Guðbjörg Hjaltadóttir

Vesturfarar

Skólinn í Marshland, ef til vill er það Jóhann Magnús sem þarna stendur. Mynd TSPLD

Jóhann Magnús Bjarnason kynntist vel lífinu í ýmsum byggðum Íslendinga í Norður Dakota, Manitoba og Saskatchewan. Hann var kennari að mennt, rithöfundur og skáld. Hann kenndi í Marshland byggðinni í Manitoba á árunum 1905-1910 og þar kynntist hann Guðbjörgu Hjaltadóttur. Hann skrifaði um hana minningagrein sem birt var í Almanakinu árið 1931. Í inngangi greinir hann frá ætt Guðbjargar, systkinum sem vestur fóru svo og manni hennar, Jóni Atla Magnússyni og börnum þeirra og segir svo:

,,Eg kyntist Guðbjörgu á árunum 1905 til 1910, þegar eg var í nágrenni við hana í Marshland – bygð. Hún var þá komin á sextugs aldur. Og hún var þá búin að vera hér í landi um tuttugu ár, og hafði allan þann tíma orðið að stríða við þá örðugleika, sem frumbýlingslífið hefir jafnan í för með sér. Hún hafði komið til Dakota, þegar íslenzka nýlendan þar var enn ung; hín kom til Þingvalla-nýlendunnar, þegar sú bygð var rétt að byrja; hún kom til Sandy Bay, þegar þar var enn þá mjög strjálbygð; og hún og maður hennar voru með þeim fyrstu til að nema land í Marshlandi, sem þá var alment nefnt Big Grass. Fyrstu átján eða tuttugu ár Guðbjargar í þessu landi gengu því nær eingöngu í það, að leita að viðunanlegum bústað, og sá kafli æfi hennar mátti heita óslitin barátta við fátækt og aðra örðugleika frumbýlingslífsins. Og það var um hana, eins og flestar íslenzkar alþýðukonur í Ameríku á þeim árum, að hlutskifti hennar gat ekki verið annað en strit og lúi. Hún, eins og flestar íslenzkar landnámskonur hér vestan hafs, var oftast fyrst (eða með þeim fyrstu) á heimilinu til að fara á fætur á morgnanna, og síðust allra til að ganga til hvíldar á kvöldin, eftir að hafa unnið uppihaldslaust allan liðlangan daginn. Og hvíldarlaus vinna var jafnan það, sem hún átti í vændum með morgundeginum. En hún gjörði hverjum degi sín skil, og kvartaði aldrei og lét hugfallast, þó lífskjörin væru oft næsta þung, og þröngt væri í búi og aðstæður allar erfiðar.”

 Íslenskar landnámskonur    

,,Íslenzku landnámskonurnar í Vesturheimi voru sannar hetjur, engu síður en karlmennirnir. Þær gjörðu aldrei mikið úr þeim erfiðleikum, sem þær áttu við að stríða. Þær sýndu í öllum þrautum og andstreymi svo mikið af hreinni hugprýði og sönnu þolgæði, að það var vissulega aðdáunarvert. En við, sem vorum þessum frábæru mannkostakonum samtíða, tókum ekki eftir þessum miklu kostum þeirra á meðan við vorum á vegi með þeim – veittum þeim ekki verulega eftirtekt fyr en frumbýlings- baráttan var að mestu um garð gengin, og önnur kynslóð tekin við. Og þegar við segjum baráttu-sögu þessara landnámskvenna, þá vita dætur þeirra að vísu, að sagan er í öllum atriðum sönn; en dætra-dætrum þeirra mun oft finnast hún vera næsta ótrúleg á köflum, eins og líka vonlegt er, því að svo ólík eru kjör þeirra, yfirleitt, í samanburði við það, sem ömmur þeirra urðu að reyna á fyrstu landnáms-árunum hér. Og Guðbjörg Hjaltadóttir var landnámskona í orðsins fylstu merkingu. Hún hafði reynt flestar þær þrautir, sem frumbýlingslífinu fylgja, og hún hafði að lokum sigrast á þeim öllum, þó hún hefði aldrei orð á því, í því skyni, að hrósa sér af því.”

Miklir mannkostir

,,Um æfi hennar á Íslandi veit eg ekkert. En mér hefir verið sagt, að hún hafi fengið gott uppeldi, þó hún væri aldrei til menta sett. Mér hefir verið sagt, að faðir hennar (Innskot Hjalti Hjaltason) hafi verið hinn mesti ágætismaður og góður bóndi, gáfaður og prýðisvel að sér, allra manna hjálpsamastur og góður þeim sem bágt áttu. Guðbjörg mintist jafnan föður síns með lofsamlegum orðum; og hún talaði líka sérlega vel um stjúpu sína (Innskot:Margrét Helgadóttir), og sagði að hún væri góð og gáfuð kona. Guðbjörg hefir því alist upp á sönnu fyrirmyndar-heimili, þar sem aldrei var um hönd haft annað en það, sem í alla staði var gott og nytsamlegt og heiðarlegt. Þar lærði hún ótal margt, sem kom henni að góðu gagni, síðar meir, þegar hún kom út í lífið. Enda var hún vel að sér, bæði til munns og handa. Og hún var af öllum, sem þektu hana, talin góð kona og greind. En hún var yfirlætislaus og sérlega fáorð og fáskiptin um annara hagi. Gestrisin var hún með afbrigðum, enda komu margir á heimili hennar, einkum á síðari árum, því að hús hennar mátti heita í þjóðbraut. Og mörgum fátækum gjörði hún gott, jafnvel á þeim árum, þegar hún sjálf var fátæk. En hún mátti aldrei aumt sjá. Og henni var það meðfætt, að vilja gleðja þá, sem bágt áttu, og rétta þeim hjálparhönd. Og um það kom öllum saman, sem nokkuð kyntust henni að hún væri sérlega trygglynd og vinföst, eins og faðir hennar kvað hafa verið. Og hún mun hafa verið trúhneigð alla æfi. – Og allir sem voru í nágrenni við hana, vissu það líka, að hún var sérlega góð og ástrík móðir, og að henni var mjög um það hugað, að ala vel upp börn sín. Þau vöndust snemma allri vinnu, eins og í sveit var títt, og voru öll háttprúð og útsláttarlaus; og öllum var vel til þeirra, sem kynni höfðu af þeim.”

