Jónas Hall

Vesturfarar

Jónas Hallgrímsson eða Jónas Hall, eins og hann var betur þekktur í íslensku byggðunum í N. Dakota, var sérstakur maður. Hann var sonur Hallgríms Ólafssonar og Sigríðar Jónasdóttur í S. Þingeyjarsýslu. Algerlega ómenntaður flutti hann til Vesturheims og varð einn merkilegasti landnámsmaður, íslenskur í N. Dakota. Ágæt samantekt um hann er í Vestur-Íslenzkar Æviskrár IV og hljóðar svo: ,, Jónas fluttist með foreldrum sínum vorið 1859 að Fremstafelli í Kinn, og átti heima hjá þeim unz hann fluttist vestur um haf haustið 1874. Lagt var af stað frá Akureyri 10. sept. það ár með Allan-línu skipinu St. Patrick, sem flutti útflytjendahópinn, er í voru hátt á fjórða hundrað manns, beina leið til Quebec. Staðnæmdist hópurinn í Ontario, en fluttist þaðan að mestu á næstu árum til Nova Scotia og Manitoba. Eftir að Jónas kom til Toronto, Ont., skildi hann við samferðafólkið og leitaði atvinnu hvar sem hún bauðst, en helzt í nánd við Millbrook, Ont., þangað til hann, ásamt fleiri löndum, fluttist til Manitoba vorið 1877. Var ætlun hans að fara til Nýja Íslands, en þá var enn ferðabann þangað vegna bóluveikinnar, sem hafði geisað undanfarandi vetur og byggðin lömuð af mannfalli því, sem orðið hafði í pestinni. Nam hann því staðar í Winnipeg með fjölskyldu sína þangað til um haustið, að hann fluttist til Gimli, Man., og dvaldist þar árlangt og bjó eftir það tveumur mílum fyrir sunnan Gimli. Fluttist 1880 til Norður Dakota, sem þá hét ,,Territory of Dakota” og komst ekki í tölu Bandaríkjanna fyrr en 9 árum síðar. Settist hann að þrjár mílur suður af Garðar, N. Dakota, og bjó þar rúma hálfa öld (51 ár). Byggði sér fyrst bjálkahús og vann við járnbrautarlagningu en hóf hveitibúskap og grænmetisrækt 1883. Næsti markaður var þá í Grafton, N.D., 35 mílur í burtu, en seinna í St.Thomas, sem var þriðjungi nær. Árið 1907 byggði hann sér stórt og vandað hús af steinsteypu. Enda þótt Jónas hefði aldrei stigið inn fyrir dyr í skóla, og kynni ekkert í ensku er hann kom vestur, lærði hann tunguna svo fljótt að undrum sætti, auk þess sem hann bjargaði sér vel í Norðurlandamálum. Hann eignaðist smám saman gott bókasafn og aflaði sér margvíslegrar þekkingar öllum stundum, t.d. var talið að hann væri svo vel að sér í lögum, að hann mundi hafa getað tekið háskólapróf í þeirri grein hvenær sem var. Hann var gerður að friðdómara (Justice of Peace) 1883 og gengdi því embætti um 48 ára skeið. Einnig var hann í bæjarstjórn að Garðar og naut almenns trausts og virðingar. Hann var mikill vinur Stephans G. Stephanssonar og Kristjáns Júlíusar, einn af stofnendum lútherska kirkjufélagsins 1885 og Menningarfélagsins, enda var hann frjálshyggjumaður og fékkst við mörg viðfangsefni og var vel að sér í mörgum efnum, t.d. söngfræði, og skrifaðist á við ýmsa fræðimenn víðs vegar um álfuna.”