Uppvöxtur – síðustu árin á Íslandi:„Jón Sigurðsson er fæddur á Torfastöðum í Jökulsárhlíð í Norður-Múlasýslu 20. apríl 1853. Faðir hans var Sigurður Jónsson bóndi á Torfastöðum. En móðir hans var Þorbjörg Jónsdóttir bónda í Hlíðarhúsum í Jökulsárhlíð Bjarnasonar bónda á Ekru í Hjaltastaðahrepp; föðurætt Jóns er nefnd Rafnsætt. Sigurður faðir Jóns drukknaði í Jökulsá á Brú ; var hann á ferð í myrkri á skautum og lenti í vík. Var Jón þá á öðru ári. Eftir fráfall manns síns fór Þorbjörg heim til föður síns og Jóns bróður síns (föður þess, er þetta skrifar) og dvaldi þar nokkur ár, þar til hún giftist aftur Jóni Sigurdssyni frá Fögruhlíð, fóstur-og systursyni Þorsteins Jónssonar, er þar bjó lengi. Þau Jón og Þorbjörg bjuggu nálægt tíu árum í Fögruhlíð, eftir að Þorsteinn vék þaðan með sonum sínum að Surtarstöðum í Jökulsárhlíð. Ólst Jón þar upp með stjúpa sínum og móður, og var hann lítt til mennta settur, sem títt var á þeim árum, þó hann hefði bæði löngun og hæfileika til náms. Árið 1867 futtu þau hjón að Hrafnabjörgum í sömu sveit. En sama vorið drukknaði stjúpi Jóns voveiflega í Jökulsá. Brá þá Þorbjörg búi og flutti að Sörlastöðum til Jóns bónda Þorsteinssonar frá Fögruhlíð, sonar Þorsteins þess, er áður var getið og dvaldi hjá honum þar til Jón andaðist 4. júlí 1873. Jón Þorsteinsson tók ástfóstri miklu við piltinn, enda mun Jón Sigurðsson hafa unnað honum öllum mönnum framar. Eftir lát hans tók Jón Sigurðsson að sér búsforráð með ekkju hans, Björgu Runólfsdóttur, bónda frá Þorvaldsstöðum Guðmundssonar, bónda á Hallfreðarstöðum. Árið 1876 14. júlí gekk Jón að eiga Björgu ; höfðu þau það sama vor flutt frá Surtarstöðum að Ketilstöðum í Jökulsárhlíð. Þar bjuggu þau 7 ár. Fluttu þaðan að Hrafnabjörgum í sömu sveit vorið 1885, en eftir tvö ár flttu þau aftur að Bakkagerði, sem er ábýli frá Ketilsstöðum, og bjuggu þar í 2 ár. Jón hafði talsvert stórt bú, og var ótrauður til gripakaupa, því peningavelta var talsverð þá á árum, því enskir kaupmenn keyptu fé á hausti og borguðu allvel. Jón lagði mikið fé í byggingar og hafði gestanauð ákaflega mikla, því Ketilsstaðir eru í þjóðbraut, en hann var gestrisinn og veitti vel; varð honum því búskapurinn kostnaðarsamur. Árið 1882 var harðæri mikið á Austurlandi og heyafli svo lítill, að bændur urðu að lóga fé sínu fyri mjög lítið verð, því sauðfé féll mjög í verði, og féð varð rýrt undan sumrinu. Hnignaði þá hag margra, svo að þess beið ei bætur um mörg ár.
