Júlíana Jónsdóttir

Vesturfarar

Árni Magnússon og Anna Guðmundsdóttir Mynd Almanak 1926

Júlíana Jónsdóttir fór vestur um haf, bitur kona, í von um bjartari framtíð. Hún dvaldi meðal landa sinna í Garðarbyggð í N. Dakota og í Winnipeg. Á hvorugum staðnum fann hún það sem hún leitaði að og flutti vestur að Kyrrahafi. Hún var vinnukona á heimilum í Seattle eða gætti barna á heimili sínu. Heldur varð líf hennar nöturlegt er árin liðu, hún bjó við stöðug veikindi og í sárri fátækt síðustu árin. Íslensk hjón í bænum Blaine, miskunnuðu sig yfir hana og hjá þeim bjó Júlíana sín síðustu ár. Þetta voru þau Árni Magnússon frá Blöndubakka í Refasveit í Húnavatnssýslu og kona hans, Anna Guðmundsdóttir frá Vatnsnesi.

Í bókinni Íslandslag, sem Garðar Baldvinsson ritstýrði og gaf út árið 2006 er samantekt um Jakobínu, gefum Garðari orðið.

Júlíana Jónsdóttir (1838-1917)

,,Júlíana Jónsdóttir fæddist á Búrfelli í Húnavatnssýslu og er elst höfunda í þessu riti. Tveggja ára fór hún í fóstur til móðurafa síns á Rauðsgili í Reykholtsdal og ólst þar upp fram að fermingu en fer síðan sem vinnukona víðsvegar í sýslunni. Árið 1856 flyst hún á Kollsá og 1860 að Akureyjum í Gilsfirði sem hún kenndi sig lengi við en þar bjó hún til 1874 uns hún fluttist til Stykkishólms. Í Akureyjum varð hún fyrir tryggðarofi vinnupilts sem talið er að hafi mótað alla ævi hennar síðan. Júlíana flutti úr Hólminum líklega 1884 og fór að öllum líkindum vestur um haf árið 1886 til bróður síns Jóns Hrútfjörð sem flutt hafði vestur nokkrum árum áður. Heimildir eru litlar til um vesturför hennar og dvöl vestanhafs en ljóðin sem hún yrkir þar og komu út í Hagalögðum 1916, varpa heldur dapurlegu ljósi á líf hennar vestra. Hún bjó fyrst í Görðum í Norður-Dakota en flutti nokkrum árum síðar til Winnipeg. Fljótlega reistu vinir hennar kofann Skálavík þar sem hún bjó líklega lengi. Hún flutti á Kyrrahafsströndina og bjó þar sem nú er borgin Seattle í Washington fylki en var sveit þá og síðast í Blaine nyrst í fylkinu, þar sem hún lést í júní 1917.”

Kveðskapur

,,Í Hólminum gefur hún fyrst íslenskra kvenna út ljóðabók, Stúlku árið 1876, og nokkru síðar er leikið eftir hana leikritið ,,Víg Kjartans Ólafssonar” (1879) þar sem hún endurtúlkar sögu Guðrúnar Ósvífursdóttur og lé sjálf hlutverk Guðrúnar. Leikritið er talið fyrsta leikrit eftir íslenska konu en það kom fyrst út árið 2001 og annaðist Helga Kress útgáfuna. Í Stúlku er nokkuð af ljóðum um Ísland en einnig nokkur eftirmæli sem flest ero ort um lifandi fólk en lífshlaup þess og jafnvel eiginleikar tilbúningur skáldsins. Kröpp kjör og hugsanlega vonbrigðin með treygðarofið marka ljóðin talsvert og er myndin af Íslandi almennt afar nöturleg og bitur. Birtist þessi neikvæða sýn af Íslandi einkum í ljóðunum ,,Kveðja til Íslands” og ,,Íslandi” sem er háðsleg mynd af lofgjörð Bjarna Thorarensen í ljóði hans ,,Íslands minni”, en bæði ljóðin hefjast á orðunum ,,Eldgamla Ísafold”. Júlíana leikur sér að íslenskri hefð ættjarðarkvæða og upphafningu fjallkonunnar í nöpru háði og gerir landið nánast að eyðimörk. Svipuð viðhorf koma fram í flestum ljóðunum um landið í Stúlku, en í Hagalögðum virðast hafa orðið alger umskipti í huga Júlíönu. Ljóð frá 1895, u.þ.b. áratug eftir að hún kemur til Vesturheims, bera skýran vott um þá ættjarðarást og lofsöngva um Ísland sem Stúlka gerir stólpagrín að. Þannig gerbreytir dvölin vestanhafs viðhorfum Júlíönu. Einlægustu ljóðin í Hagalögðum sýna djúpa einsemd og allt að því ótta við ellina en þá kyrrláta sátt við erfitt hlutskipti. Vestan hafs bjó Júlíana að því er virðist áfram við kröpp kjör alla tíð, og stundum slíka örbirgð að þegar fátækrayfirvöld tóku hana að sér undir lok ævinnar voru eigur hennar og jafnvel handrit brennd.”

Ísland           

Eldgamla Ísafold,
ófrjósöm þín er mold,
blásin og ber;
næðir af norðanvind’
nágola’ um snjófgan tind;
ást þinna barna blind
býr samt hjá þér.

Höfuðið hvítur snjór
hylur og jökull grár,
björg hamra brýr;
allvíða’ átt’ ómjúk
eldhraun í brjósta dúk;
hafís um boginn búk
belti þjer snýr.

Kveða opt kaldar spár
koldimmar jöklagjár,
barinn brimskafl;
fannhvít hann froða knýr,
Fjallhá sem báran spýr;
hræfugl sitt hreiður  flýr,
hræðist slíkt afl.

Hversu sem hnýpinn mjög
hirta þín jelja drög
brjóst þín við ber,
ef hann, þjer farinn frá,
framandi’ er þjóðum hjá,
harmandi af hjarta þá
heim óskar sjer.

Hvað er sem hann knýr heim
hættan um báru geim
að fá þinn fund?
Hann þráir fanna fald
og forna rúnaspjald
sem ramlegt rafurvald
hans rykki mund.

Í brjósti hans á byggð
þín brennheit ást og tryggð;
hart hetju blóð
rennur hans æðum í,
örlaga’ ei hræðist ský;
fóstra! þjer fæðist því
frjálslyndust þjóð.
(1876)