Halldór Björnsson

Vesturfarar

Halldór Björnsson lést árið 1947 í Minneapolis. Almanakið í Winnipeg birti grein eftir séra Guttorm Guttormsson um Halldór árið 1848.

HALDOR PRÓFESSOR GÍSLASON

,,Á síðasta sumri andaðist í borginni Minneapolis ágætur maður af íslenzku bergi brotinn, Haldor B. Gíslason, lengi prófessor við háskóla Minnesotaríkis. Haldor hafði getið sér hinn bezta orðstír og aflað þjóð sinni heiðurs á meðal háskólamanna í þessu landi; en Vestur-Íslendingar munu lítið hafa til hans þekkt – allt of lítið, finnst mér. Eg tel það ekki nema skylduverk, og helzt í ótíma unnið, ef mér tækist nú að kynna hann fyrir löndum mínum.”

Björn Gíslason og Aðalbjörg Jónsdóttir Mynd Well Connected

Uppruni og vesturför

,,Haldor kom barnungur til þessa lands lands með foreldrum sínum, Birni Gíslasyni og seinni konu hans Aðalbjörgu Jónsdóttur, frá Haugsstöðum í Vopnafirði. Björn var í fremstu bænda röð austan lands; bjó fyrst að Grímsstöðum á Fjöllum; flutti þaðan í Haugstaði og gjörðist brátt leiðandi maður með Vopnfirðingum. Hann var dannebrogsmaður. Aðalbjörg var mesta heiðurskona, greind, göfug og trygg í lund og manni sínum í öllu samboðin. Sóknarpresturinn, séra Halldór Jónsson, prófastur að Hofi, var í góðu vinfengi við hjónin á Haugsstöðum. Þegar þeim bættist sonur í barnahópinn, 12. dag, ágústmánaðar, árið 1875, gáfu þau sveininum nafn séra Halldórs. Prestur kunni það vel að meta. Hann kvað við nafna sinn þrévetran vísu þessa:

Halldór verði heillabarn,
hollur, vinsæll, þægur,
siðprúður og sómagjarn,
solli heims fjarlægur.

Vísuna geymdi Haldor í minni æfilangt; og það er alls ekki ólíklegt, að þessar heillaóskir hafi mótað hugarfar hans að einhverju leyti þegar í barnæsku. Um þessar mundir fór Björn að hugsa til Ameríkuferðar eins og landar hans margir fleiri. Ekki verður þó sagt að fátæktin hafi synjað honum vistar á ættjörðinni. Björn var í góðum efnum. En árferði var stirt. Hann misti hundrað fjár í hríðarbyl árið 1878. Auk þess hafði eldgos og öskufall farið illa með jarðargróður sumstaðar á Austurlandi. Hleypti það í marga óhug sem meiru mun hafa valdið um vesturfarir en tjónið sjálft. En fyrir Birni mun það hafa ráðið mestu, að hann bjóst við að geta trygt börnum sínum betri framtíð í Vesturheimi. Árið 1879, í ágústmánuði, fluttu þau Björn og Aðalbjörg með barnahópinn vestur um haf til Minnesota og settust að í hreppnum Westerheim í Lyon héraði. Gjafalönd voru þá upptekin á því svæði, en Björn keypti af Eiríki Bergmann heimilisréttinn að landi hans fyrir 900 dali. Þótti það vel borgað í þá daga. Eignarréttinn fékk hann vitaskuld hjá Bandaríkjastjórn eftir þrjú ár.”