Vesturheimur: ,,Um það leyti er Jón fór frá Ketilsstödum, þegar sem harðast komu niður afleiðingar harðærisins, fór hugur hans að hneigjast að því að flytja vestur um haf, enda skorti þá eigi glæsilegar sögur af auðsafni og gullnum framtíðarvonum Íslendinga hér vestra. En samt liðu svo 4 ár, að Jón fór ekki, og mun á þeim árum hafa háð þá hina þögulu baráttu, sem mörg góð Íslandsbörn, er vestur hafa flutt, hafa orðið ad heyja. Annars vegar var ástin á æskustöðvunum og löngunin að vinna sem gott barn að heill og framförum föðurlandsins. En hins vegar óttinn við það að geta aldrei orðið vel sjálfstæður, svo sjálfum þeim og öðrum mætti til heilla verða, og með því að fara ekki vestur væri slept tækifæri til að skapa sér og niðjum sínum glæsilega framtíð. Á þessum árum mun margur maður og mörg kona haf háð þessa baráttu, og tilfinningarnar sigrað á víxl. Jón var mjög lattur þess að flytja vestur, því að hann naut trausts og hylli sveitunga sinna og annara er kyntust honum, og átti sæti í sveitarstjórn frá því hann hafði lögaldur til og þar til hann vék af landi brott. En samt fór það svo, að árið 1887 fastréð Jón að flytja vestur um haf. Lagði hann af stað frá Vopnafirði með gufuskipinu Camoens síðustu dagana af júní, ásamt konu sinni, er áður er nefnd, og 2 sonum þeirra, Jóni á 7. ári og Halldóri á 4. ári. Í för með honum var einnig Sigurður bróðir hans, er var fóstursonur Halldórs bónda Magnússonar á Sandbrekku og Guðrúnar föðursystur Jóns Sigurðssonar. Þau voru 18 daga á leiðinni frá Vopnafirði til Winnipeg; gekk þeim ferðin slysalaust. En ekki hælir Jón neitt aðbúðinni á skipinu né umhyggju þeirra, er umsjón áttu að hafa með farþegum. Jón var aðeins eina nótt í Winnipeg hjá Eyjólfi Eyjólfssyni, er oft er nefndur í þætti Winnipeg-Íslendinga. Þeir eru systrasynir Jón og Eyjólfur. Jón hafði ætlað að flytja til Nýja Íslands og setjast þar að; en fyrir sömu orsakir og taldar eru áður í frásögn þeirra Jóns Sigfússonar og Halldórs Halldórssonar, snéri Jón Sigurðsson að því ráði að leita út með járnbrautinni í áttina til Manitobavatns. Lögðu þeir af stað bræðurnir, og Jón Metúsalemsson frá Fossvöllum og synir hans 3, Björn, Sigurður og Jón. Hinrik Jónsson (Ísfirðingur), er áður er nefndur, var leiðsögumaður þeirra. Þeir námu staðar og réðu af að taka sér bólfestu í bráð skamt frá þar er nú eru verzlunarhúsin á Lundar. Tóku þeir þegar til starfa að ryðja hússtæði og fella bjálka til húsagerðar. Eftir fáa daga snéri Jón Sigurðsson aftur til Winnipeg og Björn, sonur Jóns Methúsalemssonar; ætluðu þeir að sækja fjölskyldurnar. En Jón Methúsalemsson varð eftir og synir hans 2 og Sigurður bróðir Jóns Sigurðssonar. Ætlaði Jón Methúsalemsson að reisa hús með aðstoð, því hann var smiður góður og vanur húsagerð.
Upphaf landnáms í Lundarbyggð:
Ekki var koman til Winnipeg glæsileg fyrir Jón Sigurðsson. Sonur hans Halldór, er hann hafði skilið við glaðan og heilbrigðan, hafði veikst rétt eftir að hann fór. Var það hin svo nefnda ,,sumarveiki”, og leiddi hún drenginn bráðlega til bana, og var búið að jarða hann þegar Jón kom. Börn Jóns Methúsalemssonar, þau er eftir voru í bænum, voru öll meira eða minna veik eftir bólusetningu. Samt lögðu þeir Jón og Björn af stað, og gekk ferðin erfiðlega. Ekki voru önnur flutningsfæri en 2 ekiuxar, er þeir nafnar höfðu keypt, sinn hvor, og gamall vagn. Þeir fóru að eins með hið allra nauðsynlegasta af farangri sínum. Hitar voru ákaflega miklir, og flugan lét þá aldrei í friði. Þeir voru ókunnir leiðinni