Herdís Jónsdóttir

Vesturfarar

 

Jóhann Magnús Bjarnason, skáld, skrifaði grein um Herdísi sem birt var í Almanakinu árið 1935. Þar vitnar hann í bréf sem Kristín Teitsdóttir, vinkona Herdísar, skrifaði honum sumarið 1935. Kristín var dóttir Teits Stefánssonar og Guðbjargar Guðbrandsdóttur frá Skógarströnd, landnemum í Mikley árið 1876.

Herdís Jónsdóttir Bray

,,Mig langar til að segja nokkur orð um þessa mætu og merku konu, jafnvel þó eg viti, að tvær ágætar greinar um hana hafi þegar birst í Vesturíslenzku blöðunum. En hún hafði einu sinni, fyrir mörgum árum síðan, látið það í ljós við mig, að hún vildi að eg skrifaði eitthvað um sig – (helzt í bundnu máli), ef eg lifði lengur en hún. Eg sagðist skyldi skrifa um hana fáein orð; en eg tók það fram um leið, að þau yrðu ekki í bundnu máli, og að innihald þeirra yrði það; að hún hefði ávalt verið mér sem góð og ástrík móðir. Eg man, að eg minti hana á nokkur orð, sem hún hafði sagt við mig, stuttu eftir að eg misti móður mína. En sá missir var mér mjög þungbær, og Herdís vissi það. Hún sagði þá við mig; “Eg skal vera mamma þín.” Og hún enti það. Hún reyndist mér ávalt eins og hún væri í raun og veru móðir mín, frá því fyrst eg kyntist henni, vorið 1882 á Point Douglas í Winnipeg, og alt til hennar síðustu stundar. Eg vissi, að henni mátti eg treysta í blíðu og stríðu – mátti treysta henni eins og hún væri móðir mín – því hún hafði lofað að ganga mér í móðurstað – lofað því, að vera mamma mín ávalt. Þetta var vorið 1894, ef eg man rétt. Og eg sá hana aðeins endrum og sinnum eftir það, því að eg fluttist burtu frá Winnipeg um það leyti. En í hvert sinn, sem við hittumst, reyndist hún mér sem góð móðir.”

Uppruni og æska

,,Hún var fædd á Vatnshorni í Haukadal í Dalasýslu þann 12. dag júlímánaðar 1846. Foreldrar hennar voru merkishjónin Jón Magnússon og Björg Hallsdóttir, sem lengi bjuggu að Hömrum í Haukadal. Hallur faðir Bjargar var Hallsson og bróðir Ólafs smiðs í Bitru á Ströndum, sem var orðlagður dugnaðar- og gáfumaður. – Um ætt Herdísar og æfi hennar, á meðan hún var á Íslandi. hefi eg mjög litlar upplýsingar getað fengið, enn þá sem komið er. Hún mintist sjaldan á það málefni á þeim árum sem eg kyntist henni. En eg man, að hún sagði mér það einu sinni að faðir sinn hefði rakið ætt sína til Magnúsar sýslumanns á Rauðasandi, Jónssonar á Svalbarði, Magnússonar. Hún sagði mér það líka, að hún hefði snemma lært að lesa, hefði í æskulesið allar þær íslenzkar ljóðabækur sem hún gat náð í, hefði lært utan-bókar fjöldamörg kvæði, og að hún hefði snemma byrjað að búa til vísur. Hún kvaðst snemma hafa haft mikla unun af sumum íslenzku þjóðsögunum – hinum fögru huldufólks-sögum og skemtilegu æfintýrum um gott og göfugt fólk. Og hún sagði, að í æsku hefði næstum hver klettur og hóll, þar sem hún ólst upp, verið sér glæsileg töfraborg, eða Alladíns-höll, og hver hvammur og dalverpi unaðsríkur álfheimur á vorin ; að hver sóley, hver fjóla, hver fífill, sem hún sá í þeim hvömmum og dalverpum, hefði verið sér fögur og göfug konungsbörn – í álögum.                                                                                                                                                                                                                                                                          Herdís ólst upp á sönnu fyrirmyndarheimili. – Faðir hennar var hinn mesti ágætismaður, og móðir hennar göfug kona og trúrækin. Af móður sinni lærði Herdís ótal margt, sem henni kom í góðar þarfir síðar meir, þegar hún kom út í lífið. Æskuheimili hennar var henni í raun og veru nokkurs konar æðri skóli, sem bjó hana út með gott andlegt veganesti og gaf henni þrek og kjark til að taka því öllu með stillingu og hugprýði, sem að höndum bar. Enda kom það í ljós strax á bernsku-árunum, að hún var kjarkmikil hugprúð og trúarsterk. Hún var níu ára, þegar hún einu sinni var á ferð til næsta bæjar, og var með henni stúlka, sem var yngri en hún. Á leiðinni var á, sem þær þurftu að fara yfir, og var ís á ánni. Stúlkan sem var með Herdísi, var í fyrstu hrædd við að leggja út á ísinn og vildi snúa aftur. En Herdís fór fyrst yfir ána, kom svo til baka og reyndi að kveða kjark í litlu stúlkuna og sagði að þeim væri alveg óhætt að halda áfram. Og mælti hún þá þessa vísu af munni fram:             

