Ásgeir Jónsson

Vesturfarar

 

Þar sem texti bréfs Ásgeirs  til Davíðs Björnssonar, ritara Íslendingadagsnefndar, er víða skemmdur og nánast ólesandi skrifa ég hann upp eftir bestu getu og er svona:

Calder P. O. sask June 30, 1938 

Mr. David Björnsson 940 Ingersoll St, Winnipeg, Man.

,,jeg veit ekki hvort auglýsingin í Lögbergi nær til mín eða ekki, samt ætla jeg að filla út formið en þegar jeg fór að gera það finst mjer þar varla rúm firir ágrip af lífsreynslu monni í þessu landi og enn fremur að jeg vona að jeg sje komin mjög nærri brautarenda og þá ekki stafur firir minni tilveru neinstaðar. Jeg heiti Ásgeir Jónsson og er tvíburi (hitt dó strax heirði jeg sagt) fæddur á Krossanesi á Vatnsnesi í Húnavatnssýslu á Íslandi 4. nov 1856. Fór þaðan 5 ára að Littluþverá í Miðfirði Húnavatnssýslu þaðan til Wpg Canada árið 1887 þá giftur Kristínu Sveinsdóttur þá með ????? (óskýrt) Vann í Winipeg 31/2 ár á flourmillunni hjá hudson Bay Co. þaðan til Churchbridge sask árið 1891 og þaðan norður á óbigt land 18 mílur er síðar var kallað Lögberg P.O. með konu og 3 dreingi sýðan til Calder P. O. 1911, þegar járnbrautin fór þar í gegn frá Russell man. til Yorkton, sask. Þá konu misti jeg (hún dó) vorið 1896 frá 5 börnum Baslaði með þaug í 5 ár giftist aptur 1901 Sigríði Þorsteinsdóttur ættaðri úr Borgarfjarðarsýslu (ágætis búkona) lifir hún enn 70 ára 14. mars, 1938. Við höfum eignast 8 börn 6 lifandi uppkomin og mindarleg og vel af guði gjefin flest gifst og farin út í geiminn. Og nú sitjum við hjer 2 ein eftir (í helgum steini) með okkar Pension eða (Eptir laun) sem sumir hjer kalla það og bíðum bara eftir að guð taki okkur til sín bráðlega. hann hefur leitt okkur dásamlega gegnum allt lífið höfum aungvu að kvarta alltaf haft nóg fæði og föt og það er það sem við erum alltaf að vinna fyrir. firirgefðu skriftina mína jeg er orðin svo skjálfhentur líka hef jeg aldrei á skóla komið bara lærði hjá sjálfum mjer þegar jeg sat hjá kindunum á Littluþverá í klettastöllum skrift og Bók….

þinn með vinsemd  

Ásgeir Jónsson”

Hér er auglýsing Íslendingadagsnefndar sem birt var reglulega í Heimskringlu og Lögbergi og þar sést formið sem Ásgeir glímdi við. Margir létu nægja að svara spurningunum, klipptu það svú út og sendu til Davíðs Björnssonar í Winnipeg. Aðrir sem meir vildu segja slepptu forminu og skrifuðu spurningar og svör í sendibréf.