Farsælt hjónaband-samheldnir landnemar

,,Heimili þeirra Jóns A. Magnússonar og Guðbjargar var í alla staði ánægjulegt. Og þau áttu mikið og gott bú í Marshland-bygð á þeim árum, sem eg þekti til þeirra. Og efnahagur þeirra mun ávalt hafa verið góður hin síðari búskaparár þeirra. Jón var á yngri árum hinn mesti atorkumaður, iðjusamur og ósérhlífinn, drengur góður, og vildi í engu vamm sitt vita. Á meðan hann var á Íslandi, stundaði hann lengi sjómensku, og var um eitt skeið formaður, og þótti leysa það starf mætavel af hendi. Eg man það, að Árni Jónsson frá Kaldrananesi sagði mér einu sinni frá því, að hann hefði róið eina vertíð á Gjögri hjá Jóni Atla Magnýssyni, og sagði að sér hefði fallið Jón vel í geð og þótt hann vera röskur og einbeittur formaður. En Árni var maður réttorður og skýr. – Hjónaband þeirra Jóns og Guðbjargar var ávalt gott og innilegt, og þau voru verulega samhent í því, að gjöra öðrum greiða og láta gott af sér leiða. Og öllum nágrönnum þeirra var vel til þeirra; og margir munu minnast þeirra með hlýjum hug og þakklæti. – Í Marshland-nýlendu var samankomið afbragðs fólk, og félagslífið þar og samkomulag manna á meðal var svo gott og einlægt, að betra getur ekki. Það var sannkallað góðgjörða-fólk, hreinskilið og drenglundað. Og það má óhikað segja, að þau Jón A. Magnússon og Guðbjörg hafi verið þar í fremstu röð, hvað það snertir,”

,,Óskólagengin alþýðukona”

,,Eg gat ekki annað en dáðst að því, hvað Guðbjörg Hjaltadóttir, óskólagengin alþýðukona, var vel heim í íslenzkum bókmentum og fróð um margt. Eg man það glögt, að einu sinni, þegar hún kom í hús mitt, snerist tal okkar aðallega um ýms rit, sem út höfðu verið gefin á íslenzku á síðastliðinni öld. Og komst eg þá að því, að hún hafði lesið “Fjölni” og “Ný Félagsrit” og ýmsar aðrar fræðibækur og merk skáldrit. Hvort hún hefir lesið þessi rit, meðan hún var í föðurgarði eða eftir að hún kom til Ameríku, get eg ekki sagt. En hitt er víst að hún þekti þessi rit, mundi margt úr þeim, og virtist skilja efni þeirra og stefnu. Þetta var í eina skiftið, sem eg heyrði hana minnast á bókmentir. Og að líkindum hefir hún sjaldan talað um þau málefni, því að hugsanir hennar hafa að sjálfsögðu orðð að snúast um fjarskyld efni í hinni sífeldu baráttu við örðugleikana í nýbygðinni á frumbýlingsárunum. – Eg hefi stundum hugsað um það með undrun og aðdáun, hversu vel upplýst, og jafnvel hámentað, það bændafólk var yfir höfuð, sem kom vestur um haf frá Íslandi hér fyr á árum. Og virðist mér það benda ótvíræðlega á það, að mörg heimili til sveita á Íslandi hafi verið – og séu ef til vill enn – í raun og veru æðri skólar, þar sem holl fræðsla var veitt og þegin, næstum óafvitandi, í ríkulegum mæli.”

Kyrrlátt ævikvöld

,,Æfikvöld Guðbjargar var kyrt og bjart. Hún hafði unnið sigur á hinum þungu þrautum nýbyggjaralífsins; hún sá börn sín vera komin upp, og hún vissi, að þeim var borgið; og hún hafði líka séð nokkur barna-börn sín. Og sjálf starfaði hún fram að síðasta augnabliki. En andlát hennar bar að mjög snögglega. Hún dó af heilablóðfalli (cerebral apoplexy) þann 8. maímánaðar 1930. Þann 13. maí var hún jarðsett í grafreit Marshland-bygðar, og var jarðsungin af séra Hirti J. Leó. Guðbjargar Hjaltadóttur verður ávalt minst af ættingjum hennar og vinum. Hún var mæt og merk kona og hreinhjörtuð, sem allir höfðu gott afað kynnast. Æfistarf hennar var mikið og göfugt, og hún gaf svo fagurt eftirdæmi, að mikið má af því læra”