Vonin sú ei virðist myrk,

Vefjan gullin spanga,

Við með Hæða-herrans styrk

Hérna skulum ganga.

Við það óx litlu stúlkunni hugrekki, og lagði hún á stað með Herdísi út á ísinn, og komust þær klakklaust yfir ána. 

Hjúskapur – vesturför

,,Herdís misti föður sinn, þegar hún var enn ung að aldri. Móðir hennar giftist aftur, og var Herdís hjá henni og stjúpa sínum, þangað til árið 1868, að hún giftist Gunnlaugi Arasyni, sem hún misti eftir sjö eða átta ára sambúð. Þau bjuggu á Þorsteinsstöðum í Haukadal og eignuðust fimm börn; þrjú þeirra dóu ung, en til fullorðins-ára komust þau Gunnlaugur og Rósbjörg. Gunnlaugur Arason var af góðum ættum – skyldur hinum ágæta speking Birni Gunnlaugssyni – og þótti mætur maður og gáfaður. Aumarið 1876 fluttist Herdís ásamt dóttur sinni Rósbjörgu vestur um haf, en Gunnlaugur sonur hennar varð eftir á Íslandi hjá Björgu ömmu sinni, sem ól hann upp. Hann var sagður að vera vænn maður og vel gefinn. Hann stundaði nám við búnaðarskóla, kvæntist og flutti til Reykjavíkur og dó þar árið 1933. – Herdísi varð samferða til Vesturheims fólk úr Dala-, Snæfellsness- og Barðastrandarsýslum, og þar á meðal var Jóhannes Björnsson, er tók nafnið “Bray” eftir að hann kom til þessa lands. En hann varð seinni maður Herdísar. Jóhannes var fæddur í Keflavík í Snæfellsnessýsly þann 25. apríl, 1852. Foreldrar hans voru: Björn Jónsson og Anna Guðmundsdóttir. Jóhannes hafði stundað sjó um nokkurt skeið áður en hann fluttist vestur, og hann var skipsformaður um tíma. Hann átti síðast á Íslandi heima að Ósi á Skógarströnd. Þau Jóhannes og Herdís komu vestur í hóp þeim, sem lagði af stað  frá Borðeyri við Hrútafjörð um eða eftirmiðjan júlí 1876. Sumt af því fólki tók sér bólfestu í Mikley í Winnipeg-vatni seint í september-mánuði þá um haustið, og þar á meðal þau Jóhannes og Herdís. Teitur Stefánsson og kona hans Guðbjörg Guðbrandsdóttir frá Ytra-Leiti á Skógarströnd, Kristján Jónsson frá Geitareyjum og kona hans, og fleira fólk af Vestfjörðum, sem var gott vinafólk þeirra Herdísar og Jóhannesar, – Kristín Teitsdóttir (Mrs. Sigurðson), sem var í þessum hóp, og var ein af beztu vinkonum Herdísar, segir um hana í bréfi, er hún skrifaði mér í sumar:”

