Þorlákur Gunnar Jónsson

Vesturfarar

Séra Níels Steingrímur Þorláksson skrifaði stutt yfirlit yfir lífshlaup föður síns sem birt var í Saga Íslendinga í Norður Dakota sem Þórstína Þorleifsdóttir setti saman og gefin var út árið 1926..

Brúðkaup Rannveigar í Wisconsin árið 1875. Aftari röð frá hægri: Páll þá þrjú ættmenni brúðgumans, Jón, Níels og Þorsteinn. Fremri röð: Guðrún (fyrir fram Pál) móðir brúðgumans, Tönnes Miller, Rannveig, Henrietta Lovísa, Þorlákur og Haraldur. Sitjandi á grasi Sólveig og Björn.  Mynd PIP

,,Þorlákur Gunnar Jónsson var fæddur 16. ágúst 1824, við Berufjörð í Suður-Múlasýslu. Foreldrar hans voru Jón Ívarsson og Rannveig, dóttir Margúsar Erlendssonar prófasts að Hrafnagili í Eyjafirði (sem þetta er kveðið um: ”Séra Magnús settist upp á Skjóna” o.s.frv.). Ólzt Þorlákur upp hjá foreldrum sínum, sem fluttu til Eyjafjarðar. Hann var skrifari hjá Sigfúsi Schulesen á Húsavík, sýslumanni Þingeyinga, og kvæntist þar Henriette Louise Nielsen, dóttir Nielsens faktors, af norskum ættum. en móðir hennar var ættuð úr Skagafirði. Þau fluttust þaðan að Stórutjörnum í Ljósavatnsskarði, og bjuggu þar lengst af, þangað til þau fluttu til Ameríku. Þorlákur var lengi hreppstjóri í Ljósavatnshreppi, þótti ágætur hreppstjóri, og gott varð mörgum að leita til hans. Var oft gestkvæmt hjá þeim, og þótti gott að heimsækja þau. Þau Þorlákur og kona hans eignuðust 9 börn, 6 drengi og 3 stúlkur, sem öll urðu fullorðin. Elztu synir þeirra, Haraldur og Páll, fóru til Ameríku 1872, Haraldur með konu sína Maríu, dóttur Sigurðar Guðnasonar Hreppstjóra á Ljósavatni. Árið 1873 fluttu þau Þorlákur með öll hin börnin, ásamt fyrsta hópnum, sem flutti vestur. Var Þorlákur sá, sem var helzti hvatamaður útflutningsins. Fluttu þau til Milwaukee, Wisconsin, og var þar tekið á móti þeim af Haraldi og Maríu snemma í ágúst; en Páll mætti hópnum í Quebec, og fylgdi þaðan þeim, sem til Bandaríkjanna fóru. Í Milwaukee var Þorlákur og fjölskylda hans um tveggja ára tíma, unz þau fluttu til Shawano-sýslu, norðar í Wisconsin, ásamt Haraldi og Maríu og börnunum hinum, nema Rannveigu dóttur þeirra, sem giftist í ágúst 1875 norskum bónda í Winneconne-sýslu, Wisconsin, Tönner Miller að nafni. Páll kom líka norður. Myndaðist þá Shawano-nýlendan. Hér tók Þorlákur land og bjó þar, þangað til þau fluttu, 1879, ásamt Haraldi og Maríu, til nýlendunnar í Pembina, sem þá var nýmynduð, og námu land þar sem kallað er í vík (nú Mountain). Fluttust systkinin hin um sama leyti, nema Jakobína, sem giftist norskum manni, Gentoft Isaksen, og Steingrímur, sem þá var í skóla í Dekorah, Iowa. Giftist Valgerður nokkru seinna Sigurjóni Sigurðssyni, sem numið hafði land við Garðar.

Bræðurnir Jón, Þorsteinn og Björn, tóku sér allir land suðvestur af Mountain. Jón kvæntist skömmu seinna Petrínu Guðnadóttur, Þorsteinn Hlaðgerði Laxdal, og Björn Ingu, dóttur Jóhanns Stefánssonar. Bjuggu þau Jón og Petrína á landi sínu fram undir aldamótin. Fluttu þá á land nálægt Milton og bjuggu þar, þangað til þau fluttu norður, ásamt börnum sínum, til Manitoba. Björn dó á landi sínu skömmu eftir aldamótin. Þorsteinn var skömmu áður hættur landbúnaði, og vann að ýmsum verzlunarstörfum þangað til hann litlu eftir aldamótin flutti ásamt fjölskyldu sinni til Manitoba. Var Haraldur mest við verslun, fyrst á landi sínu skamt fyrir sunnan Mountain, svo í húsi Páls, að honum látnum og síðar í búð, sem hann bygði rétt hjá. Laust fyrir aldamót fluttu þau hjón til Detroit, Minn., og var Haraldur við verzlun þar nokkur ár. Þaðan fluttu þau til Mackenzie-sýslu, vestast í Norður-Dakota. Tóku þar land og stofnuðu norska nýlendu. Voru hjá þeim synir tveir, Gunnar og Páll, en dætur þrjár giftar Norðmönnum í grend. Bjuggu þau þar góðu búi. Haraldur dó 1915; bjó María með sonum sínum, þar til hún lézt í júní 1924. Rannveig og maður hennar komu frá Wisconsin til Pembina- nýlendunnar árið 1883, og keyptu land suðvestur af Mountain, fyrir sunnan Gilið svokallað, en munu ekki hafa dvalið þar meira en ár; hurfu svo suður aftur.

Þorlákur og Louise bjuggu á Mountain, þangað til skömmu eftir að Haraldur og María fluttu til Detroit. Voru hjá þeim um tíma; komu norður til Selkirk, til séra Steingríms sonar síns, vorið 1901. Var Louise þá farin að kenna til lasleika, sem ágerðist. Hún fékk hvíld 26. júlí, þá 81 árs, og var jörðuð í grafreit Selkirksafnaðar 29. júlí, af syni sínum. Efti það var Þorlákur hjá börnum sínum á mis, og hjá kunningjum sínum á og við Mountain, þar sem hann kunni bezt við sig. Vestur til Wynyard fór hann, til Valgerðar og Sigurjóns, og tók þar land skamt frá þeim. Eitthvað 10 árum seinna fór hann suður til Haraldar og Maríu, tók þar land og dvaldi hjá þeim að mestu, þangað til 1914, að hann fluttist til dóttur sinnar Rannveigar í Wisconsin, þá talsvert bilaður, og var þar, þangað til hann dó, 21. jan. 1916. Sótti séra Steingrímur líkið og flutti norður til Selkirk, og var hann jarðaður við hlið konu sinnar af séra Birni B. Jónssyni. Þorlákur var 91 árs að aldri er hann lézt. Eftir að hann kom til Ameríku, skrifaði hann sig Thorlaksson, af því að synir hans, sem á undan voru komnir, skrifuðu nafn sitt svo.”

Borgarabréf: