Freyja

Vesturfarar

,,STEFNA FREYJU:  Freyja verður algjörlega óháð í öllum efnum, tilgangur hennar er að fræða og gleðja, hún blandar sér því eigi að óþörfu inn í þau mál sem líkleg eru til að valda deilum manna á meðal; svo sem trúarbrögð og stjórnmál; þó er ekkert það mannlegt og siðlegt málefni til, er hún álíti sér óvoðkomandi, eða skuldbindi sig til að þegja um. Hún flytur fræðandi efni og skemtandi ritgjörðir þýddar og frumsamdar, eftir beztu föngum, og sögur og kvæði, skrítlur, hús ráð og búnaðar bitla. 

Efst á dagskrá hennar verða framfarir og réttindi kvenna. Bindindi verður hún hlynt, og sérhverju öðru góðu og fögru. Frumsömdum sögum og kvæðum tekur hún með þökkum, og yfir höfuð öllu því, sem miðar til alþýðu heilla. Greinar þær er ekki verða teknar í blaðið, verða því aðeins endursendar að burðar gjald fylgi. Skrifið ljóst og stutt og vandið orðfærið sem bezt, engin persónulegheit eða meiðyrði um náungann, verða undir engumkringumstæðum tekin. Vort mottó er: mannúð og jafnrétti; Málefnið ræðist, en persónan eigi.”

,,Ávarp til fólksins: Kæru vinir.  – Þér, sem hafið svo drengilega rétt oss hjálpandi hönd til að koma af stað inu fyrsta Vestur-Íslenzka kvennblaði: vér vitum það gleður yður að sjá það koma fram á sjónarsviðið undir nafninu FREYJA. Vér treystum veglyndi yðar til að taka henni vel þó hún sé í fyrstu fátækleg til fara, því bak við hana standa engir auðdrottnar; skoðanir hennar engum flokkum háðar, stefna hennar engum seld.

Vér vonum það staðfastlega, að með tímanum nái hún tilgangi sínum, þeim tilgangi, að verða löndum sínum til sóma, gagns og gleði. Og full af framtíðar-vonum, fer hún af stað úr móður húsum til að reyna á gestrisni landa sinna. Vestur- Íslenzku konur og meyjar; hér er og tækifæri fyrir yður að ræða alt, sem snertir yðar sérstöku og sameiginlegu málefni; fyrir yður er blaðið sérstaklega til orðið, yður lofar það að flytja eftir beztu föngum framfarir þær sem eiga sér stað í kvennfrelsis áttina hvarvetna í heiminum, með fl. nytsömu í hvaða helzt stöðu sem þér eigið heima.

Kastið sjálfar deyfðinni og sýnið að þér hafið vit og vilja til að hugsa og rita; öll heimsins málefni snerta yður; þér eruð siðferðislega skyldugar til að lesa og hugsa. Mörg andans gullkorn yðar hafa grafist í áhyggjum, sorgum og vonbrygðum, af því þér hafið ekki átt neitt blað sjálfar; hlynnið að því. Þér þolinmæðu göfugu mæður; látið hina ungu hafa gagn af lífsreynzlu yðar, ótal mart er til, sem getur orðið þeim að liði ef þér ritið um það, en sem þér hafið orðið að kaupa með reynzlunni.

Þér Vestur-Íslenzku skáld, hvort heldur í sögu, leik eða ljóði. Leyfið anda yðar að svífa með Freyju til hinna mörgu heimila, þar sem þráin eftir inum fögru hugsunum mannsandans, sem aldrei byrtast í jafnfögrum myndum og hjá skáldunum. Já, sendið Freyju sögur og kvæði og hún vill sýna yður alla velvild og sanngirni. Íslenzku menn og konur; Freyja heilsar yður öllum, og óskar yður gleðilegs Nýjárs, hið fyrsta sinn er hún lítur ljós þessa heims. Heill yður, sem framvegis hlynnið að henni.

GLEÐILEGT NÝJÁR