og gekk illa að halda beinni stefnu, þá er brautarsvæðið þraut. Bygðin var strjál, og stundum nær engin á löngu svæði. Enginn, sem í förinni var, skildi enska tungu, svo að erfitt var að þá leiðsögn. Börnin, sem öll voru meira og minna veik, þoldu mjög illa ferðalagið, og síðasta daginn er þeir voru á ferð, dó eitt barn Jóns Methúsalemssonar ; hafði það veikst á leiðinni yfir Atlanshaf og orðið eftir á spítala í Quebec, eins og áður er frá sagt um barn Halldórs Halldórssonar. Hafði vinkona þeirra hjóna tekið að sér að vera með barnið og kom til Winnipeg með það 9 dögum seinna en þau. Var það þá mikið farið að frískast. En þoldi ekki ferðina nú. Eftir hálfsmánaðar burtuveru náðu þeir Jón og Björn út þangað, er þeir höfðu kosið sér bólfestu. Hafði Jón Methúsalemsson þá lokið húsgerðinni. Var það bjálkakofi með torfþaki, 12 fet á lengd og 10 á breidd. Var hann hafður til að matbúa í honum og geyma matvæli, og hjónin hvortveggju sváfu þar með yngstu börnin. En hinir sváfu í tjaldi. Þeir nafnar tóku nú að afla sér heyja, og höfðu ei áhöld önnur en orf og ljá og hrífu eins og á Íslandi. Auk ekiuxanna voru ei gripirnir aðrir en 1 kýr, er Jón Sigurôsson átti og Eyjólfur Eyjólfsson frændi hans hafði gefið honum. Þá er heyskapnum var lokið, gaus upp sléttueldur ; átti hann upptök sín á landi Einars Kristjánssonar, föður Helga kaupmanns að Narrows, er þá bjó á næsta landi við þá, þar er Jóhann Halldórsson bygði síðar verzlunarhúsin og Snæbjörn Einarsson hefur nú verzlun. Börðust þeir við að verja hey sín og hús frá því kl.1 um daginn og þar tilkomið var að miðnætti. Tókst þeim síðar að slökkva eldinn, en brunnin voru þá víða klæði þeirra og hár og skegg sviðið. En eigninni litlu, en dýrmætu var borgið. Um haustið bygði Jón Methúsalemsson stœrra hús litlu austar á sama landi, á þeim stað sem Jósef Líndal bygði síðar og nam land. Það var bjálkahús, 16 fet að lengd og 14 fet á breidd [réttara 16′ x 14’]. Bjó Jón Sigurðsson þar hjá nafna sínum næsta vetur. En ekki var húsgerðinni lokið fyr en rétt fyrir jólin, og urðu þeir að búa í öðrum enda fjóssins, er þeir bygðu yfir gripina. Í húsinu bjuggu yfir veturinn 16 manns, því auk Jóns Sigurðssonar veitti Jón Methúsalemsson húsaskjól Jóni Þorsteinssyni frá Kirkjubóli í Norðfirði, og bræðrum tveim, Gunnari og Jóhanni úr Loðmundarfirði ásamt móður þeirra og unglingspilti. Fór sambúðin vel, og hafa þeir nafnarnir, Jón Sigurðsson og Jón Methúsalemsson, alt af haldið trygð hvor við annan, eftir samferðina og sambúðina, þótt leiðirnar skildu og hinn síðarnefndi flytti vestur að Narrows…
Landnám – lífshlaup:
Um vorið eftir flutti Jón Sigurðsson 3 mílur vestur og bygði sér þar hús og nam land. Nefndi hann bústað sinn í Lundi, og helzt það nafn við enn. Ekki byrjaði vel búskapurinn þar, því fyrsta veturinn brann íbúðarhús Jóns til kaldra kola, með öllu því, er hann átti í dauðum munum, svo kalla mátti þau hjónin stæðu fatalaus eftir. Hafði kviknað í húsþakinu út frá ofnpípu, og brann svo skjótt, að engu varð bjargað. Meðal þess, er brann, var allmikið safn af íslenzkum bókum, er Jón hafði flutt með sér að heiman, og mun honum hafa þótt sá skaðinn ekki ósárastur, því hann ann öllu því góða í íslenzku þjóðlífi. – Gott fólk mun Jóni hafa orðið til hjálpar efir bruna þenna. En honum er illa við að vera hjálparþurfi, og mun því ekki hafa notið hjálpsemi annara nema það minsta. Mun frændi hans, Eyjólfur Eyjólfsson í Winnipeg, sem áður er nefndur, hafa verið einna drjúgastur hjálparmaður hans þá. Jón