Kristján Jónsson

Vesturfarar

Árið 1924 birti Almanak Ólafs S. Þorgeirssonar grein um Kristján Jónsson úr Sveinatungu í Norðurárdal í Mýrasýslu. Þar segir m.a.

Séð heim að Sveinatungu í Norðurárdal.

,,Saga Kristjáns á Íslandi er svipuð sögu annarra íslenzkra dalamanna í hans tíð. Skólanám þektu þeir ekki, en fyrir lífið urðu þeir hverjum háskólamanni mentaðri, eða betur “mentir”, andlega og líkamlega, af því að finna sjálfir úrlausn á fyrirliggjandi dæmum og verkefnum, og af stöðugum aflraunum. Um tvítugt þótti þó Kristján skara fram úr jafnöldrum að harðfengi og snarræði. Naut og tækifæranna þar í Sveinatungu, sem sjálfkjörinn fylgdarmaður ferðamanna yfir hina illviðrasömu Holtavörðuheiði. Það var og eitt sinn, í þorralokin, á leið til sjóar -í ver – að hann óð Hvítá í Borgarfirði, fyrir þá sök að hún þótti óreið og óferjandi af kraparuðningi og roki. Ekkert féll honum ver á þeim árum en bið og kyrð. Vorið 1885 mun hann hafa fest sér jörð til ábúðar framarlega í Norðurárdal, en útþráin gerði honum ómögulegt að una því lífi, því snemma næsta vor sagði hann jörðinni lausri, sótti heitmey sína fram að fornahvammi og hélt ásamt henni vestur um haf, 1886. Námu þau staðar í Winnipeg, giptust þar, og þar eða í Norður-Dakota dvöldu þau til vorsins 1888. Þá fluttu þau til Duluth.”

Forest Hill kirkjugarður

Hér er lituð mynd af Duluth tekin af hæðinni fyrir ofan bæinn og sýnir vel útsýnið yfir Miklavatn (Lake Superior)

,,Í októbermánuði það ár, settust þau að í hinum fagra Hunterspark-dal, sem veit til norðausturs frá vesturenda Efra-eða Meira vatns (Lake Superior), þar sem þau hafa búið jafnan síðan. Tók hann þá þegar að starfa við “Forest Hill” grafreitinn – sama starf sem hann stjórnar nú og annast að öllu leyti sem forseti “Forest Hill” félagsins. Í sex ár vann Kristján, einasti verkamaður, við reitinn. Verkstjórinn var Skoti, fjársýslumaður allmikill væri honum fengið starf og veltufé ókeypis. En sá var hængur á, að fáir girntust að jarða vini sína – sízt við háu verði – í keldur eða kjörr, enda var fjárhagur félagsins sá, að verkamaðurinn varð ósjaldan að bíða tímum saman eftir kaupi sínu, svo látt sem það var. Að svo stöddu hvarf Skotinn heim, en Kristjáni var fengin verkstjórnin á hendur. Í fyrstunni fékk hann litlu áorkað, og lá þá hvað eftir annað við borð að hann gæfist upp á því dundi, því hann keypti sér land vestur í nýbygðum Alberta. En þegar eigendur reitsins komust að því, bættu þeir kjör hans að nokkru og létu að umbótakröfum hans með auknu sjálfræði honum til handa. Kristján er gæddur skarpri mannþekkingu og kann að nýta þann hæfileika. Starfsvið hans var aðallega verzlun, en starfsvið grafreitur. Þá hugkvæmdist honum að “láta hina dauðu grafa sína dauðu”, en með fegurðarnæmi og atorku bjóst hann að gera reitinn aðlaðandi; og þetta hefir honum tekist, svo að grafreitur hans mun nú vera talinn fegurstur þesskonar reita ú vesturhluta Bandaríkjanna. Er nú saga hans sem starfsýslumanns, bezt sögð með því að lýsa reitnum hans. 