Frumbyggjar og skólamál

,,Á landinu var bjálkahús lítið; en Björn lét þegar um haustið reisa timburhús. Það var vandað og rúmgott eftir því sem þá tíðkaðist, og kom í góðar þarfir byggðarmönnum ekki síður en fjölskyldunni. Tveim árum áður höfðu frumbúarnir íslenzku í Westerheim stofnað skólahérað að ríkislögum og ráðið kennara; en þar eins og víðar í þeim frumbyggðum höfðu menn lítil föng á að reisa skólahús fyrstu árin. Kenslan fór fram á heimili einhvers landnemans; og var þar stundum þröngt setið, eins og geta má nærri. Þessi skóli mun hafa lent í byrjun að mestu hjá Eiríki; en nú fengu nemendurnir góða kenslustofu uppi á lofti í þessu nýja húsi Björns; og þar hafði skólinn aðstöðu í ein þrjú ár, en komst síðan undir sitt eigið þak, ekki langt frá því heimili. Frumbúaskólarnir urðu að sníða sér stakk eftir vexti. Svo var um þennan skóla. Fátækt og annir voru harðar húsmæður; nemendurnir rifu í sig lærdóminn þegar færi gafst; komu og fóru eftir hentugleikum. Aldur og mentastig fóru lítt saman; sami nemandinn kunni reikning vel, en lítið í ensku, og svo framvegis. Varð því tilhögun öll, og kenslan með, mjög svo óbundin, og bekkjaskifting óákveðin, en hver fór það sem hann komst í náminu. Skólastarfið hlaut því að vera nokkuð frumstætt og ófullkomið. En það hafði sína kosti líka. Unglingarnir þurftu ekki að sitja í sama bekk allan veturinn; þeir gátu hert sig við námið ef þeir vildu; þurftu að keppast við þegar tími var naumur, og það gjörðu þeir; enda tognaði býsna vel úr þeim mörgum, andlega. Nafnkunnir menn ekki svo fáir hófu nám sitt á “skólanum hjá Birni Gíslasyni” og báru þaðan ljúfar endurminningar; þar á meðal synir Björns, þeir Haldor og bræður hans og Gunnar Björnson og ýmsir fleiri. Þjóðlega mentun hlutu flest íslenzku börnin í heimahúsum samhliða skólanáminu. Meðal annara sem fengust við það starf var Benedikt Bjarnason frá Víkingavatni í Kelduhverfi, maður alþekktur um Austurland, vel og einkennilega gáfaður; þá kominn mjög til ára. Hann veitti þeim Gíslasonum tilsögn í íslenzku og kristnidómi. Á skólanum í Westerheim mun hástig mentunar hafa verið fimta bekkjar nám eða þar um bil. Eftir þann áfanga fór Haldor á skóla í Minneota fyrst einn vetur, og síðan nokkra vetur í Marshall, því þar var eini miðskólinn í því nágrenni. Tók hann þar burtfararpróf vorið 1896, og innritaðist það haust í háskóla Minnesotaríkis.” 

Háskólanám og störf

,,Halldór kom í háskólann með ágætt veganesti, námsgáfur miklar samfara metnaði og mannkostum. Komst því brátt í vinsældir. Hann lagði sérstaka stund á ræðulist, og með góðum árangri; var hann settur til þess með þremur skólabræðrum að kappræða við fjórmenninga frá öðrum skólum í Minnesota og víðar, meðal annars frá ríkjaháskólum tveimur, þeim í Michigan og Iowa. Þeir félagar gátu sér góðan orðstír á þeim vettvangi. Haldor ekki sízt þótti hann einkum ráðspakur í undirbúningi, og var því mikið sókst eftir leiðbeiningum af hans hendi í þeirri grein, þegar á námsárunum. Hann hafði nemanda hóp í kvöldskóla, kenndi þeim meðal annars ritlist og ræðuflutning, en launin komu í góðar þarfir við skólanámið. Til að létta kostnaðinn leigðu þeir húsnæði saman, háskólanemendurnir frá Vesturheimsbyggð, Haldor og Björn bróðir hans og John Holme síðar blaðamaður; en Ólöf systir þeirra Haldórs hélt hús fyrir þá. Haldor tók Bachelor of Arts próf vorið 1900. Var hann síðan skólastjóri í Lake Benton eitt ár, tók þá jafnframt að lesa lög, en slepti ekki tökum á ræðulistinni. Haustið 1902 hélt hann austur til Boston, stundaði nám við Emerson School of Oratory, og síðan á Harvard Summer School um sumarið. Á næsta ári, 1904, tók hann Bachelorpróf í lögum við háskólann í Minnesota. Lítið sem ekkert fékkst þó Haldor við lögmannastarf um æfina. Hann vann hjá tryggingarsala næstu þrjú árin og mun þá hafa kent í kvöldskóla jöfnum höndum; en árið 1907 var hann ráðinn til kenslu við háskóla Minnesota ríkis. Fyrstu árin var hann prófessor í ræðulist við háskólann. Eitt af störfum hans var að búa stúdentahóp undir þátttöku í kappræðum milli háskólanna. Eftir tólf ár í starfi þessu tók Haldor þungan sjúkdóm og gekk undir uppskurð í Rochester; átti hann í þeim veikindum meiri hluta árs og var nokkuð lengi að ná sér aftur. Fengu háskólavöldin honum annað star sem léttara var talið. Menta starfsemin er margþætt og umfangsmikil á háskólum þessa lands, stærri skólum ekki sízt, en Minnesota háskólinn er einn af þeim allra stærstu. Það er ekki unnið allt í kennslustofum. Þessar miklu stofnanir veita mentunar-straumum út á meðal almennings og aðstoða smærri skóla með ýmsu móti. Í þessu víðvarpi lærdóms og menningar var Haldor fengið verk. Hann annaðist fyrstu árin útvegun á hæfum ræðumönnum í fyrirlestraferðir út um bygðir og bæi. Átti það að vera léttara starf en kenslan, en Haldor var lítt vanur að hlífa sér. Hann stundaði sitt verk vel, hér eins og áður, enda fór svo árið 1926, að hann var settur yfir þessa deild í starfinu. Hún var kölluð Department of Community Service. Því embætti hélt Haldor í 18 ár, unz hann lét af störfum árið 1944. Starfsemi þeirrar deildar var aðallega í tveim þáttum þegar hann tók við – útvegun fyrirlesara og aðstoð í leiklistar – viðleitni skólanna víðs vegar um ríkið. Haldor tók þar við þriðja þættinum; það var að safna fræðandi kvikmyndum og lána ræmurnar (films) öðrum smærri skólum. Deildin öll stækkaði unnvörpum í umsjónartíð Haldors. Ræmusafnið (Film Library) er nú talið eitt af þeim allra bestu í háskólum þessa lands. Hátt á sjötta hundrað skólar og mentafélög fá þaðan myndir að láni árlega. Auk þess var Haldor einn af umsjónarmönnum háskólaútvarpsins í tólf ár, og árum saman í ritstjórn háskóla blaðsins. Hann lagði mikla stund á bókmentir og ræðulist alla æfi; var og upphafs-meðlimur (Charter Member) í tveim félögum ræðumanna, og lagði hönd á margskonar störf önnur.

