Jón Jónsson Hörgdal

Vesturfarar

Jón Jónsson Hörgdal skrifaði um upphafsár sín í Vesturheimi. Hér verður gripið niður í stutta kafla. Hann fór til Nýja Íslands árið 1876 og sagði:

,, Um haustið 1876 fór eg frá Winnipeg til Nýja Íslands. með góðkunningja og sveitunga mínum frá fyrri tíð, Birni Skagfjörð. Lystiskútan okkar var einn þessi orðlagði flatdallur, og gekk furðu vel ofan Rauðá gegnum strengi og straum, en þegar kom ofan á vatnið, hvesti fram úr hófi; en Björn var afbragðs stýrimaður, og var okkur það nauðsyn, því nú undum við upp segl, sem var stórt íslenzkt brekán, og náðum landi heilir á húfi, nálægt þar sem Skapti sál. Arason tók sér bólfestu. Get eg enn dáðst að því, hve vel Birni fórst stjórnin á slíku fari. Ekki var að tala um kaupavinnu þar niðurfrá um það leyti, svo eg gaf mig í að hjálpa við heyskap. Frá heyskap til vetrarbyrjun lét stjórn Canada byrja að höggva braut í gegnum Nýja Ísland, alt frá Íslendingafljóti til Nettle Creek. Vorið eftir þennan vetur var enga vinnu að fá í Nýja Íslandi. Margir vildu leita sér atvinnu í Winnipeg, eða úti á járnbraut, sem verið var að leggja suður til Bandaríkjanna, en enginn gat komist yfir sóttvarnarvörð, sem settur var fyrir ofan nýlenduna, nema afklæðast þar og baðast í stjórnarinnar hreinsilaug, og kaupa þar nýjan fatnað og annað hvort brenna hinn skrúðann eða senda hann til baka til Nýja Íslands. Í gegnum þenna hreinsunareld gekk eg og fleiri  og fórum að vinna á þessari nýbyrjuðu járnbraut. Þá kom svo mögnuð rigningatíð, að við unnum varla fyrir fæði. Þá var hætt að vinna og fór sinn í hverja átt. Þess má geta, að í þessum hóp voru sex, sem hétu Jón Jónsson. Á borgunardögum fór á ringulreið með Jónana, svo við tókum okkur allir ný viðurnefni. Þá tók ég Hörgdals-nafnið og hefir það fylgt mér síðan..”.

Bólusótt  og atvinna:  Bólusóttin sem gaus upp við Íslendingafljót í byrjun vetrar árið 1876 var viðloðandi í nýlendunni fáeina mánuði en rénaði þegar leið að vori. Samt þrjóskaðist stjórn fylkisins við og lét vopnaðan vörð standa við svonefndan Boundry Creek eða Merkilæk fram á sumar. Enginn komst til nýlendunnar þennan tíma og þeir sem þaðan vildu burt urðu í bað og ný föt eins og Jón lýsir í sínum pósti. Nýlendubúar voru að vonum afar pirraðir og var kallaður fundur á Gimli til að ræða framvinduna. Þar espuðust menn upp og var ákveðið að ganga fylktu liði þaðan að Merkilæk til að hrekja sóttvarnarvörðinn á brott. Menn voru að tyga sig af stað þegar einn nýlendubúi kom að sunnan og greindi frá því að vörðurinn væri á bak og burt. Lýsing Jóns að ofan er merkileg fyrir fleira t.a.m. er ljóst að enga vinnu var að fá í nýlendunni sem sýnir að engin áform lágu fyrir um lagningu vega, byggingu brúa eða hreinsun lands! Grípum aftur niður í frásögn Jóns:(JÞ)

Skoskur prestur: ,,Snemma um veturinn 1877 mætti eg ungum prestssyni, að nafni James Black, sem heima átti í Kildonan, 5 mílur frá Winnipeg. Faðir hans, Rev. John Black, skozkur, er sagður fyrstur prestur, sem kom til Manitoba. Hjá James Black vistaðist eg svo yfir veturinn, og er það eitt hið mesta happ, sem fyrir mig hefir komið, því það er ekki hægt að hugsa sér betra heimili en þar var. John Black var tvígiftur, fyrri konan af Indíánakyni, og með henni átti átti hann 7 börn; en seinni kona hans var skozk, og hafði verið skólakennari í Skotlandi. Á hverju kvöldi veitti hún þessum stjúpbörnum sínum tilsögn í ensku heima, og eftir að eg hafði verið þar stuttan tíma, bauð hún mér að taka þátt í náminu. Tók eg því með þökkum:  svo þarna lærði eg góða undirstöðu í bókmálinu og framburði. Þegar eg fór þaðan í júní, eftir sáningu, fanst mér eg vera vel undirbúinn að taka því sem að höndum bæri.”

