Páll Sigurgeirsson

Vesturfarar

Tryggvi J. Oleson ritstýrði 4. bindi Sögu Íslendinga í Vesturheimi og fjallar þar um félagsmál Íslendinga í Winnipeg. Þar kemur í ljós að Páll Sigurgeirsson tók þátt í kirkjumálum. Á bls. 370 er fjallað um séra Halldór Briem á árunum 1880-1883. Séra Jón Bjarnason kvaddi söfnuði sína í Nýja Íslandi og fluttu heim til Íslands. á bls. 370 segir:,,Eftirmann sinn hafði séra Jón vígt áður en hann fór frá Nýja Íslandi. Var það séra Halldór Briem, er starfaði þar þangað til hann flutti til Winnipeg árið 1881. Hann þjónaði söfnuðinum þar um tíma árin 1881-1882, en með fram söfnuðum í Minnesota. En haustið 1882 fór hann alfarinn til Íslands. Þá hafði söfnuðurinn í Winnipeg engan prest í meir en ár, og var víst töluverð deyfð yfir safnaðarstarfinu.” Blaðið Leifur í borginni fjallaði nokkuð um ástandið árið 1882 og segir:,, Síðan 30. Júlí síðastliðið sumar, um það leyti að séra Halldór Briem fór heim til Íslands, hafa ekki verið haldnir safnaðarfundir þar til sunnudaginn 8. Apríl, þá var haldin safnaðar fundur og endurkosnir embættismenn safnaðarins, fyrir fulltrúa Sveinn Björnsson, Jón Júlíus og Sigurður Jóhannesson. Fyrir djákna Páll Sigurgeirsson, Þorsteinn Einarsson og Kristrún Sveinungadóttir.”

Þegar ákvörðun séra Halldórs Briem um að hverfa frá þjónustu í Vesturheimi og flytja til Íslands bregst séra Jón Bjarnason með því að skrifa áhrifamönnum vestra og kanna hvort áhugi á að hann kæmi vestur til starfa á ný. Viðbrögð voru á þann veg að að séra skrifar bréf vestur 27. nóvember, 1883 og segir:,,Jeg sagði formlega af mér Seyðisfjarðarprestakalli til byskups með síðustu póstferð.” Og 15. ágúst, 1884 getur Leifur flutt þau tíðindi að presturinn sé kominn. Tryggvi J. Oleson setur í neðanmálsfærslu bls. 372, nöfn þeirra vestra er mest unnu að safnaðarmálum um þær mundir:,,Árni Friðriksson, Eyjólfur Eyjólfsson (frá Dagveðrargerði í Hróarstungu í N. Múlasýslu, Páll Sigurgeirsson Bardal, Jón Björnsson (frá Héðinshöfða), Sigurður Jóhannesson skáld, Magnús Pálsson, Baldvin L. Baldvinsson, Sveinn Björnsson, Gunnar Einarsson, Arngrímur Jónsson, Jón J. Júlíus, Helgi Jónsson og Stefán Gunnarsson.”

Mikið gekk á í safnaðarmálum Íslendinga í Vesturheimi á þessum tímum, séra Jón Bjarnason vann mikið verk við að koma þeim í viðunnandi stöðu. Kirkjufélag var stofnað og 24. apríl, 1885, boðaði séra Jón fyrsta ársfund Hins evangeliska lúterska kirkjufélags Íslendinga í Vesturheimi. Skyldi fundurinn haldinn í Winnipeg 24. júní og standa í fáeina daga. Páll Sigurgeirsson tók þátt í þinginu og skoðum dæmi:,, Páll S. Bardal sýndi fram á, að 5 centa tillag frá hverjum fermdum safnaðarlim myndi verða nægilegt fé fyrir kirkjufjelagið næstkomandi ár, og rjeð hann erindsrekum safnaðanna til að hafa tillit til þessa, þá er farið yrði að safna til sjóðsins, og kom engin rödd á móti því.” Séra Jón Bjarnason lagði næst til að formaður kirkjufélagsins fengi nákvæma skýrslu um fjölda í hverjum söfnuði. ,,Páll S. Bardal flutti þá fram þá tillögu, að fulltrúum fundarins yrði falið  á hendur að sjá um, að skrifarar safnaðanna sendi skýrslu um tölu skírðra og fermdra í söfnuðum þeirra til formanns kirkjufjelagsins fyrir lok ágústsmán., og var það mótmælalaust samþykkt.” Bæta má hér við að Páll Sigurgeirsson var kosinn varamaður í kirkjublaðsnefndina.

Páll Sigurgeirsson var einn þeirra Íslendinga sem gegnu í kanadíska herinn, sem ætlað var það hlutverk að berja niður uppreisn indjána og kynblendinga sem hinn magnaði Louis Riel leiddi. Herflokkurinn var sendur frá Winnipeg vestur til þess hluta sléttunnar sem seinna varð Saskatchewan. Þessi staðreynd sýnir glöggt hversu þjóðhollir Íslendingar voru strax í nýja heimalandinu. Meira að segja fóru þeir að laga sig að enskum rithætti, lögðu áherslu á að nota föðurnafn í rituðu máli, t.d. Sigurður Sigurðsson var skrifaður Sigurðsson, jafnvel Herra Sigurðsson og fór það vissulega fyrir brjóstið á sumum.  Fylkisstjórnin  setti á laggirnar nefnd sem ætlað var að leiðbeina innflytjendum til Manitoba. Páll Sigurgeirsson var einn nefndarmanna og var hans hlutverk að koma ungum, íslenskum stúlkum í vist á heimilum í Winnipeg. Mun hann hafa kappkostað að húsbændur noti skírnarnafn stúlknanna og munu húsmæður hafa fallist á það.