Vilhjálmur Stefánsson

Vesturfarar

,,Sú er þetta ritar, hlustaði einu sinni á tal nokkurra Íslendinga um þjóðerni Leifs Eiríkssonar, og kom flestum saman um að hann hefði verið Íslendingur í húð og hár. Þá kom einn af þeim, sem viðstaddir voru upp með það, að ef Íslendingar ætluðu sér að telja sér Leif algerlega og svipta Noreg hann með öllu, þá yrðu þeir að sætta sig við það, að gera ekkert tilkall til Vilhjálms Stefánssonar. Það kom hik á suma, sem mest höfðu haft að segja um Leif, öðrum fanst nú landarnir mega telja sér þá báða. Íslendingar eru ekki einir í því að telja sér Vilhjálm Stefánsson, því þar fylla þeir hóp með Canada og Bandaríkjunum. Er sú löngun hjá þessum þremur þjóðum náttúruleg, því að það eru ekki margir menn, sem verða heimsfrægir áður en þeir verða þrítugir, og halda svo árlega áfram að leggja stóran skerf til vísindalegra framfara heimsins, með landkönnunarferðum, ritstörfum og á ræðupallinum. ” (Þórstína Þorleifsdóttir, SÍND)

Vinsæll í heimabyggð – Menntun – Ferðir: Íslendingar í Vesturheimi voru stoltir af Vilhjálmi Stefánssyni snemma á 20. öldinni, engir þó eins mikið og þeir sem drógu fram lífið á sléttu N. Dakota. Þórstína sagði:,, Fáum mun Vilhjálmur vera kærari en Dakota-Íslendingum. Til þeirrar nýlendu kom hann tveggja ára að aldri, og er mynd af honum í ramma vanalega það fyrsta, sem maður sér á mörgum íslenzkum heimilum, sérstaklega í Mountainbyggð. Þar er hans minst sem hægfara barns, dálítið einræns í leikjum. Eitt af því fyrsta, sem hann hafði fyrir stafni, var að láta spýtur fljóta í þvottabala móður sinnar og kalla þær skip. Seinna færði hann sig út á tjörn, er var nálægt húsinu, og þegar einhver drengur kom, var hans fyrsta spurning:”Getur þú búið til skip? Eg skal gefa þér efni í það”. Bráðlega fór að bera á sérstökum námshæfileikum hjá Vilhjálmi, og hann stundaði barnaskólanám á Mountain og í grendinni. Sem fleiri annarar kynslóðar Íslendingar, þurfti hann að vinna sig sjálfur áfram til mentunar. Háskólamenntun sína fékk hann við ríkisháskólana í Grand Forks, Iowa, og svo seinna við Harvard. Til Íslands fór Vilhjálmur stutta ferð 1904 og svo rannsóknarferð 1905, undir umsjón Harvard-háskólans. Fyrsta heimskautarannsóknarferð hans 1906-7 (18 mánuði) var kostuð af Harvard- og Toronto-háskólunum. Önnur rannsóknarferð hans 1908-12 (53 mánuðir) var undir umsjón American Museum of Natural History og Canadastjórnar. Þriðja ferð hans, 1913-18, var kostuð af stjórn Canada, og var Vilhjálmur formaður þeirrar ferðar. Hér er ekki kostur að rita ítarlega um gildi rannsóknarferða Vilhjálms Stefánssonar, enda hefir þegar verið skrifað langt mál um það í bókum, blöðum og tímaritum beggja megin Atlantshafsins. Vísindamenn álíta hann einn í flokki fremstu rannsóknarmanna nútímans.

Umsagnir: Þórstína safnaði saman nokkrum sýnishornum af umsögnum fræði- og samferðamanna Vilhjálms, sem hún þýddi á íslensku: ” Ingles Fletcher, yfirmaður Nomad Travel Bureau í New York, fer eftirfarandi orðum um Vilhjálm í bók, sem nýlega er komin út (um eða eftir 1920, innskot:JÞ)” ”Ýmsir, sem kunnugir eru norðrinu, álíta, að ferðalag Vilhjálms Stefánssonar 1914 sé það mesta hreystiverk, sem unnið hefir verið á öllum ferðum þeim, sem tengdar eru við íshöfin. Það er saga, sem setja má við hlið hinna íslenzku fornsagna. Saga, sem tilheyrir með réttu víkingatímabilinu. Ef að vér gætum horfið til baka til norrænu sögualdarinnar frægu, myndu skáldin vefa ferðalag Vilhjálms Stefánssonar 1914 inn í sögur sínar, þá er hann ferðaðist 90 daga á fljótandi ís, ábyrgðarfullur fyrir lífi þriggja manna og sex hunda, og hafði aðeins byssu til þess að afla matvæla í plássi, þar sem bæði hvítir menn og Eskimóar voru sammála um, að ekki væri hægt að draga fram lífið á því sem ískaldur sjórinn gæfi af sér.” Gilbert H. Grosvenor, forseti National Geographic Society í Washington, telur hann vera framarlega í flokki rannsókna- og landkönnunarmanna, þeirra sem nokkurntíma hafa verið uppi (”one of the greatest explorers of all times”). Robert E. Peary, sem ber heiðurinn af því að hafa 

