Helga Baldvinsdóttir

Vesturfarar

Helga Steinvör Baldvinsdóttir frá Litlu-Ásgeirsá í Víðidal í Vestur-Húnavatnssýslu fluttist með foreldrum sínum til Vesturheims árið 1873. Heldur voru það þung spor að kveðja ættjörðina, þar var hún með hugann alla tíð. Hún byrjaði snemma að yrkja og smám saman vakti hún athygli vestra fyrir ljóð sín. Ljóð hennar birtust fyrst í Heimskringlu, svo í Öldinni 1892 og seinna í kvennablaðinu Freyju.

Árið 1952 kom út í Reykjavík heildarútgáfa af ljóðum hennar, Kvæði eftir Undínu og annaðist Snæbjörn Jónsson, rithöfundur útgáfuna. Heilmikið hefur verið fjallað um Undínu á Íslandi, hér vísast í ágætis umsögn eftir Helgu Kress sem finna má á vefsíðunni https://www.skald.is 

Jólin um daginn

Jeg man hversu dapurt um daginn
og dauðalegt útlitið var,
þá sorglega svipþunga blæinn
öll sjáanleg tilvera bar;
dimmt var, það sást ekki sólin,
og samt voru þá komin jólin.

Hríðin á húsþaki dundi
og hálffylti gluggann með snjó,
einmana í illviðri stundi
eikin í líðandi ró,
því geislandi græðandi sólin
hún gat þá ei vermt hana um jólin.

Mitt hjarta varð bugað af harmi
er hátíð svo dapra jeg leit,
en vonin mjer bærðist í barmi
og bæn mín varð örugg og heit,
að ljómandi, lífgandi sólin
þá lýsi er næst koma jólin.