Björn Magnússon Skógar-Björn

Vesturfarar

Björn Magnússon átti litríka ævi í Vesturheimi og setti Guðni Júlíus Eyjólfsson (G. J. Oleson) saman ágæta grein sem rataði í Almanakið árið 1953. Hann grípur iðulega til skrifa Björns sjálfs og birtir orðrétt úr þeim. Gefum nú Guðna orðið:

Skógar – Björn
(Björn Magnússon)
Eftir G. J. Oleson

,,Það var á Þjóðræknisþinginu í Winnipeg 1928, að mig minnir, að eg sá Björn Magnússon í Keewatin, Ontario í fyrsta sinn. Veitti eg honum sérstaka eftirtekt, því hann kom þar opinberlega  fram, og flutti mál, sem honum lá þungt á hjarta. En það var að fá Þjóðræknisfélagið í lið með sér að gangast fyrir því að hjálpa Íslandi til að hefja skógrækt á ættjörðinni, klæða landið skógi sem til forna. Hafði hann gengið með þá hugsun í hug og hjarta um lengri tíma, að drengilegt væri það af Vestur-Íslendingum að ganga á undan með þá viðleitni að klæða Ísland skógi. Eins og margir Íslendingar hér vestra unni hann Íslandi hugástum, og hann vildi eitthvað gera því til gagns. Að klæða landið skógi fannst honum eitt, sem væri landi og þjóð til mestrar blessunar; hann hafði tröllatrú á því, að trjátegundir ýmsar, sem þrífast vel á svipuðu breiddarstigi í Canada, myndu þrífast vel á Íslandi. Hann hafði verið svo árum skipti við veiðimennsku í skógum og eyðibyggðum Norður-Kanada, kynnt sér skógrækt og haft samband við ýmsa sérfræðinga í þeirri grein. Hann flutti mál sitt vel og skipulega, en ekki fékk hann mikinn byr í seglin.”

Uppruni-æska-vesturför

,,Björn Magnússon var fæddur 5. júlí, 1875 í Grímsstöðum við Reykjavík. Faðir hans var Magnús Þorkelsson Rafnssonar Ólafssonar bónda á Krossi í Skagafirði. Móðir hans var Vigdís Guðmundsdóttir, kona Magnúsar. Björn segir svo frá, að faðir sinn hafi átt ættartölu sína, þar sem ætt hans er rakin til Þormóðs heljarskinns, en ættartalan glataðist í eldsvoða. Guðmundur móðurfaðir Björns var Gissurarson, Magnússonar, Helgasonar bónda í námunda við Reykjavík. Föðuramma Björns, en kona Þorkels, var Margrét Guðmundsdóttir frá Gröf í Skagafirði; en móðuramma hans, kona Guðmundar, var Ingibjörg Jónsdóttir Eyvindasonar, bónda á Hlíðarenda í Ölfusi í Árnessýslu. Árið 1877 fluttu foreldrar Björns að Auðnum á Vatnsleysuströnd; þar dó Magnús í húsbruna 3. október, 1889, og þar með honum ættartalan, sem áður er nefnd. (Innskot; Björn slapp úr eldinum á einni léreftsskyrtu; faðir hans dó við að bjarga mönnum, móðir hans var fjarverandi, var í heimsókn hjá bróður sínum uppi í sveit.) Daginn eftir kom Egill Guðmundsson frá Þórisstöðum (Vatnsleysuströnd) og tók mig til vetrardvalar klæðalausan; hann sannarlega gekk mér í föður stað. Hann kenndi mér að skrifa, líka reikning, samlagningu, frádrátt, margföldun, og aðferð að deila; líka lærði eg á hlaupum dönskusletting, sem algengt var um börn í sjávarþorpum.” Frásögn Björns milli gæsalappa.) ,,Árið 1887 fluttist Björn með móður sinni til Vesturheims, og 31. desember, 1898 kvæntist hann Ingibjörgu Magnúsdóttur (villa Guðna, á að vera Þorsteinsdóttur. Giftar konur tóku föðurnafn eiginmanns í N. Ameríku og það gerði Ingibjörg), fædd á Hóli í Hörðudal. Foreldrar hennar voru Þorsteinn Jónsson og Ragnhildur Jónsdóttir, var hún frá Þórólfsstöðum í Dalasýslu. Þau fluttu til Canada með þrjú börn sín 1876 og settust að á Gimli og voru þar fyrstu árin. Jón faðir Þorsteins var Jónsson hreppstjóri í Hlíð í Hörðudal, fæddur á Gautastöðum 20. september, 1798 og dó í Hlíð 31. maí 1866. Faðir Ragnhildar var Jón Andrésson, bóndi og þjóðhagsmiður, fæddur á Þórólfsstöðum 16. nóvember, 1790, en dáinn í Öxl í Snæfellsnessýslu 25. maí, 1866. Móðir Ragnhildar var Guðbjörg Magnúsdóttir Einarssonar prests á Kvennabrekku um 1819. Einar faðir hans var Magnússon, er sýslumaður var í Strandasýslu, fæddur 1703, dáinn 1779. Þorsteinn faðir Ingibjargar konu Björns tók ættarnafnið Hördal eftir að hann kom hér vestur. Sagt er, að móðurætt Ingibjargar sé allvel rakin í Sýslumannaæfum, en þau rit hefi eg ekki haft undir höndum. Björn dregur ekki dul á það, að hjónaband þeirra hafi verið farsælt, og verður það fljótt augljóst við nánari kynni. Fjögur börn eignuðust þau, tvær stúlkur og tvo drengi; á lífi eru tvö, M. G. Magnus, kvæntur Anne Cobb, eiga fjögur börn, og Ragnhildur Ingibjörg Margrét, ógift. (Innskot: “Börnin hafa tekið ættarnafnið Magnús. Börn M. A. Magnús og Anne Cobb eru fjögur: Margaret Elizabeth, Björn Brian, Keith Markabee og Dianne Ingibjörg”).