Ritstörf 

The Art Of Effective Speaking

Effective Debating

Haldor var höfundur að tveim bókum. Báðar fjalla um ræðulist. Sú fyrri heitir Effective Debating og er leiðarvísir í kappræðum. Þá bók hefi eg því miður ekki séð. Seinni bókina gáfu út Heath & Company árið 1934. Heitir hún The Art of Effective Speaking, og er víða höfð að kenslubók í háskólum. Ræðir hún um mælskuíþróttina frá öllum hliðum. Bókin ber vott um feiknamikinn lærdóm og frábæra kunnáttu í þessari grein; flytur urmul af sýnis hornum úr ræðum eftir allra-frægustu mælskumenn þessa lands; vitnar í ótal bækur, fornar og nýjar, og sýnir í öllu að Haldor hefir verið þaullesinn á þessu sviði. Með þennan lærdóm allan fer höfundurinn eins og meistara sæmir. Fylgir hvergi kenningum eldri bóka eins og í blindni, en brýtur þær til mergjar og styður eigin ályktanir með ljósum rökum. Þessi bók er frábærilega þýð aflestrar og víða skemtileg, þrátt fyrir allan lærdóminn. Alþýðumenn geta haft hennar full not ekki síður en háskólanemendur. Hún mun geyma minningu Haldors um langa tíð.         

   

Lífsskoðun

Allir sem þekktu Haldor, bera honum sama vitnisburð: hann var afbragðsmaður; ötull í verki, hreinskilinn í orði, ljúfur í umgengni; hógvær og samvinnuþýður, sóktist aldrei eftir frægð eða gróða, ávann sér hylli starfsbræðra sinna. Hann var framsóknarmaður, hafði nokkuð róttækar skoðanir í stjórnmálum, en fylgdi þó Demokrötum, eða vinstra armi þess flokks. Í trúmálum fór hann nokkuð út af förnum vegum; fann það helzt að kirkjunni að hún var sein í svifum og fáskiftin um almenn velferðarmál. Hann var í þrjátíu ár meðlimur Unitarafélags í Minneapolis. Haldor andaðist í Minneapolis 13. dag júlímánaðar, 1947, tæpra 72 ára. Banamein hans var magakrabbi. Hann hafði þjáðst af því meini í tvö ár eða lengur, þolað hvað eftir annað uppskurði, sem ekki bættu nema í bili. Sjúkdóm sinn bar hann frábærlega vel; var og með fullu ráð fram á síðasta dag. Haldor kvæntist árið 1908. Kona hans hét Bessie Tucker meyjarnafni, vel gefin og hámentuð. Hún lifir mann sinn, ásamt fósturdóttur þeirra hjóna, Mary Frances, sem nú er gift kona vestur í Kaliforníu. Björn bróðir Haldors lézt fyrir 18 árum, hann var lögmaður. Þrír bræður hans eru á lífi: Walter (Þorvaldur), fyrrum kaupmaður og póstmeistari í Minneota; John, sem býr á landi föðurins í Vesturheimsbyggð; hann var ríkisþingmaður í allmörg ár; og Árni, héraðsdómari í Minnesotaríki. Haldor var jarðaður hjá foreldrum sínum í grafreit Vesturheimssafnaðar. Prestur þess safnaðar fór með athöfnina.”