Fyrstu skólaárin

Vesturfarar

Eitt dáðasta skáld Nýja Íslands var án efa Guttormur J. Guttormsson. Ljóð hans, vísur, sögur og leikrit fjölluðu um lífið á frumbýlingsárunum í Nýja Íslandi þar sem Guttormur ólst upp. Árið 1951 birti Almanakið í Winnipeg grein eftir Guttorm þar sem hann lýsir sínum fyrstu skólaárum í bjálkahúsi við Íslendingafljót. Gefum skáldinu orðið.

Fyrstu skólaárin við Íslendingafljót 1887 – 1889

Eftir Guttorm J Guttormsson

Salína Pétursson Mynd TIPIM

,,Veturinn áður en lögskipa’ir skólar voru stofnaðir í Nýja Íslandi fór fram barnakensla á Grund við Íslendingafljót, heimili Jóhanns Briem, í allstóru bjálkahúsi, sem var áfast íveruhúsinu. Enginn vissi í hvaða tilgangi Jóhann hafði reist þetta hús. Í því var hann aldrei nema gestur. Gróðafyrirtæki gat þeð ekki verið, því þá var ekki siður að selja hús á leigu. Varla hefir hann getað grunað, að húsið ætti fyrir sér að verða prestssetur, því næst barnaskóli og síðast kaupmannssetur. Skömmu eftir að kaupmaðurinn var þaðan allur burt, reif Jóhann húsið til grunna, jafnaði það við jörðu og þurkaði það út úr tilverunni einnig í alveg óþektum tilgangi. Húsið átti sína sögu og hana merkilega og merkilegasta fyrir þessa skólastofnun. Þetta var fyrsti opinberi skólinn í byggðinni, sem ekki var styrktur af “hinu opinbera”, og fyrsti opinberi skólinn þar sem enska var kend. Aðstandendur barnanna og sum barnanna sjálf tóku að sér að bera allan kostnað í sambandi við þetta skólahald. Kennarinn var ungfrú Salín Pétursson, sem stundað hafði nám í Winnipeg, en var að nokkru leyti uppfædd í Fljótsbyggðinni, átti þar foreldra og mörg systkini. (innsk JÞ: Guðrún Salína Sigfúsdóttir, f. 1. febrúar, 1871, var dóttir Sigfúsar Péturssonar og Þóru Sveinsdóttur sem bjuggu á Skógargarði í Fljótsbyggð. Þau fluttu vestur árið 1878).  Hún var stórgáfuð og afburða glæsilega stúlka. Stundaði hún framhaldsnám við Gustavus Afolfus háskólann í Minnesota, gerðist síðan fyrsta flokks kennari. Á eg þar við kosti hennar sem kennara, en ekki mentunarstig, sem mér er ókunnugt. Mun hún og Björg Þorkelsson, önnur góð og gáfuð stúla, vera fyrstu prófgengnu íslenzku kennararnir í Manitoba, ef til vill öllu Canada. Ætti það mál að verða betur rannsakað. Auk ensku var skrift, reikningur og landafræði kend í þessum fyrsta almenna skóla við Fljótið. Aðstoðarkennari Salínar var eldri maður, nýkominn “að heiman”; kendi aðallega reikning, en hann var kauplaus eða “dollar a year man” eða “minister without portfolio”. Reyndar mætti telja hann í flokki skólabarnanna, því í frítímum var hann að læra ensku hjá Salínu. Hvort þessi verka skifti hafa verið hagkvæm fyrir Salínu læt eg alveg ósagt; en nemendafjöldinn var afar mikill og kennslan of mikið verk fyrir einn kennara.” (innsk: JÞ. Björg, f. 3. nóvember, 1868, var dóttir Jóns Jónatanssonar og Guðrúnar Sveinungadóttur)