Bréf Kristínar Teitsdóttur

,,Foreldrar mínir, Teitur Stefánsson og Guðbjörg Guðbrandsdóttir frá Ytra-Leiti á Skógarströnd, tóku Herdísi með litlu dóttur hennar Rósbjörgu í sitt fátæklega hús yfir veturinn (1876-77), og byrjaði þar kynning okkar og vinátta, er hélst óslitin þaðan í frá. Eg var unglingur, aðeins 15 ára, er við kynntumst, og hafði hún strax þau áhrif á mig, eins og alla, er hún kyntist að laða mig að sér með sinni einsdæma góðvild og glaðværð. Eg minnist ætíð þeirra tíma með þakklæti til hinnar sáluðu vinkonu minnar. Hún var bjartsýn og djörf, trygg og ástúðleg í umgengni við alla; enda reyndist hún mér sem ástrík móðir, bæði þá og alla æfina í gegn. – Þenna fyrsta vetur, er við vorum í Mikley, gekk bóluveikin sem var hin hörmulegasta plága og skildi hvarvetna eftir djúp og svíðandi sár. Foreldrar mínir mistu son sinn á unga aldri. Ekki man eg til að Herdís fengi bóluna. – Hún var mjög vel gefin til sálar og líkama, með afbrigðum greind og mæta vel hagmælt, ætíð glöð og reiðubúin til að hjálpa, hver sem með þurfti, og hún gat til náð; enda kom það sér vel þenna hörmunga-vetur í Mikley; bæði hjá okkur og annarstaðar, að einhver væri, sem bæði hafði vilja og þrótt til að hjálpa og líkna. Og gerði Herdís sannarlega það, er hennar kraftar leyfðu. – Sumarið 1877 giftist hún Jóhannesi Björnssyni (Bray) frá Ósi á Skógarströnd. Voru þau gefin saman ásamt tvennum öðrum hjónum, undir beru lofti, af séra Jóni Bjarnasyni. Svo að segja mátti, að í kirkju þeirri, er Herdís var gift, hafi sannarlega verið hátt til lofts og vítt til veggja; og gat ekkert verið, sem betur samsvaraði hennar göfuga og hreina hugarfari. Þetta haust bygðu þau hjónin sér kofa nálægt kofa okkar (þetta gátu ekki talist hús), og var hún eftir sem áður í óslitnu sambandi við okkur, að því leyti, að við nutum hennar glaðværu umgengni og uppörvunar, sem ekki veitti af á þeim erfiðu tímum. Meðal þeirra, sem settust að á eynni, var hinn alkunni snillingur, Kristján Jónsson frá Geitareyjum. Hann var aldavinur Herdísar, meðan hann lifði. – Árið 1878 fluttust þau Jóhannes og Herdís til Winnipeg og settust að á Point Douglas; þar bjuggu þau, þar til þau fluttust vestur í bæinn og settust að á McMicken St. og Ellice Ave; Eftir það fluttist Herdís að 426 Langside St., og bjó þar til dauðadags. – Ári síðar er Herdís fluttist til Winnipeg flutti eg þangað, og hefi altaf átt heima í Winnipeg síðan. Svo við vorum altaf í nágrenni, og eg naut þeirrar hamingju að umgangast þessa tryggu og göfugu vinkonu mína fram til hinstu stundar. Blessuð sé minning hennar”.  ,,Þessi fögru og vel sögðu orð hinnar góðu vinkonu Herdísar eru, að mínu áliti, í alla staði sönn og rétt. Enda hafði þessi kona náin kynni af Herdísi í rúma hálfa öld, og vissi vel um hagi hennar allan þann tíma; vissi um baráttu hennar á frumbýlings- árunum; vissi um hina dæmafáu góðgerðasemi og höfðingsskap, hreinlyndi hennar, trygð og staðfestu.