Atvinna og skógræktardraumar

Er maður les syrpu Björns Magnússonar, finnur maður ýmislegt athyglisvert þar úr ævintýralífi hans, en tími og rúm leyfir ekki að birta mikið af því; meðal annars eru eftirfylgjandi setningar;-(,,Eg lærði að lesa ensku eftir að eg kvæntist Ingibjörgu. Eftir þetta varð ég skógarmaður, fiskaði á vetrum og sumrum, en hafði aldrei neitt upp úr fiskiríi, hætti því við það. Neyðin kenndi mér að smíða mína eigin báta; aðrir vildu fá samslags báta, svo bátasmiður varð eg upp úr því. Húsasmíði tók eg upp 1908, og var formaður á 10 húsum 1909 fyrir hérlent félag; áttatíu og fimm (85) hús bygði eg í Winnipeg til 1932.”). Á öðrum stað segir hann frá því að hafa byggt sér kofa norður með Winnipegvatni, 24 mílur norður af Íslendingafljóti, stundaði þar bæði fisk- og dýraveiðar. Móðir hans var þar eitthvað með honum; var þetta 1895. Er hér frásögn hans.” ,,Um vorið hafði eg keypt fyrirlestur séra Jóns Bjarnasonar, “Ísland að blása upp”. Mörgum var illa til séra Jóns fyrir þennan fyrirlestur og álitu, að prestur úthúðaði Íslandi með þessu. Eg las fyrirlesturinn upphátt fyrir móður mína. Að loknum lestri spurði eg hana hvaða dóm hún legði á fyrirlesturinn. Hún stóð á miðju gólfi, augu hennar tindruðu sem stjörnur í heiðskíru lofti, einbeitt en gremjublandin göfugmennska skein úr andliti hennar; hún var ekki fríð kona, en hún var tíguleg. Eg dáðist að henni meir í þetta skipti en nokkru sinni áður; þessari mynd af móður minni gleymi eg aldrei. Hún tók til máls og sagði:”Séra Jón Bjarnason segir satt, og á stórar þakkir skilið fyrir að reyna að vekja þjóð sína til alvarlegra framkvæmda. Guð blessi prestinn fyrir hans mannúðartilraun að vekja fólk vort.” ,,Þetta atvik mun hafa átt stóran þátt í því, að Björn beitti sér svo vel fyrir skógræktarmálum. Hann bar skógræktarhugmyndina í hug og hjarta árum saman; hann þráði að sjá Ísland skógi klætt og hann þráði að leggja því máli sitt bezta fulltingi. Fögur hugsjón og þessvegna leitaði hann fulltingis hjá höfuðsmönnum Þjóðræknisfélagsins og gekk fram fyrir þingheim allan og skoraði á félagið að hefjast handa með það, að hjálpa til að klæða Ísland skógi milli fjalls og fjöru. Ekki varð neitt úr framkvæmdum; má vera, að Björn hafi ekki farið réttar leiðir, um það má deila. En tilgangurinn var hinn sami. Björn vildi berjast á móti því, að Ísland héldi áfram að “blása upp”. Hann taldi það skyldurækni við aldraða móður, að Vestur-Íslendingar gengju fram sem forystumenn í skógræktarmálinu. Og þrátt fyrir allt, hafði viðleitni hans óbein áhrif, það herti á heima þjóðinni á þessum vettvangi, og nú er því máli vel borgið. Ísland verður sem að fornu klætt skógi milli fjalls og fjöru eftir nokkra áratugi, eftir því sem nú horfir við. Björn mun hafa sent heim eitthvað af fræi, og hafði bréfaskipti við ýmsa á ættjörðinni, sem stóðu framarlega í skógræktarmálinu, og hvatti þá til framkvæmda. Skógræktarfélag Íslands var stofna’ 1930, og hefir unnið feikna starf. Þjóðin er nú einróma á bak við þá starfsemi, og á rúmum tuttugu árum hafa fjöldi af skógræktarfélögum verið stofnað víða um landið. Í Ársriti Skógræktarfélags Íslands 1950 er ritgjörð “Skógræktarfélag Íslands 20 ára”, og á bls 25 er eftirfylgjandi málsgrein:-“Þess ber að geta, að Vestur-Íslendingur einn Björn Magnússon að nafni hafði brennandi áhuga fyrir skógrækt á Íslandi. Hafði hann ritað ýmsar greinar um þetta í blöð, og skrifað ýmsum málsmetandi mönnum um hugðarefni sitt. Björn var fátækur veiðimaður eftir að hann fluttist vestur um haf; lagði hann því litla fjármuni af mörkum til skóhræktar, en með áhrifum sínum ýtti hann við ýmsum, og mér er ekki grunlaust um, að starf hans hafi flýtt fyrir stofnun Skógræktarfélags Íslands.”

