Sigurbjörn Jóhannsson

Vesturfarar

Flestir vesturfarar kvöddu vini og vandamenn, sveitina sína, bæinn sinn með miklum söknuði. Þegar þeir riðu út dalinn í hinsta sinn er áreiðanlegt að flestir áttu erfitt, fáum datt í hug að þeir ættu nokkurn tíma eftir að líta bernskustöðvarnar aftur. Sigurbjörn Jóhannsson var enginn undantekning, hann orti árið 1889 þegar hann kvaddi Hólmavað:

Gnauðar mér um grátna kinn
gæfu mótbyr svalur,
nú þig kveð ég síðasta sinn
sveit mín Aðaldalur.

Kveð ég vini, fyrða´og fljóð,
ferðar til ei hlakka.
Kærleik, dyggð og kynni góð
klökkur öllum þakka.