Nemendur – Aldur og stærð

,,Skólabörnin voru á ýmsum aldri og stærð. Þar voru börn, sem ekki áttu fyrir sér að stækka og þroskast meira en þegar var orðið, þar á meðal ekkja með þrjú börn, öll yngri en hún var sjálf, þó hún væri skólabarn. Hún var þá nýkomin “að heiman”, “mállaus”. (Mállausir voru allir kallaðir sem ekki kunnu annað mál en íslenzku). Henni var umhugað um að læra enskuna til þess sjálf að geta kent hana þeim börnum sínum, sem ekki höfðu náð skóla aldri, en voru fædd “mállaus”. Einn skóladrengjanna hafði komið fullvaxinn “að heiman” með foreldrum sínum. Hann var sex fet á hæð og leit út fyrir að vera eldri en pabbi hans, jafnvel afa sínum. Allir gátu séð að hann var ekki ný fæddur, því hann hafði skegg og þurfti oft að raka sig. En af því að hann var svo stór eftir aldri og efnilegur, hugði Salín, að hann væri sjór af fróðleik og þekkingu og bað hann eitt sinn í námstíma að hafa yfir mánaðanöfnin á ensku. Þarna var nokkuð, sem hann hafði aldrei heyrt getið um á æfi sinni. Salín biður hann þá að segja nöfnin á íslenzku. Drenghnokkinn reis úr sæti sínu og hugðu allir gott til, en það stóð á svari. Salín hyggur, að hann muni ekki upphafið og segir: Janúar. Þá er þögn. Salín segir: Febrúar. Honum misheyrist og segir Grebrúar. Tóku þá allir krakkarnir að hlægja. Því undi drengurinn illa, settist niður og segir “God-dem”. (innsk; JÞ vont blótsyrði á ensku) Þá varð enn meiri hláturinn og gat kennarinn ekki stilt sig að hlægja líka. Auðvitað leið Salín ekki ljótt orðbragð í skólanum, en hún gat ekki fengið sig til að hirta dreng á þessum aldri. Eftir þennan námsvetur kom piltur þessi aldrei inn fyrir skóladyr, en gerðist þó mikill enskumaður og einn af beztu skipstjórum á stórvötnum Canada.”

Agi í tímum – stríð í frímínútum

,,Það var einkennandi, að margir skóladrengjanna gnæfðu hátt yfir feður sína, en voru þó ekki fullorðnir kallaðir. Þrátt fyrir skort og örðugleika frumbýlingsáranna voru þeir hinir mestu atgervismenn og uppvöðslusamir nokkuð. Var aðdáanleg sú stjórn, sem Salín hafði á þeim í námstíma; þá datt ekki af þeim né draup, og svo hljótt höfðu þeir um sig, að flugu hefði mátt heyra anda, ef þetta hefði verið um flugnatímann. En mikil umskifti urðu, þegar þeim var hleypt út á “frítímum”- námshlé var þá óþekt hugtak – þá var ekki komist hjá stríði. Þeir mundu hafa stutt þá kenningu, að stríð væri náttúrulög, algerlega tilgangslaus, og að stríð mundu halda áfram í heiminum þó að ekki væri út af neinu né fyrir neinu að berjast. Einn þeirra fékk vel hnoðaðan snjóköggul graman í sig og misti heil skæði af andlitinu. Hann varð að hverfa heim til aðgerðar. Eftir langan tíma kom hann í skólann með nýtt höfuðleður sem á ensku þekist sem “splitleather”. Annar var rekinn úr skólanum fyrir að brjóta bein í öðrum en sjálfum sér. Ef hann hefði brotið sín eigin bein, hefði allt verið gott; hann hefði notið okkar aðdáunar og umhyggju, hlotið okkar virðingu og þakklæti og kvenfélagið sent honum “pie” á sængina.”

