Metúsalem Sigbjörnsson

Vesturfarar

Sigurður Metúsalem Sigurbjarnarson lést í Minneota í Minnesota 17. október, 1919. Bróðir hans, Kristján setti saman grein sem birt var í Almanaki Ólafs Þorgeirssonar sama ár. Hún fer hér orðrétt á eftir:

S.M.S. Askdal 

,,Hún þynnist nú óðum, frumbyggja-sveitin íslenzka hér á Minnesota- sléttunum. Við, sem eftir lifum, og höfum lifað og starfað með þeim og borið hlýhug til þeirra, munum og minnumst þeirra á meðan við lifum; en þegar vér erum frá, gleymast þeir; og séu nöfn þeirra hvergi skráð, eru þeir sögunni og komandi kynslóðum tapaðir. Með sanni má segja um stóran meiri hluta okkar, að engu sé glatað, þó nöfn okkar finnist ekki í annálum sögunnar. Aftur eru aðrir, er að einhverju leyti hafa komið svo við sögu samtíðar sinnar, að þeir geta ekki að öllu glatast, og sem fræðimönnum þykir fengur í að hafa upplýsingar um frá samtíð þeirra. Einn úr þessum flokki tel eg S.M.S. Axdal, er lézt hér í Minneota, Minnesota, 17. október s.l.”

Ættir og uppruni

,,Fullu nafni hét hann Sigurður Metúsalem Sigurbjarnarson Asdal. Var fæddur á Þorbrandsstöðum í Vopnafirði 7. nóvember, 1861. Foreldrar hans voru Sigurbjörn Kristjánsson og Oddný Sigurðardóttir. Vorum við fjögur, börn Sigurbjarnar og Oddnýjar og var Sigurður okkar elztur og okkur fremstur um flest. Eru nú öll dáin nema sá, er þetta ritar. Sigurbjörn faðir okkar er enn á lífi og 3 dætur hans af síðara hjónabandi. Ekki kann eg að rekja ætt vora, en Kristján föðurfaðir okkar var sonur Guðmundar Guðmundssonar frá Laugalandi í Eyjafirði og Júdítar skáldkonu Sigurðardóttir frá Ljósavatni. VarJúdít afkomandi séra Stefáns skálds Ólafssonar í Vallanesi. Hefir Skáldgáfan verið rík í afkomendum séra Stefáns, en gengur nú óðum til þurðar. Aigurður var hagyrðingur góður og smekkmaður á alla ljóðagjörð. Móðir Sigurbjarnar var Björg Þorláksdóttir. Er mér sagt að Þorlákur faðir hennar væri bróðir séra Einars í Saurbæ, Thorlaciusar. Sigurður á Refstað í Vopnafirði, móður-faðir okkar, var sonur Jóns Péturssonar á Refstað.Aesselja, móðir Sigurðar, var dóttir Guðmundar Jónssonar í Klausturseli í Jökuldal. Elín, kona Sigurðar á Refstað, var dóttir Jóns Hallssonar í Akkerisgerði á Völlum og konu hans Þóru, dóttur Ingimundar prests á Eiðum Ásmundssonar(?). Var Þóra með afbrigðum hög á alla kvennavinnu, og jafnvel tré og járnsmíði. Hafa og ýmsir afkomendur hennar haft haga hönd. Var Sigurður einn þeirra. Móður sína misti Sigurður 7 ára gamall. Er mér sagt, að hún væri góð og gáfuð kona, umhyggjusöm og ástrík móðir. Er hverju barni á þeim aldri móðurmissir óbætanlegt tjón. Einmitt þegar svo má kalla, að vit sé að vakna og það þarfnast leiðbeiningar, samúðar og samhygðar, er að eins góð móðir getur veitt. Eftir lát móður sinnar var Sigurður hjá Vandalausu fólki, er sýndi honum kulda og ónærgirni. Voru það viðbrigði mikil og vond fyrir hann, og bar hann þess merki alla æfi. Laust eftir fermingu fór hann til séra Þorvaldar Ásgeirssonar í Hofteigi. Var séra Þorvaldur einn af merkisprestum sinnar tíðar og drengur góður. Hafði hann góð áhrif á Sigurð, og mintist hann ætíð séra Þorvaldar með innileik og aðdáun.”