“Verkið lofar meistarann”

“Telur reiturinn nú 170 ekrur lands, unnið og skreytt blómskrúði horna á milli, innan fagurlimaðra trjáganga. Þar sem fyrr meir var harðsótt að selja fjölskyldureiti fyrir 100-150 dali, seljast þeir nú á 2-3000 og jafnvel upp í 10,ooo dali, þegar kaupandi er nógu auðugur til þess að láta ástar og virðingar tilhlýðilega getið. Félagið sem áður barðist í bökkum fjármunalega með einn eða tvo verkamenn í þjónustu sinni, á nú í sjóði fúlgu, sem skiftir hundruðum þúsunda, geldur í verkalaun mörg hundruð jafnvel þúsundir dala á mánuði; á vönduð líkhús, dýrar vinnuvélar af nýjusti gerð, vinnuhross (sameyki), og dýra bíla, annan handa yfirmanni (Ch.J.), hinn fyrir verkstjóra (C.H.). Þegar Kristján tók við verkstjórn bygði félagið honum laglegt viðarhús, nú býr hann í steinhöll. Frá fyrstu hafði hann á hendi verkstjórn og sölu á reitnum, en nú orðið hvíla á honum öll fjármál og starfs-rekstur félagsins. Er tengdasonur hans, Mr. Hansen, bókhaldari hans og grafreitsvörður (Superintendant). Víðfrægari Íslendingar eru til en Chris Johnson, enda grafreitavörzla ekki í hávegum höfð. En séu sömu laun fyrir jafna margfaldara, þá skiftir litlu hvort pundin eru 2 eða 5. Þó hefir hann (Ch.J.) hlotið opinbert viðurkenning fyrir tilraunir, sem hann hafði gert við ræktun suðrænna trjátegunda á reitnum, og hepnast ákjósanlega. Og vafalaust er hann fremri öllum öðrum Ísl. hér í álfu í skóg- og blómarækt, enda lært af eigin tilraunum, en ekki í skóla”.

Íslenskt samfélag

“Ekki getur gestrisnara heimilis en þeirra hjóna Kristjáns og Guðrúnar. Er hann höfðinglyndur og gleðimaður hinn mesti, en hún hin djúphygna, vinfasta húsfreyja. Um og eftir aldamót bjuggu allmargir Íslendingar í Duluth. Þó þeirra gætti lítið sem heildar í svo stórri borg, sem Duluth er, komu þeir þó oft saman til skrafs og ráðagerða og venjulega í “Parkinu” hjá Kristjáni og Guðrúnu. Voru samkomur þessar ram-íslenzkar, enda skipaðar íslenzku mannvali. Í þessu tilliti er allmikil breyting á orðin í Duluth. Flestir öldruðu snillingarnir dánir eða fluttir burt. Sama er að segja um unglingana sem þá voru þar. Nokkrir að vísu dánir, en aðrir dreifðir víðsvegar um land, og skipa þar – undir íslenzkum nöfnum og íslenzkri manndáð-vandasamar metnaðarstöður hjá þjóðfélaginu ágæta, sem enga útlendinga telur, en metur móðurþjóðina eftir framkomu barna hennar. Sitja þau Kristján og Guðrún svo að segja ein eftir og að vísu í “helgum steini”. Samkomur Íslendinga hættar, en aðalstarfið, grafreiturinn krefst nú orðið fremur viðhalds, en nýrra framkvæmda. Enn er þó Kristján of ungur fyrir klausturkyrð, hefir því kastað sér í hérlend félagsmál. Starfar hann þar vetlingalaust að vanda, enda nýtur hann almennings hylli sem atkvæðamaður í hvívetna og drengur hinn bezti. “Orðsitt deyr aldregi”. Þökk sé íslenzkum útvörðum!”

 

Hér hvíla Kristján og Guðrún, börn þeirra og barnabörn í fjölskyldureitnum í Fores Hill Mynd JÞ