Skálskapur – félagsskapur í Winnipeg

,,Það var vorið 1882, að eg komst fyrst í kynni við þau Jóhannes og Herdísi. Þau áttu þá heima á Point Douglas í Winnipeg. Eg var þar í nágrenni við þau í nokkur ár, og kom iðulega í hús þeirra. Þar var oft gestkvæmt, og var á móti öllum tekið með opnum örmum sannrar gestrisni. Eg man, að Herdís hafði mikla unun af að tala um skáldskap, en sjaldan fór hún með vísur eftir sjálfa sig, og mun hún þó oft hafa ort góðar tækifæris-vísur á þeim árum. Að líkindum hefir hún aldrei skrifað kvæði þau og vísur sem hún orti á yngri árum, og fáa látið heyra neitt af því, nema nánustu vini sína. – Hún lét stundum Sigurbjörgu Sigurðardóttur (konu Benedikts Péturssonar) heyra það, sem hún orti, og töluðu þær oft um skáldskap. Þær voru góðar vinkonur. Eins var Guðbjörg Guðbrandsdóttir (ekkja Teits Stefánssonar) innileg vinkona Herdísar. Guðbjörg og börn hennar voru næstu nágrannar hennar (Herdísar) á meðan hún átti heima á Point Douglas. Það var velgefið fólk, drenglundað og dagfarsgott. Það, sem sérstaklega vakti eftirtekt flestra þeirra, er nokkuð kyntust Herdísi, var það, hvað hún var ávalt fús til að rétta þeim hjálparhönd, sem þurfandi voru, eða bágt áttu. Henni var það meðfætt, að vilja styðja og styrkja þann, sem var lítilmagna – vildi af öllu hjarta hjálpa þeim til að ná rétti sínum, sem orðið hafði fyrir rangsleitni, eða farið hafði halloka í baráttu sinni fyrir gott málefni. Hjá henni var réttlætistilfinningin sérlega rík, og hjartagæzkan á svo háu stigi, að hún átti þar fáa líka. Skáldið Bjarni Thórarensen sagði um Geir biskup Vídalín, að hann hafi ekki þolað að heyra neinn gráta. Hið sama mætti með sanni segja um Herdísi.. Hún þoldi ekki að heyra neinn gráta. Hún mátti ekkert aumt sjá, án þess að gera alt, sem henni var mögulegt, til þess að ráða bót á því. Hún gekk mörgum fátækum og munaðarlausum ungling í móðurstað – var altaf að hjálpa einhverjum, sem liðsinnis þurfti við, jafnvel þegar hún sjálf var fátæk og átti á ýmsan hátt í vök að verjast. Og hún var ávalt trúr og staðfastur vinur vina sinna. En hún var kona yfirlætislaus og kærði sig ekkert um það, að fólk hefði það í hámælum, sem hún gerði öðrum til hjálpar og líknar. Og hún gerði aldrei mikið úr þeim erfiðleikum, sem hún átti við að stríða á fyrstu landnámsárunum hér. En þeir erfiðleikar voru þó miklir, og hún hafði að lokum sigrast á þeim öllum, þó hún hefði aldrei orð á því, í því skyni að hrósa sér af því. Þó Herdís væri komin um þrítugt, þá er hún fluttist til Ameríku, var hún furðanlega fljót að læra að mæla á enska tungu, og lesa hana alveg tilsagnarlaust. Og hún las mikið af góðum og merkum enskum ritum á síðari árum. – Hún komst snemma í kynni við mentað enskumælandi fólk, eftir að hún fluttist til Winnipeg. Og margir á meðal þess fólks urðu góðir og einlægir vinir hennar, eins og til dæmis þau Dr. og Mrs. Gordon (rithöfundurinn Ralph Connor), Dr. McArthur og fleiri sem vel kunnu að meta gáfur og skapgerð þessarar mætu og höfðinglegu útlendu konu, og töldu hana með beztu vinum sínum.”

Afkomendur og ævikvöld

,,Jóhannes Björnsson (Bray), seinni maður Herdísar, dó þann 15. mars, 1903. Hann var sannur afbragðsmaður, orðvar og gætinn og hvers nmanns hugljúfi. Jóhannes og Herdís áttu sex börn, en þrjú þeirra dóu ung. Þrjár dætur þeirra komust til fullorðins- ára og eru þessar: Aurora Sigurbjörg (Mrs. M. Wood), Kristín Normandína (Mrs. G. M. Banke), og Anna (Mrs. W. J. Crooks). Og eiga þær allar heima í Winnipeg. Þau Jóhannes og Herdís tóku til fósturs stúlku, Eugene Violet að nafni, þegar hún var ungbarn, og ólu hana upp. Hún giftist Mr. J. Frechette og á heima í Winnipeg. Og þar á líka heima Rósbjörg Gunnlaugsdóttir, elzta dóttir Herdísar. Það má líka segja að Sigurlaug Sigurðardóttir (Mrs. Johnston) hafi verið að nokkru leyti fósturdóttir Herdísar. Herdís reyndist henni ávalt sem góð og ástrík móðir. Og Sigurlaug elskaði hana og virti. Æfikvöld Herdísar var bjart og rólegt. Hún undi sér meðal dætra sinna og vinanna sinna góðu. Eg sá hana síðasta sinn vorið 1926. Hún var þá enn ern og glaðleg og ung í anda. Og var unun að hlýða á tal hennar. – Hún andaðist að heimili dóttur sinnar, Mrs. M. Wood, þann 3. dag janúarmánaðar 1934. Hún var jarðsungin þann 6. s. m. Flutti skáldið og presturinn Dr. C. W. Gordon húskveðju á heimilinu; en í Fyrstu lútersku kirkjunni, þar sem aðal útfarar- athöfnin fór fram, fluttu þeir Dr. Björn G. Jónsson og séra Runólfur Marteinsson ræður, en Rev. G. A. Woodside flutti þar bæn á ensku. Bæði vestur-íslenzku vikublöðin birtu ágætar greinar um hana, og hennae var líka getið í dagblöðunum ensku í Winnipeg. Skáldið Magnús Markússon orti um hana fögur eftirmæli. og eins skáldkonan Mrs. Margrét Sigurðsson. Líka hefi eg lesið fögur kvæði um hana á ensku, sem þær Herdís Bankes (dótur-dóttir Herdísar= og Maud E. Galbraith (vinkona hennar) hafa ort um hana.” J. Magnús Bjarnason