Æfintýramaður í Manitoba

,,Björn var æfintýramaður, hugðarefni hans voru dýra- og fiskiveiðar og málmleit, gullsýki greip hann 1898 og afréð hann að fara til Klondike; gekk hann slyppur frá því, sem hann hafði, en til Klondike fór hann aldrei; forlögin leiddu hann austur, gull fann hann lítið, en á þeirri reisu kynntist hann konunni, og telur það sitt mesta happ, góð kona er gulli dýrmætari. Björn hefir ekki “flotið sofandi að feigðarósi”. Nei, hann hefir oft átt í vök að verjast í lífsbaráttunni; hann hefir oft staðið í straumnum þar sem hann hefir verið hraðastur, en hann hefir verið tregur til að gefast upp, á hvaða vettvangi, sem hann hefir verið. Kona hans hefir oft átt við heilsuleysi að stríða. Tólf sinnum farið undir svefnmeðal og fimm hættulega uppskurði, og hefir það verið ærið kostnaðarsamt, en þrátt fyrir það hefir hún um æfina verið honum mesta hjálparhella. Björn var ekki skólagenginn, hann hafði litla völ á því í æsku að ganga á skóla, eins og margir af þeim Íslendingum, sem nú eru að komast á elliár. En hann hefir lært í skóla lífsins. Hann telur, að hann hafi að meiru eða minna leyti stundað veiðimennsku og annað ævintýralíf í 40 vetur í skógum og eyðibyggðum Norður-Canada. Kallar hann sig iðulega skógarmann, og mun það réttmæli, þó hann væri ekki það í sömu merkingu og skógarmennirnir á Íslandi í fornöld; bendir það nafn á það, að skógar voru á Fróni til forna. Vér höfum kallað Björn Skógar-Björn, síðan hann beitt sér fyrir, og barðist svo vel fyrir skógarmálinu fræga, og teljum vér það virðingarheiti. Margvíslegum æfintýrum lenti Björn í í óbyggðum Norðursins, og var stundum afar skammt milli lífs og dauða. Hann kunni vel að mæta kulda og ís vetrarins, og lét ekki allt fyrir brjósti brenna; lá hann oft úti um nætur án þess að æðrast eða skaðast. Hann veitti athygli dýralífi Norðursins og varð þar margs vísari, sem kom honum að góðu haldi á ferðum hans. Skóginum veitt hann góða eftirtekt, og fræddist um dýra- og skógarlíf af lestri góðra bóka, sem hann lagði mikla rækt við. Hann las einnig rit um jarðfræði og fékkst við málmleit og vann eitthvað í námum. Björn sökti sér mjög niður í það að kynna sér skógrækt, og var í því vakinn og sofinn, og alltaf efst á baugi í huganum sterk löngun að geta á þeim vettvangi orðið ættjörð sinni að liði.  Árið 1912 segir Björn, að hann hafi dreymt föður sinn, og segir við hann í svefninum:”Þú hugsar mikið um skógarmálið, góði minn, gleymdu því ekki, að þúsun ár eru sem eitt ár, og eitt ár sem þúsund ár.” Hafði þessi draumur áhrif á Björn.

