Séra Runólfur Marteinsson

Vesturfarar

Séra Runólfur Marteinsson fór til Vesturheims árið 1883 með foreldrum sínum og systkinum. Eftir ársdvöl í Winnipeg flutti fjölskyldan í Hnausabyggð í Nýja Íslandi.  Þar gekk Runólfur í barna-og unglingaskóla og var þá ljóst að hann hugði á frekara nám. Í VÍÆ I er ágæt lýsing á lífshlaupi hans bls. 248-249:

,,Séra Runólfur stundaði miðskólanám í Winnipeg, lauk B.A. prófi frá Gustavus Adolphus College í St. Peters, Minn., 1895 og guðfræðiprófi frá Maywood Theological Seminary í Chicago 1898. Var fyrst eitt ár aðstoðarprestur séra Jóns Bjarnasonar, sem var hálfbróðir móðurhans, og þjónaði lútersku kirkjunni í Winnipeg á meðan séra Jón ferðaðist heim til Íslands. Vígður 7. maí 1899. Prestur í Nýja Íslandi 1900-1910, og þjónaði í öllu Nýja Íslandi, frá Merkjalæk að sunnan ril Mikleyjar að norðaustan og Árdalsbyggðar að vestan. Bóndi fyrstu árin jafnframt að Mæri norðan við Gimli, en fluttist seinna inn í Gimlibæ. Kennari +i Dakotabyggðum og víðar á skólaárum. Kennari við Wesley College, Winnipeg, 1910-13. Skólastjóri við Jóns Bjarnasonar skóla 1913-40. Prestur Skjaldborgarsafnaðar í Winnipeg um skeið. Þjónaði Hallgrímssöfnuði í Seattle, Wash., og vann að stofnun safnaðar í Vancouver á árunum 1941-44, og var stofnaður íslenzkur söfnuður þar 8. mars, 1944 með 120 fullorðnum meðlimum. Átti síðan heima í Winnipeg. Nokkur ár í framkvæmdanefnd Þjóðræknisfélagsins og forseti þjóðræknisdeildarinnar Frón, Winnipeg. Varaforseti Lútherska kirkjufélagsins 1921-31. Meðritstjóri Áramóta 1905-06. Meðritstjóri Sameiningarinnar um skeið. Hefur ritað í sameininguna fjölda greina og æviminningar í íslenzl blöð vestan hafs. Árbók Jóns Bjarnasonar skóla, Ævisaga sr. Jóns Bjarnasonar í handr. D.D. h.c. maí 1948 frá Gustavus Adolphus Coll., St. Peter. Ridd. Fálk. 1939″.