Lögberg: Áratugurinn 1880-1889 er merkilegur í sögu Íslendinga í Vesturheimi fyrir margar sakir. Útflutningur var meiri frá Íslandi þá en nokkurn annan áratug en þá munu hafa flutt vestur rúmlega 6 þúsund manns. (Sjá töflu 3 í Vesturfaraskrá) Á þessum tíma varð Winnipeg höfuðstaður Íslendinga í Norður Ameríku og þar hófust flokkadrættir meðal þeirra, bæði í kirkju- og stjórnmálum. Hér voru Íslendingar að aðlagast kanadísku samfélagið hraðar en nokkurs staðar í N. Ameríku. Stundum býsnast menn yfir endalausum deilum og þrætum í íslenska samfélaginu fyrir vestan en á því eru ýmsar skýringar. Íslendingar urðu t.d. að taka trúmál í sínar hendur því hvorki var ríkiskirkja í Kanada eða Bandaríkjunum og hvorki Kanada né Bandaríkin stóðu í sjálfstæðisbaráttu. Klofningurinn sem varð í Winnipeg á einmitt rætur í þessu. Sumir voru meðlimir í söfnuði Fyrstu lútersku kirkjunni aðrir kusu aðrar trúarstefnur. Þá fylgdu sumir íhaldsflokkum í stjórnmálum aðrir hölluðust að frjálslyndum. Þetta skýrir þörfina fyrir öðru íslensku blaði en Heimskringla var málgang þeirra sem ekki voru í lútherska söfnuðinum í Winnipeg, fylgdu íhaldsmönnum í Kanada og demókrötum í Bandaríkjunum. Fyrsta tölublað Lögbergs sá dagsins ljós 14. janúar, 1888. Þeir sem stóðu að baki útgáfunnar voru Sigtryggur Jónasson, Einar Hjörleifsson, Bergvin Jónsson, Bergvin Jónsson, Árni Friðriksson og Ólafur S Þorgeirsson. Þeir sendu frá sér tilkynningu í desember, 1887 að til stæði að gefa út nýtt fréttablað í Winnipeg. Í Tímariti ÞFÍ ii, 109 segir:,, Í boðsbréfinu er skýrt frá því að blaðið eigi að heita Lögberg, verði hvorki sparað fé né tími til að gera það sem bezt úr garði, eigi að kosta tvo dali yfir árið og verða fult eins stórt og stærsta íslenzka blaðið, er þegar hefur verið gefið út í Ameríku og að það eigi að byrja að koma út við árslok 1887. Aukalmennra frétta á blaðið að hafa meðferðis ritgerðir um almenn mál og einkum að leiðbeina Íslendingum í atvinnumálum og stjórnmálum. Lofað er því að það skuli verða óhátt öllum flokkum í stjórnmálum og öðrum málum og eigi formælandi sérstaks lands eða landnáms.” Fyrsti ritstjóri var Einar Hjörleifsson og gengdi hann því starfi til 28. febrúar, 1895. Hann setti strax sterkan svip á blaðið sem flestum eftirmönnum hans tókst að halda. Hann lét sig miklu varða framtíð Íslendinga í Norður Ameríku og einkenndust ritstjórnargreinar hans nokkuð af því. Þær fjölluðu um félög þeirra í Ameríku, innflutning Íslendinga til álfunnar, menntun íslenskra barna í amerískum skólum, skoðun Íslendinga á Kanada og Kanadamönnum, íslenskar bókmenntir og afstöðu Íslendinga í Vesturheimi til Íslands. Richard Beck skrifaði um Einar í Lögberg á þrjátíu ára afmæli blaðsins og sagði:,, Var Lögbergi, og vestur-íslenzkri blaðamensku í heild sinni, það ómetanlegur gróði, að Einar gerðist ritstjóri blaðsins og skipaði þann sess árum saman; því að það var í höndum hans, eins og vænta mátti af jafn ritsnjöllum manni, hið prýðilegasta að rithætti og að sama skapi vandað og fjölbreytt að efni. Þá var vestur-íslenzkum menningar og þjóðræknismálum ekki síður stórhagur að því, að Einar dvaldist og vann að ritstörfum árum saman í Winnipeg.” Næstu ritstjórar Lögbergs voru Sigtryggur Jónasson, Magnús Pálsson og Stefán Björnsson en sá tók við blaðinu árið 1905 og ritstýrði því til ársins 1914.