Meðan á dvölinni í Winnipeg stóð hitti Jón Jóhann Pétur Hallsson sem var að flytja til Norður Dakota og ákvað hann að slást með í för. Jóhann hafði farið skoðunarferð suður þangað áður og hitt fyrir þar Norðmanninn B. Olson sem sestur var að vestur af Pembina. Jón Hörgdal skrifaði:(JÞ)

Landnám í Dakota: ,,Olson og kona hans tóku okkur eins og bræðrum og systrum, og hjá þeim höfðum við aðsetur meðan við vorum að skoða land vestur að Pembinafjöllum og norður að Tunguá. Í þeirri rannsókn vorum við Gísli Egilsson, Gunnar J. Hallsson, Árni Þorláksson og mig minnir Magnús Stefánsson. Úti lágum við í hvammi við Tunguá, og höfðum nesti; svo voru rjúpur skotnar og steiktum við þær á leirhlóðum, svo sælgæti þótti, og vorum við kátir, því landið var yndislegt og veðrið svo blítt og broslegt, sem hugsast gat. Héldum við þaðan heim til Olsons glaðir í anda. Það virtist eins og öndvegissúlur okkar hefðu rekið upp við Tunguá, því fáum dögum seinna hittum við að máli tvo canadiska félaga, sem sezt höfðu þar að 5 mílur vestur af jörð Olsons, lifðu þar í tjaldi, höfðu uxapar og voru byrjaðir að brjóta. Þá greip annan þeirra geðþrá, svo hinn sá ekkert færi að ílengjast þar. Keypti svo J. P. Hallsson af þeim uxana, plóginn og ”Red River Cart” og eitthvað annað dót er þeir áttu, en eg lagði nokkuð til í kaupið, því þá var eg fébirgur. Svo hrófluðum við upp litlum og ljótum bjálkakofa, en eftir stuttan tíma var alt, sem tilheyrði þeirri fjölskyldu, þangað komið. Þar næst byrjaði heyskapur, því gott var engi. Gísli Egilsson smíðaðu hrífu á annan uxann úr eik, 8 feta breiða. Tvö handföng voru að aftan, til að halda henni niðri og lyfta svo upp, þá er hún var full. Þannig voru sumar uppfyndingar okkar svipaðar og hjá Robinson Crusoe.”

Jóni bauðst vinna á búgarði í Pembinabyggð fram á haust 1878 en þá kom móðir hans vestur og sótti Jón hana til Winnipeg. Þau bjuggu hjá Jóni Hallssyni um veturinn og notaði Jón tækifærið og vann með Gísla Egilssyni að byggingu húsa í Hallson um veturinn. Vorið 1879 reisti hann svo bú með móður sinni og bjó hún hjá honum þar til hún lést haustið 1886. Tengdaforeldrar Jóns fluttu til Dakota árið 1879 og námu þau land suðaustur af Hallson og tók Jón land nærri þeirra. Eftir lát móður sinnar settist Jón og fjölskylda hans að í húsi þeirra í Hallson og fluttu þá tengdaforeldrar hans þangað til þeirra.  Reyndist sú sambúð afar velheppnuð því fjölskylda Jóns stækkaði hratt á næstu árum, Kristrún ól honum 12 börn og af þeim lifðu 10. Um tengdaforeldra sína skrifaði Jón:(JÞ)

,,Umhyggjusamari móður hefi eg ekki þekt, né betri tengdamóður. Hið sama má eg segja um tengdaföður minn, að hann leit vel og dyggilega eftir utanhúss, og þurfti þess, því eg hafði við mörgu að snúast og var oft að heiman í opinberum störfum, og gat ekki komist hjá því að taka þátt í sjónleikum í okkar nágrenni. Sunnudagaskólastarfi sinti eg frá því að það var byrjað, þar til eg flutti úr bygðinni….Þetta litla ágrip af æfisögu minni er augsjánlega bundið við Dakota, því engu plássi ann eg jafnmikið síðan eg fór frá Fróni, og segi nú: 

Þá bræður mínir burt sinn veg
bera hold mitt lúna,
í Dakota óska eg
að það mætti fúna

Þar hef eg liðið súrt og sætt,
og séð mína beztu daga;
úr kjörum mínum og minna bætt
má því ekki klaga

Jafnvel þó mér finnist eg ekki eiga heima í þessu Norðvesturlandi, hef eg enga orsök til að kvarta, því betri aðbúð get eg ekki hugsað mér en eg hefi hér hjá fólki mínu; líka eru margir af mínum góðu, gömlu kunningjum frá Dakota búsettir hér, sem bjóða mig velkominn til sín hvenær sem er. Enda tek eg mér ferð á hendur árlega um bygðina, til þess að vera hjá sumum þeirra nokkra daga, og er það mikil hressing, bæði andlega og líkamlega. Að dagsverki loknu horfum við Kristrún ótrauð til friðsams og fagurs æfikvölds, biðjandi alla, sem þetta lesa, blessana.

                                                                                                                                Ritað að Elfros, Sask., í marz, 1927

                                                                                                                                                   Jón Hörgdal”

North West Territory hét svæðið frá vestari mörkum Manitoba vestur að Klettafjöllum. Íslendingar þýddu þetta Norðvesturland. Þess má geta að árið sem Jón flutti til Saskatchewan fékk hann slag sem lamaði hann nokkuð líkamlega.