Vesturför 

,,Til þessa lands kom Sigurður 1882 og dvaldist hér og í þessu nágrenni ætíð síðan. 14. október, 1892 kvongaðist hann Guðfinnu Gunnlaugsdóttur. Voru foreldrar hennar Gunnlaugur Magnússon, norðlingur að ætt, og kona hans Guðfinna Vilhjálmsdóttir á Hjartarstöðum í Eiðaþinghá Árnasonar. Móðir Guðfinnu Vilhjálmsdóttur var Guðný Gunnarsdóttir, föðursystir séra Sigurðar á Hallormsstað, Gunnarssonar. Börn áttu þau Sigurður og Guðfinna fjögur, og eru þau: Sigurður, nú í her Bandaríkjanna (kvongaður hérlendri konu); Haraldur, Lilja og Jónas, heima hjá móður sinni. Öll eru börn þeirra gáfuð og hin mannvænlegustu. Að eðlisfari var Sigurður glaðlyndur og opinskár, en fyrir kulda og samúðarleysi, er hann mætti í æsku, varð hann dulur og ógjarn að láta uppi tilfinningar sínar. Var því ervitt að kynnast honum og enn erviðara að skilja hann rétt. Hann var kurteis og léttur í samræðu og góður heim að sækja. Átti hann því marga málvini og kunningja, en engan trúnaðarvin, nema konu sína. Hjá henni fann hann samúðina, er hann þarfnaðist svi sáran, en var neitað um í æsku. Henni einni gat hann því trúað fyrir tilfinningum sínum, – hún mundi aldrei níðast á þeim. Og hún brást heldur aldrei því trausti. Læt eg svo fylgja hér á eftir þýðingu á snildar-lýsingu á Sigurði, eftir G.B. Björnsson (ritstjóra í Minneota). En Björnsson þekti Sigurð öllum mönnum betur – þeirra, er vandalausir voru. Er sú þýðing gjörð af einum af góðvinum mínum.”

Umsögn Gunnars B Björnssonar

Hann var manna ákveðnastur í skoðunum og áhrifamaður í öllum málum, sem hann gaf sig við. Þeir voru fáir, sem þektu Axdal ofan í kjölinn. Hann var að eðlisfari fremur ómannblendinn; hugsaði mikið; lagði stund á sögu og bókmentir; einkum voru það þó sögur og skáldrit ættjarðarinnar, sem hann las; hann undi sér vel við forn-norræn fræði og var mæta-vel að sér, af sjálf-mentuðum manni, í tungu og bókmentum Íslands. Allar nautnir hans voru andlegar, að því virtist. Ekkert kom honum betur, en að lenda í stælum; gæti hann beitt kröftum andans við orðahnippingar á mannfundum, þá var honum skemt. Hann hafði yndi af kappræðum og var ætíð fús til hólmgöngu, þegar á milli bar í skoðunum. Hann var skarpskygn maður og ekki auð-sigræður í rökræðum. Hugsjónirnar, sem mótuðu lunderni hans, lindirnar, sem hann sótti andríkið í, heyrðu allar til gullaldar-sögu landsins – landsins, sem hann unni svo heitt. – Hetju-dýrkun er eitt af einkennum æskunnar; og þarna í fornbókmentunum gat hann á unga aldri svalað þeirri þörf hjarta síns; við þá hörgana gat hann borið fram ættjarðarást og þjóðrækni hjarta síns eins og í tilbeiðslu. Þar stóðu hetjur Norðurlanda afhjúpaðar fyrir hugskotssjónum hans í öllu sínu harðfengi og kaldri ró, og lét hvorki blítt né Strítt á sig fá. Það voru átrúnaðargoð hans í æskunni og hugsjónir hans á fullorðinsárunum. En þótt Axdal ætti talsvert af norrænum ís og ómannblendni í skapi sínu, þá var þar líka Keltneskan eld ap finna. Sór sig í báðar þær ættir einsog íslenzka þjóðin yfir höfuð. Hann hafði megnustu óbeit á allri skynhelgi og það er varla ofsögum sagt, að honum hafi stundum orðið helzt til óvæginn í dómum um menn og málefni, sem honum virtust sigla undi fölsku flaggi.”

Niðurlag

“Askdal var ritfær maður og skrifaði talsvert í íslenzk blöð, einkum á yngri árum. Honum var jafnkært að etja orðum við aðra menn í ritum sem í ræðu, og háði marga hildi á blaðavellinum. Þó var hann á síðari árum hættur að rita í blöð, og virtist verja tómstundunum því nær einvörðungu við uppáhaldsbækur sínar. Hann var trésmiður og stundaði þá iðn árum saman; en reisti bú eftir að hann kvongaðist, og var við búskap þar til fyrir þremur árum, að hann leigði land sitt öðrum og flutti til Minneota. Hann var snillingur í iðn sinni og þótti sómi í vandvirkni. Búnaðinn stundaði hann með sömu sæmd og iðjusemi eins og alt annað. Landið var ætíð vel unnið og vel hirt. Hann var dugnaðar-maður og sí-vinnandi. Hann var fríður sýnum, hrafnsvartir á hár og skegg, teinréttur og hinn hermannlegasti á velli. Augun skörp, og skein í þeim hólmgöngu-glampinn. Það var eitthvað við hann, sem bar vott um sjálfstæði. Manni datt ósjálfrátt í hug, að þar væri forna víkingslundin komin niður í gegn um aldirnar og prýddi nú þetta óskabarn Leifs og Grettis og Gunnars og Njáls. Hann var tryggur vinum og drenglyndur við óvini. Honum þótti sómi að öllu, sem hraustlegt var; þrek og manndómur átti við skap hans: aldrei að æðrast, aldrei að víkja. Það voru honum heilagar skyldur. Orðin sem hér fylgja, eftir eitt af skáldum Íslands, lýsa einkarvel sjónarmiði og lífsskoðun hins látna manns:

Eg vil anda’ að mér himinsins hreinustu lind
á hátind við fossanna straum
og líta svo hlæjandi af hájökultind
á hégóma lífsins og glaum.”