Jóhann Stefánsson

Vesturfarar

Jóhann Gunnlaugur fór til Kanada árið 1883, 12 ára gamall með foreldrum sínum, Stefáni Jónssyni og Ingibjörgu Jóhannsdóttur frá Keflavík í Rípuhreppi í Skagafirði. Fólkið fór til Nýja Íslands og mun Jóhann fljótlega sýnt veiðum í Winnipegvatni áhuga. Í bréfinu hér að neðan, sem hann skrifaði Davíð Björnssyni, ritara Íslendingadagsnefndar í Winnipeg, segir hann frá því að hann hafi stundað fiskveiðar í 12 ár og svo veiðar og landbúnað önnur 4. Síðustu árin fór hann á vötnin norðarlega í Saskatchewan á veturna. Kortið hér við hliðina sýnir Wynyard, þorpið í miðri í Vatnabyggð þar sem Jóhann bjó. Leiðin norður til Prince Albert var um 250 km og fóru veiðimennirnir þetta á hestvögnum. Prince Albert var þá smábær, einskonar bækistöð fyrir veiðimenn við North Saskatchewan ána. Þar geymdu menn fatnað, veiðifæri og annan útbúnað sem þurfti við veiðarnar á ísilögðum vötnunum. Hestar drógu sleða og skýli á tiltekinn stað á vatninu og þar höfðust menn við, meira og minna fram á vor. Aflinn var eðlilega ísaður og fluttur frosinn af vatninu til Prince Albert og þaðan suður og á markað. Um vorið þegar leysingar hófust seneru menn aftur í Vatnabyggð því þar biðu þá vorverk bóndans með kvikfénað og kornrækt.                                                                                                                                                                                                                                  Skýringin á bréfi Jóhanns til Davíðs er sú að Íslendingadagsnefndin í Winnipeg heiðraði alla íslenska landnema sem búið höfðu lengur en 50 ár í Norður Ameríku. Þau hjón, Jóhann og Valgerður sendu umbeðnar upplýsingar um sína hagi og fengu gullpening og heiðursskjal annað hvort í pósti eða ef þau sáu sér fært að koma á hátíðina á Gimli þá fór afhending fram í Gimli garði.

 

Gullafmælisbörn Íslendingadagsnefndar