Frost í skólastofu- dæmalaus skólatafla

“Veturinn næsta á eftir fór hinn fyrsti lögskipaði skóli Fljótsbyggðar fram í kirkjubyggingu, stóru bjálkahúsi. Í því var svo kalt um kuldatímann, að nemendurnir héldust ekki við á skólabekkjunum, heldur hrúguðu sér í yfirhöfnum sínum kringum eldstæðin og lásu lexíuna sína, ef þau sáu þá nokkuð fyrir andanum sínum. Auk landabréfa hékk á veggnum ein heljarstór svartatafla (blackboard). Var hún heimaunnin úr hefluðum borðum og máluð svört. En af því krítin hrein ekki á henni, var það ráð tekið að klessa á hana þykku lagi af “Plaster of Paris” og málað svart yfir. Lánaðist það vel, að öðru leyti en því, að heil skriðuföll af þessu efni losnuðu við viðinn. Mörg óreiknuð reikningsdæmi hröpuðu niður á gólf til gleði fyrir þann, sem þetta ritar.”

 Jón Runólfsson skáld – nýr kennari

,,Annan vetur í þessu sama skólahúsi var góðskáldið Jón Runólfsson kennari. Hann var maður vel mentaður og að eðlisfari enginn harðstjóri, hvorki við sjálfan sig né aðra. Það var ósjaldan, að króarnir fengu sér slag af “Pedro” á morgnana áður en kennslan byrjaði; og þegar svo bar undir, að slagurinn var ekki búinn, þegar tími var kominn að setja skólann, var Jón svo nærgætinn að leyfa þeim að ljúka við slaginn. Hann fékk sér þá í pípu og reykti sér til dægrastyttingar, þangað til slagurinn var búinn og kennslan gat byrjað öllum að meina lausu. Reglan var hin bezta, utan einu sinni, að mús kom úr holu sinni út á gólfið til að rétta úr sér og liðka sig. Sem nærri má geta, gerði þetta ógnarmikla truflun í skólanum. Allir skóladrengirnir gerðust sjálfboðaliðar að reka músina út um dyrnar, en músin hafði hugmynd um, að dyrnar höfðu ekki verið gerðar fyrir hana persónulega – til þess voru þær óþarflega stórar – og var ófáanleg til að nota þær. Skóladrengirnir eltust við hana, úr einu horni í annað, til að reyna að koma henni í skilning um, að dyrnar væru jafnt fyrir háa og lága – án manngreiningar álits. Jón vildi aðra aðferð, en varð í minnihluta. Hans markmið var að spekja músina, ná henni upp í lófa sinn, og “marséra” með hana út um dyrnar. En svo hittist á, að músin var aldrei þar, sem hann greip niður. Hún var eins og “skíritus” á andatrúarfundi, hvarf um leið og hún birtist. Með nærveru sinni eingöngu, gat hún áorkað því að allir hlutir færðust úr stað, borð og stólar dönsuðu og þreifað var eftir því, sem hönd varð ekki áfest. Auðvitað var enginn munur á látbragði nemendanna og því sem orðið hefði, ef músin hefði hlaupið upp í buxna skálmar þeirra. Allir, undantekningarlaust, sem fyrir því verða, er mælt að dansi yfirnátúrulega skrautdansa.”

Kennsla Jóns

,,Kennsla Jóns var með nokkru öðru móti en annara kennara við hina lögskipuðu skóla; hún fór fram á íslenzku, þó skólinn ætti að heita enskur. Leskaflana á enskunni (Lexíurnar) þýddi hann á gullaldar íslenzku um leið og hann las þá. (Sennilegahefir enginn Íslendingur tekið honum fram að þýða úr ensku á íslenzku. Verkin sýna merkin: “Draumur konu Pílatusar” og “Enoch Arden”). Hann las íslenzku á enska bók í víðri merkingu. Sú kennslu aðferð gerði það að verkum, að nemendurnir urðu í senn góðir Íslendingar og góðir borgarar þessa lands “í heilbrigðu jafnvægi”. Tillögu þess efnis; að kennsluaðferð sú verði tekin upp við helztu menntastofnanir vorar, mun eg glaður samþykkja.”