Hjörtur Lárusson

Vesturfarar

Hjörtur Lárusson frá Ferjukoti í Mýrasýslu fór þaðan einsamall vestur til Winnipeg árið 1889. Þar var fyrir faðir hans, Lárus Guðmundsson, kona hans, Ingibjörg Guðmundsdóttir og hálfsystkini. Engar sögur fara af sambandi feðganna í Winnipeg en kannski kom Lárus syni sínum í samband við íslenskt tónlistarfólk í borginni því hann hóf fljótlega þar tónlistarnám og lærði á orgel og lúðra. Segir ein saga að hann hafi haft með sér horn eitt sumarið í járnbrautarvinnu utan borgarmarka og laumast til að æfa sig í rjóðri á kvöldin skammt frá búðum verkamanna. Fljótlega vakti hann athygli tónlistarmanna í Winnipeg og um tvítugt var hann farinn að spila með hljómsveitinni ,,Evans Eonerrt Band”. Kanadamenn gerðu mikið úr tengslum við breska konungsveldið og árið 1897, þegar Victoria átti 60 ára drottningarafmæli, stofnaði Hjörtur litla lúðrasveit sem samanstóð af 19 blásurum, þar af voru 15 íslenskrar ættar. Og þetta voru merk tímamót og því var hljómsveitin kölluð “The Jubilee Band”. Hjörtur var helsti drifkraftur hljómsveitarinnar og á fyrstu tónleikum hennar 9. nóvember, 1898 hafði hann útsett flest laganna. Hann stóð á tímamótum um þær mundir og ákvað að reyna frekar fyrir sér í Minneapolis í Minnesota. Valdimar Björnsson frá Minneota skrifaði mikið fyrir íslensk blöð, bæði vestanhafs og austan. Hann hefur eflaust haft einhver kynni af Hirti því báðir bjuggu þeir í Minneapolis en 15. desember, 1960 birtir Lögberg-Heimskringla minningarorð Valdimars um Hjört.

Uppruni og fjölskylda

,,Hjörtur Lárusson lætur eftir sig hálfsystur í Winnipeg, Dóru, konu Steindórs Jakobssonar, frú Láru Goodman Salverson rithöfund, sem á heima a 56Petman, Toronto 7, Ont. frú Önnu Kristjánsson, Elfros, Sask., og hálfbróður, Albert Goodman, starfsmann í ameríska sendiráðinu í Reykjavík. Hjörtu var fæddur á Ferjukoti við Hvítá í Borgarfirði, sonur Lárusar Guðmundssonar, 14. nóv.,þjóðhátíðarárið 1874. Varð hann þannig rúmlega 86 ára. Hann var nokkuð fyrir innan tvítugt, þegar hann fluttist vestur og settist fyrst að í Winnipeg. Þaðan fluttist hann til Minneapolis fyrir aldamótin, og kvað mikið að honum í tónlistarlífinu þar um áratugi. Hjörtur var þríkvæntur, kvæntist fyrst í Winnipeg alíslenzkri konu, Margréti að nafni og átti með henni fimm börn. Hún dó fyrir mörgum árum, og eru þrjár dætur þeirra hjóna líka látnar, Lára, Grace og Aurora. Ein dóttir, Fjóla Marin Code, þekkt söngkona í mörg ár lifir föður sinn, og á hún heima í San Francisco, og einn sonur, Theodore, í Los Angeles, ásamt tveimur barnabörnum. Hjörtur kvæntist í annað sinn, fyrir mörgum árum, ekkju af amerískum ættum, en varð það hjónaband skammt, er hún dó í bílslysi. Þriðja kona Hjartar, Alice, af norskum ættum, lifir mann sinn, og stundaði hún hann með stakri umönnun, er heilsan fór hnignandi síðasta árið. Fjölmenn kveðjuathöfn fór fram 28. nóvember í húsakynnum Scottish Rite frímúrastúkunnar í Minneapolis; var Hjörtur mikið starfandi í þeirri reglu í mörg ár. Var hann jarðaður í grafreit norðaustarlega í Minneapolis, þar sem fleiri landar eru jarðsettir”.

Tónlistin

Minneapolis Symphony Orchestra var stofnuð árið 1903, nokkrum árum eftir að Hjörtur flutti til borgarinnar. Ekki er víst að hann hafi verið einn stofnenda eða hvaða ár hann hóf að leika með hljómsveitinni en með henni lék hann í allmörg ár.

,,Hjörtur Lárusson helgaði tónlistinni lífskrafta sína og vann hann sér góðan orðstír á því sviði. Lúðurinn var hans hljóðfæri og var hann ,,trumpet soloist” í fjölda mörg ár í hinni frægu Minneapolis Symphony Ochestra. Hann var lúðraflokksstjóri í mörg ár, snemma eftir komu sína til Minneapolis, stjórnaði hann flokki hjá frímúrurum, ásamt öðrum flokkum. Hann kenndi í þeirri grein í mörg ár við MacPhail School of Music, og á efri árum, þegar hann tók að stemma hljóðfæri, kenndi hann þá aðferð við sama skóla. Hjörtur hélt vel heilsu og starfskröftum fram á hálf-níræðisaldur, og var hann ávallt glæsimenni í sjón og raun. Hann stofnaði  og stjórnaði íslenzkum kvennakór innan vébanda Heklu-klúbbsins í Minneapolis, og á því tímabili samdi hann nokkur lög og raddsetti fleiri. Fáir Íslendingar hafa átt jafn langan starfsferil í tónlistinni og Hjörtur. Hann miðlaði samferðamönnunum óspart af þeim gáfum, sem honum hlotnaðist í vöggugjöf, var félagslundur, hjálpfús og í fyllstu merkingu drengur góður”.

Kvennakór Hekluklúbbsins í Minneapolis ásamt stofnanda og kórstjóra, Hirti Lárussyni. Mynd 1939 Well Connected