Út í óbyggðir

,,Árið 1923 seldi Björn hús sitt í Winnipeg og flutti með fjölskylduna norður í óbyggðir, 75 mílur austur af Big Black River, 300 mílur norðaustur af Winnipeg. Þar stundaði hann veiðimennsku, og þar segist hann hafa veitt í stóran boga, timburúlf, sem hann tók lifandi úr boganum og til húsa sinna; fyrst hafði hann úlfinn bundinn með hundakeðju, en síðan gekk hann laus, var meinlaus eins og lamb og fylgdi húsbónda sínum eins og spakur hundur. Sleppti hann honum lausum um vorið, en hver urðu afdrif hans er ekkert víst. Á veiðiferðum var Björn oft 2 til 3 daga í burtu frá heimilinu, og lá þá úti um nætur. Einu sinni komst hann í hann krappann. Hafði hann verið að heiman nokkra daga og ætlaði heim, var dagur liðinn að kvöldi, og hann ókunnugur á þeim slóðum; er hann kom að lækjarós, yfirgaf hann vatnið og fylgdi læknum og fór hratt, því heim skyldi komast um kvöldið. Allt í einu bilaði ísinn og Björn á kaf. (Innskot. Byssunni gat hann kastað upp á ísinn um leið og hann fór niður, og blotnað hún ekki). Hann komst á land með byssuna, en föt hans frusu strax illilega. Hann settist að í skógarrunni, náði úr músahreiðri þurri uppkveikju, setti í hana ögn af púðri, skaut síðan í uppkveikjuna, því eldspýtur hafði hann ekki og lukkaðist honum að kveikja eld, og innan skamms hafði hann stórt bál. Skógurinn bjargaði þarna lífi hans. Föt hans voru nú öll frosin, en hann þíddi þau við bálið. Klæddi hann sig úr fötunum og þurkaði þau við eldinn. Á meðan hann var að þessu umstangi fyrir norðan 53. breiddargráðu um jólaleytið, flaug honum í hug fólk heima á Íslandi, er úti varð á heiðum og fjallvegum, þar sem ekki var neinn skógur eða afdrep til að bjarga lífinu, eins og hann nú hafði fyrir framan sig. “Mér duttu í hug orð móður minnar, að biðja Guð að gefa mér vit og þekkingu til að flytja skóginn til Íslands. Mér fannst þá, að slíkt væri ómögulegt,” segir Björn í syrpu sinni; og þarna á hjarninu blossaði upp í sálu hans enn löngun til þess að geta átt þátt í því að klæða Ísland skógi, sem gæti orðið afdrep fyrir vegfarendur og varið landið frá því “að blása upp”. Ennfremur segir Björn:”Um kl. 3 var eg búinn að þurka öll mín föt, og lagðist til svefns. Eg sofnaði og hvíldist vel, vaknaði kl. 7 að morgni. Eldur var þar enn og góð hlýja, og hitaði eg mér te.” Ekki þarf að orðlengja það, að heim komst Björn heill á húfi úr þessari svaðilför.

Niðurlag

,,Björn boðaði til fundar meðal Íslendinga í Winnipeg og víðar, en fáir komu til að ræða skógræktarmálið, og hann hafði ráðstefnu með höfuðsmönnum Þjóðræknisfélagsins, en allt kom fyrir ekki. Tók hann andvaraleysi Íslendinga mjög sárt. Björn gekkst fyrir því, að stofnað var félagið “Vínlandsblómið” í Keewatin málefninu til styrktar, og gengu í það félag flestir Íslendingar í Keewatin. Björn er enn við góða heilsu, þó árin séu að færast yfir hann. En að mestu mun hann hættur athafnalífi og sestur í “helgan stein”. Lifir hann all-nokkuð á því að rifja upp endurminningar úr litbrigðaríku ævintýralífi. Hefir hann frá mörgu að segja sem á daga hans hefir drifið,og er hann jafnan hress í anda.”