi. (Guðrún Pálsdóttir)

Laura Michaeline Bjarnason F. 16. maí, 1842 – D. 17. júní 1921

Kona séra Jóns Bjarnasonar og hans óbrigðula stoð. Um hana hefir svo margt verið ritað að óþarfi er að ítreka það í þessari takmörkuðu grein. (Lára Gudjohnsen)

Guðný S. Frederickson F. 29. október 1856 – D. 9. mars 1948

Á leiðað heiman frá föðurhúsum til Akureyrar, þaðan sem lagt var áleiðis til Ameríku árið 1873 voru gefin saman í hjónaband, Guðný og Friðjón Frederickson. Í Nýja Íslandi og síðar í Glenboro og Winnipeg voru þau hjón ávalt í broddi fylkingar í kirkju og öðrum velferðarmálum landa sinna. Hún náði hárri elli og lifði síðust þeirra, sem létu mynda sig saman, 1891.

Halldóra Bardal  F. 1. júlí, 1865 – D. 10. okt. 1943.

Til Nýja Íslands kom hún með foreldrum sínum og systkinum árið 1876. Árið 1885 giftist hún sínum mæta manni, Páli S. Bardal og stofnuðu þau heimili, sem mörgum var kunnugt að gestrisni og glaðværð. Hún var meðlimur Fyrsta lút. safnaðar frá fyrstu árum og áhugasöm og starfsöm í kvenfélagi hans. (Halldóra Björnsdóttir)

Undir greinina skrifar Flora Benson.