bjó í Lundi þar til haustið 1899, að hann keypti land af frönskum kynblendingi, nokkrum mílum nær Manitobavatni. Reisti hann þar bjálkahús allstórt með timburþaki spónlögðu og hefir búið þar síðan. Nefndi hann bæ sinn Geysi, og var sú orsök þess, að þá er hann gróf þar brunn, opnaðist vatnæð svo snögt, að þeir, er að verkinu voru, þóttust eiga fótum fjör að launa. Fanst Jóni brunnurinn eiga ættarmót við Geysi hinn íslenzka. Heimilisréttarland sitt í Lundi seldi Jón frænda sínum, Stefáni Ólafssyni frá Norður-Skálanesi í Vopnafirði, er þar býr nú. Jón hefir haft talsvert stórt bú, stundum alt að 100 nautgripi. En er nú að (1910) fækka gripum, þykir gripa-eignin borga sig illa. Nú býr hann í félagi við einkason sinn Jón, sem giftur er Ingibjörgu Eiríksdóttur Hallssonar, Másseli í Jökulsárhlíð. Eign Jóns Sigurðssonar, þegar hann kom frá Íslandi til Winnipeg, voru 35 doll. og fyrir 32 doll. af þeirri upphæð keypti hann ekiuxa, er áður er frá sagt. Má því heita, að hann byrjaði búskap allslaus. Nú eiga þeir feðgar 5 lönd, talsvert af nautum og hestum og nokkrar kindur og svín. Heybindingsvél eiga þeir feðgar líka, auk venjulegra heyskaparáhalda. Lönd þessi 4 keypti Jón meðan lönd voru í lágu verði og flestir aðrir töldu óráð að festa eign sína í löndum; að eins eitt land keypti hann á 3.5 doll. ekruna. (Saskatchewan landfélagi seldi). En hin keypti hann fyrir 180-200-240 doll. hvert. Mundi hann nú eigi vilja láta þau af hendi fyrir fjórfalt verð, og ýmsir munu þeir nú, er gjarnan mundu óska að hafa keypt lönd þessi, er töldu landkaup hans af skammsýni gjör, þegar hann keypti. — Jón hefir verið manna hjálpsamastur, og þá lítt sézt fyrir um eigin hag; hefir hann oft með ráði oq dáð hjálpað nýkomnum innflytjenlum og lagt fram stórfé til að hjálpa ættingjum sínum allslausum vestur um haf og greiða götu þeirra hér. Sá, er þetta ritar, telur sér of skylt mál að ræða um þessa hlið á lífsstarfi Jóns, því auk þess, er hann hefir notið hjálpar Jóns, mundi æskuvinátta og skyldleikur (systkinasynir) vera talið nóg efni til að ætla söguritaranum hlutdrægni. Jón hefir í flestum framfaramálum bygðar sinnar staðið framarlega í flokki og verið formaður ýmsra félaga þar…… Hann er greindur vel og hreinlyndastur, og fylgir af öllum hug málum þeim, er hann beitist fyrir, en á erfitt með að sætta sig við hálfvelgju, og enn ver með óhreinlyndi. Kona Jóns, er áður var nefnd, andaðist haustið 1902. Hún var góð kona og gáfuð, og unni Jón henni af öllum hug. Sonarbörn hans berda nöfn þeirra hjónanna, Jón og Björg.”
Við látum Heimi Þorgrímsson eiga síðustu orðin um Jón (SÍV4:bls. 252),,Jón á Geysi var einn af þeim mönnum, sem allir tala vel um, og bjargvættur reyndist hann ótal mörgum, sem til byggðarinnar komu allslausir á frumbýlingsárunum, eins og frændi hans frá Sleðbrjót segir réttilega. Jón dó í hárri elli 4. marz 1933. Jón og Björg eignuðust einn son, og var hann látinn heita í höfuðið á föður sínum. Jón yngri hefur aldrei skilið við arfleifð sína, og hefur búið sízt gengið saman undir forsjá hans. Kona Jóns er Ingibjörg Hallson, dóttir Eiríks Jónssonar Hallson frá Másseli í Jökulsárhlíð og konu hans Jórunnar Þorsteinsdóttur frá Engilæk í Norður-Múlalasýslu. Geysir er enn í dag eitt af höfuðbólum byggðarinnar og þau hjónin, Jón og Ingibjörg, vel þekkt að rausn og gestrisni. Ingibjörg hefur gefið sig meira að félagsmálum en maður hennar, sem hefur þó engu að síður styrkt þau. Bæði hafa þau tekið virkan þátt í starfi Sambandssafnaðarins á Lundar.”