Robert E. Peary, Vilhjálmur Stefánsson og Adolphus Greely. Mynd Nat. Graphic

fundið norðurpólinn, fórust þannig orð um Vilhjálm, þegar hann var sæmdur gullmedalíu National Geographic Society”: ”Vilhjálmur Stefánsson hefir samið landa-uppdrætti af yfir 100,00 fermílum af óþektu sviði norður í íshöfum, og bætt upp á þekkingu heimsins á því plássi á svo margan hátt, að það er ómetanlegt.  Vinnuaðferð hans er þannig, að hann tekur heila, skilning, þrautseigju og viljaþrek hvíta mannsins, og bætir við það alt íshafskunnáttu Eskimóanna, í stuttu máli hæfileika þeirra til þess að hafa til lífsviðurværis það, sem plássið, sem þeir búa í, gefur af sér. Hann hefði alveg eins getað lifað fimtán og hálft ár þar norðurfrá eins og fimm og hálft.”

Ritstörf: ” Sem rithöfundur hefir Vilhjálmur Stefánsson afrekað miklu. Hann hefir skrifað í blöð og tímarit, og lagt til sérstakra skýrsla, sem gegnar eru út af American Museum of Natural History, Canadastjórn o.fl. Bækur hefir hann ritað sem mikla eftirtekt hafa vakið, bæði í Ameríku og annarsstaðar. Á meðal þeirra eru:” My life with the Eskimo” , ”The Friendly Arctic”,”The Northward course of Empire”,”Hunters of the Great North”,”Adventure of Wrangel Island” o.fl. Óðum er verið að þýða bækur hans í öðrum löndum, svo sem Þýzkalandi, Svíþjóð, Frakklandi og Czecho-Slovakia. Isiah Bowman, forseti American Geographical Society, lýsti frásögnum Vilhjálms þannig nýlega”: ”Stefánsson gerir hvaða sögu, sem er, hrífandi, hvort sem hann segir hana munnlega eða færir í letur. Eðlisávísun hans gerir honum þetta létt, því að hann er af íslenzkum þjóðst0fni. Ísland gefur út árlega að tiltölu 25 sinnum fleiri bækur en gefnar eru út í öllu brezka veldinu. Um það bil 20 íslenzkir rithöfundar nítjándu aldarinnar vöktu svo mikla eftirtekt að verk þeirra voru þýdd á ýmis Evrópumál. Það er land, hvar klassiskar bókmentir eiga heima, og þaðan flýtur heilnæmur menningarstraumur, og í þeim straum hefir Stefánsson reist segl og farið langar ferðir til ókunnra landa”. Fyrirlesari er Vilhjálmur Stefánsson með afbrigðum, og kemur fram á ræðupallinum með skýrt og einfalt mál, og er framkoma hans þar, sem annarsstaðar, blátt áfram og látlaus. Viðurkenningu fyrir starf sitt hefir hann fengið frá vísindafélögum og háskólum þessa lands, einnig hafa mörg vísindafélög í Evrópu heiðrað hann, svo sem Geographical Societiers í London, París, Róm og víðar. Bandaríkja-stjórnmálamaðurinn Colonel Edward M. House, er var önnur hönd Wilson Bandaríkjaforseta í París, og átti svo mikinn þátt í því að semja frumvarp alþjóðabandalagsins með Wilson, gaf eftirfarandi álit á Stefánsson, í grein ritaðri í Apríl 1925”: ”Ef eg væri að leggja af stað í hættulegan leiðangur , kysi eg engan fremur fyrir félaga en Vilhjálm Stefánsson. Eg álít hann í fremstu röð alheimsborgara nútímans. Hann sér svo langt um lengra en almenningur inn í framtíðina og starfar til heilla mankynsins í heild sinni. Heiminum er þörf á mönnum eins og honum, og það má reiða sig á hann og hans aðstoð hvenær sem kallið kemur.”