Gullafmælisbörn Íslendingadagsins

Vesturfarar

Á öðrum áratug 20. aldar urðu ýmsir atburðir í íslenska samfélaginu í Norður Ameríku til þess að efla mjög íslenska þjóðrækni um alla álfuna. Á Íslandi var ákveðið að minnast Jóns Sigurðssonar á 100 ára fæðingarafmæli hans árið 1911. Sérstök nefnd var mynduð til að gangast fyrir gerð myndastyttu af Jóni og til að það mætti ganga hratt og vel var ákveðið að safna fé meðal hinnar íslensku þjóðar. Þessi áform fóru ekki framhjá Íslendingum í Norður Ameríku og framtakssamir menn skipulögðu almennan fund í Winnipeg 28. nóvember, 1910. Bæði fréttablöðin, Lögberg og Heimskringla birtu auglýsingu og fjölluðu um áformin á Íslandi. Fundurinn í Winnipeg bar árangur, nefnd var skipuð til að skipuleggja þátttöku Íslendinga í Vesturheimi í fjársöfnuninni vegna styttunnar. Nú fer ég hratt yfir sögu, ákveðið var að fá sem flesta Íslendinga í öllum byggðum, bæjum og borgum í álfunni til að leggja fram fé og var hámarksupphæð ákveðin 1 dalur. Margt smátt gerir eitt stórt, hugmyndin að baki þessarar ákvörðunar var að sem flestir, ungir sem aldnir tækju þátt. Hér gafst kærkomið tækifæri til að vinna að verkefni með ættingjum og vinum heima á Íslandi. Undirtektir voru frábærar os svo mikið fé safnaðist í Vesturheimi að íslenska fjársöfnunarnefndin lét gera afsteypu af styttu Jóns Sigurðssonar sem prýðir Austurvöll í Reykjavík og var sú send vestur um haf.  Hér má bæta við að sú prýðir nú þinghúslóðina í Winnipeg. Þessi fjársöfnun vestra sem sameinaði Íslendinga í Norður Ameríku leiddi svo til stofnunar Þjóðræknisfélags Íslendinga í Norður Ameríku árið 1919. Þessi mikla þjóðrænisvakning náði til allra stofnana, hvers lags félaga Íslendinga í Vesturheimi og stjórn Íslendingadagsins á Gimli ákvað að heiðra árlega þá Íslendinga sem búið höfðu vestanhafs í 50 ár eða meir. Í Gimligarði var sérstök heiðursstúka fyrir þá sem treystu sér til að sækja hátíðina og uppfylltu skilyrðin. Á árunum 1937 – 1943 bárust nefndinni upplýsingar víða að úr álfunni um menn og konur sem heiðurinn áttu skilinn. Á þessari síðu verða birt sendibréf, bæði frá heiðursgestunum sjálfum og líka aðstandendum þeirra.

Gömul mynd úr Gimligarði. Stúka heiðursgesta sést á miðri mynd, við hliðina á sviðinu þar sem kvennakór skemmtir með söng. Áhorfendur, prúðbúnir fyrir framan.