Tóbías Tóbíasson

Vesturfarar

Tóbías var hagmæltur, stundum kallaður skáld og fór strax að senda vísur og ljóð í vikublöðin í Winnipeg, Lögberg og Heimskringlu. Hann notaði þá dulnefnið T. T. Kalman. Ljóðabók, Wynyard og nágrenni, var gefin út í Winnipeg árið 1934. Kvæðið Vor-Kyrð birtist í Óðni á Íslandi árið 1908 (bls.13)

Í hálfskugga köfum er hraundranga rif
og heiðarbrún dottar í leynum,
er húmdrotning breiðir sitt daggtára rif
um dali og engi og háfjalla klif
og faðmskýlir frumgróða hreinum,
en blómgeiruð hlíð er við bládaggar traf
sem blikfeldur settur með gimsteina vaf.

Og lækurinn niðar svo ljúft og svo hægt
Með líðandi straumöldu sogin,
og söngröddin kát er nú þögnuð, en þægt
þjóta í laufkrónublöðunum vægt
ylstrauma frjóvgandi flogin,
er daggeislinn síðasti sólgylta rós
saumar í dimmbláan möttufald sjós.

Og geim-hvelið andar svo mjúkt og svo milt,
en myrkfald sinn geymir að baki,
og fossbúinn hefur nú hörpuna stilt
og hljómþýðum niðómi kveldloftið fylt
sem vögguljóð vorblómum kvaki,
og alt er svo friðrótt, er frumlífið smátt
fellur í armlög við daggmjúka nátt.

Og svefnguðinn faðmlögum náttúru nær.
Ei neitt utan blæsvalinn vakir;
sem varðsveinn hann læðist svo laðandi og vær
um lynggrónar heiðar og skrúðengi kær
svo bifast þar blómvængir rakir.
En draumguðinn svífur um dali og fjöll,
sem dvalboði nætur um jarðblómin öll.

Í einveru-kyrðinni áttu það grund,
sem andvarpsins þungstunu deyfir;
mann dreymir þá gjarnan um feðranna fund
og frjálsborna hugþrá á vesæla stund,
og andinn sjer landflugin leyfir.
Því stormvindur lífsins er horfinn í húm
og hefur ei lengur í sálunni rúm.