Leifur

Vesturfarar

Helgi Jónsson

Leifur – Fréttablað í Winnipeg:  Vangaveltur um íslenskt fréttablað hófust í Winnipeg fljótlega eftir að útgáfu Framfara var hætt í Nýja Íslandi árið 1880. Ýmsir athafnamenn í borginni, t.a.m. Jón Júlíus, Magnús Pálsson og Helgi Jónsson funduðu um málið og könnuðu ýmsa kosti. Þeir skrifuði íslenskum námsmanni, stúdent frá háskóla í Iowa og leituðust eftir vilja hans að gerast ritstjóri íslensks fréttablaðs í Winnipeg. Séra Friðrik J. Bergmann skrifaði í Almanak Ólafs Þorgeirssonar árið 1903 grein um fréttablaðið ,,Leif” sem hóf göngu sína vorið 1883. Þar segir prestur:,, Boðuðu þeir hann (námsmanninn frá Iowa) á fund sinn og áttu saman mikið tal og langt um íslenskt blaðfyrirtæki. En niðurstaðan varð sú, að ekki væri unt að hafa saman fjármagn svo mikið, að út í slíkt væri leggjandi, svo að líkur væru til að bæri sig, og um leið væri hægt að borga sómasamlega fyrir ritstjórn og aðra vinnu við blaðið. Var því mál þetta látið niður falla að sinni.” Mun Helgi Jónssona hafa verið sá eini sem taldi að útgáfa blaðs í Winnipeg gæti gengið og hóf hann útgáfu árið 5. maí, 1883 og ritstýrði blaðinu sjálfur. Heyrum hvað hann segir í ávarpi til lesenda í fyrsta tölublaði:,, Eg vil leiða athygli yðar að því, að verði eg látinn falla á þessu fyrirtæki, þá er það undir von, að það sjáist nokkurntíma íslenskt vikublað prentað hér megin Atlantshaf og hljóti eg að hætta, mun valla verða árennilegt fyrir neinn að byrja, því það eru eigi margir meðal vor hér, sem geta lagt jafn mikið fé og þarf til þess að gefa út blað, út fyrir ekkert. Þess vegna vil eg biðja menn, ef þeim þykir eitthvað að blaðinu, að sýna mér fram á gallana svo eg geti bætt úr þeim, og eins senda í það góðar ritgjörðir í staðinn fyrir að hætta að kaupa það. Til þess að blaðið geti borið sig og þeir haft sæmilegt kaup, sem að því vinna veitir eigi af að það hafi 15.00 (sic) (svona skrifað í blaðið, á að vera 1.500. Innskot JÞ) kaupendur. Þetta mun nú þykja býsna há tala, og ólíklegt að hún fáist, þar sem ,,Framfari” hafði aldrei nema 600 kaupendur í allt og það voru aðeins 300 af þeim hér megin Atlandshafs: en eg vil segja að eins og það voru 300 Íslendingar færir að kaupa Framfara á dögum hans, hjer megin hafs, eins sjeu 3,000 færir til að kaupa þetta blað nú á dögum, og það sýnir glögglega að verði fyrirtækið látið stranda, þá er það einungis fyrir skeitingar- og alvöruleysi manna. Að endingu vil eg láta yður vita, kæru landar! Það eru ekki mínir eigin peningar sem jeg er sár út af þó jeg tapi, því þó jeg missi $1 til 2.000 á fyrirtækinu, þá stend eg jafnrjettur eptir sem áður, og jeg er miklu glaðari að tapa þeim á þessu fyrirtæki, heldur en þó einhver gæfi mér þá fyrir ekkert. Það er þjóðin íslenska, sem jeg er að hugsa um; það er hún, sem tapar meir en jeg með því að geta ekki haft gott dagblað á sínu eigin tungumáli.”  Séra Friðrik skrifar í niðurlagi sinnar greinar:,,Þótt nú bæði stíl og réttritun sé nokkuð ábótavant, er það hrein furða, að það skyldi ekki vera enn lakara. En fátæklega mun mönnum hafa fundist blaðið fara af stað og tóku margir fremur dauflega undir að kaupa það eður styrkja á annan hátt. En ekki kom ritstjóranum til hugar að gefast upp fyrir það.” Fljótlega kom í ljós að ýmsum þótti Helgi fara glannalega og fundu allt að útgáfunni. Helga tókst um haustið 1883 að sannfæra stjórnvöld í Ottawa um að kaupa 2000 eintök af blaðinu til dreifingar á Íslandi og þótti ýmsum of langt gengið. Fundir voru haldnir um veturinn og næsta sumar (1884) þar sem andstæðingar Helga söfnuðu undirskriftum á skjal til Kanadastjórnar um að hún hætti að kaupa blaðið ef ritstjóri breyti ekki um stefnu. Helgi varðist vel, safnaði sjálfur undirskriftum á skjal þar sem einstaklingar lýstu yfir ánægku með blaðið og stefnu þess. Fékk Helgi ýmsa öfluga menn til að skrifa upp á m.a. séra Jón Bjarnason, Árna Friðriksson, Friðjón Friðriksson og Sigtrygg Jónasson. Gekk á ýmsu næstu misseri en stöðugt hallaði undan fæti og kom síðasta tölublað Leifs út 4. júní, 1886. Helgi var alltaf með mörg járn í eldinum og smám saman beindist öll athygli hans að nýju landnámssvæði í vestri þar sem hann sá tækifæri fyrir nýja, íslenska nýlendu. Hann flutti frá Winnipeg og settist að í Langenburg sem í dag er bær í Saskatchewan. Þar lést hann haustið 1887, 35 ára gamall.