Magnús Markússon

Vesturfarar

Richard Beck ritstjóri Almanaks Ólafs Þorgeirssonar í Winnipeg skrifaði grein um Magnús Markússon og birti árið 1949. Þar segir: ,,Grein þessi var upprunalega hugsuð sem afmæliskveðja til hins aldurhnigna og vinsæla skálds, er orðið hefði níræður þ. 27. nóvember síðastliðinn, en hann lést, eins og kunnugt er, rúmum mánuði áður en þeim fágæta áfanga yrði náð, að morgni miðvikudagsins þ.20. október. Með honum féll að velli sá maðurinn, sem í meir en 60 ár hafði komið við sögu Íslendinga vestan hafs og um langt skeið hafði verið aldursforseti íslenzkra ljóðskálda þeim megin hafsins, og skipað þann sess með sóma. Að Magnúsi skáldi stóðu traustir stofnar í báðar ættir, og hefir hann vafalaust hlotið að erfðum frá ættmennum sínum ýms skapeinkenni og það við horf við lífinu, sem svipmerkti hann um annað fram. Á þetta benti systursonur hans, dr. Rögnvaldur Pétursson, réttilega á í ræðu, sem hann flutti í samsæti í Winnipeg á átræðisafmæli skáldsins”.

Rögnvaldur Pétursson hefur orðið

“Eg vil segja yður svolítið frá ættmönnum heiðursgestsins. Föðurbróðir hans, sem hann heitir eftir, Magnús Árnason í Utanverðunesi í Hegranesi varð einn með elztu mönnum í Skagafirði, og hann var einn með góðgerðasömustu og glaðværustu mönnum þeirrar tíðar. Bær hans stóð í þjóðbraut, ef svo mætti að orði komast, við aðalferjustaðinn, við vesturós Héraðsvatna. Á nóttu og degi var sífelldur straumur gesta að Nesi. Enginn kom þangað hryggur eða glaður, svo að ekki færi hann þaðan glaðari og hressari í bragði. Magnús hafði alltaf einhver ráð með að leysa úr vandræðum manna. Enga erfiðleika lét hann buga sig, og er hann enn í minnum hafður meðal eldri Skagfirðinga austan hafs og vestan. Finnst þér ekki skyldleikinn milli þessara frænda og nafna, gleðina, léttleikann, hluttekningasemina og kvíðaleysið yfir lífinu? Engir þeir, sem kynnst hafa heiðursgestinum, munu honum annað bera, en að hann hafi ávalt reynst raungóður og ósérhlífinn og kosið heldur að reisa á fætur en fella þann, sem umkomulítill var. Eg segi yður satt, að okkar íslenzka mannlíf hér í þessum bæ, hefir orðið sviphýrra og ánægjulegra fyrir það, að Magnús Markússon nam hér bólfestu, og lagði á sig margháttuð félagsstörf lengi framan af árum. Henn hefir nú búið hér í rúma hálfa öld og mun öllum koma saman um það, að yfir öll þessi ár hafi ávalt verið lyfting og léttleiki í öllum heilsunum hans og kveðjum til þúsundanna mörgu, sem hann hefir hitt, gengið með, eða rætt við, á götunni. Kvíða eða áhyggjumálum sínum hefir hann aldrei haldið að samferðamönnunum eða gert þau að umtalsefni á göngunni. Heimili hans stóð opið gestum og gangandi. Hann bjó í einskonar Utanverðunesi, meðan hann réði húsum sjálfur. Í móðurætt á hann líka til glaðværra og ókvartsárra manna að telja, hinnar svonefndu Djúpadalsættar. Þar hefir og fólk orðið langlíft, ömmur, frænkur og móðir komust á tíunda tug. En sumir þairra frænda hans voru útsjónar og hagsýnismenn meiri, en heiðursgesturinn, og hefir hann einhvernveginn verið staddur utangarðs – líklega við að yrkja- þegar þeim eiginleika var skift”.

Skáldið Magnús Markússon

Gefum Richard Beck aftur orðið: ,,Magnús vann sér á yngri árum frægðarorð fyrir sigurvinningar sínar í kapphlaupum, sem háð voru í Winnipeg, en hann hlaut þrisvar sinnum verðlaun í þeim, og jók með þeim hætti á hróður landa sinna í Vesturheimi. Annars var hann kunnastur meða þeirra, beggja vegna hafsins, fyrir ljóðagerð sína. Tvær ljóðabækur komu út eftir hann: Ljóðamæli 1907 og Hljómbrot 1924; áttu þær báðar vinsældum að fagna, ekki síst vestan hafs. Í fyrstu bók hans eru ýms þýð kvæði og falleg: “Skagafjörður”,”Á Stigabergi”, “Til móður minnar” og “Drengurinn minn í skólagarðinum”. Má þegar á kvæðum þessum sjá aðaleinkenni skáldsins; hljómfegurð og þýðleik. málmýkt og lipurð. Rímsnilld Magnúsar hefir að verðugu verið við brugðið; kvæði hans eru svo áferðarfögur, að vart sér þar hrukku á; er það auðsætt, að honum er afar létt um að yrkja. Ekki er hljómblærinn síðri eða málfarið lakara á sumum kvæðunum í seinna ljóðasafni hans Hljómbrotum. Þar á meðal eru kvæðin “Björkin”, “Harpan Mín”, “Skammdegið” og “Ljóðdísin”, öll fögur og tónmjúk. Göfugrar hugsanar gætir í ljóðum Magnúsar og næmra tilfinninga; siðgæðis og trúarblær er og á mörgum kvæðum hans, og má sem dæmi nefna kvæðið “Alveldið”. Hann er vortrúaður bjartsýnismaður. Hinsvegar skera kvæði hans sig ekki úr að frumleik, né heldur er þar víða mikil tilþrif að finna. Ljóðdís hans er íslenzk, enda sver hann sig mest í ætt til sumra hinna íslenzku þjóðskálda, og hefir sýnilega orðið fyrir mestum áhrifum af þeim.” Richard Beck hefur orð á því að Magnús hafi ort nánast fram í rauðan dauðann og segir um það:,,..sérstök ástæða er hér til þess að taka upp vísurnar, sem hann orti á áttugasta og níunda afmælisdegi sínum (27. nóv. 1947) og birtar voru í báðum vesturíslenzku vikublöðunum, því að þau lýsa Magnúsi svo vel, bæði skáldskap hans og lífsskoðun:

 

„Dagar líða, ár og aldir
Atburðirnir þúsundfaldir,
Ýmist hlýir eða kaldir,
Örlaganna strauminn við.
Því er bezt með trú og trausti
Taka glaður ævihausti,
Verma braut að bananausti
Bróðurhug og sálar frið.

Áttatíu ár og níu
Enduð kveð eg geði fríu,
Þakka dagsins hret og hlýju,
Harm og hverja gleðistund.
Senn eg liðinn ligg á fjölum
Lágt í grafarfaðmi svölum.
Andinn rís að sólarsölum
Sæll á minna vina fund.“