Benedikt Sigtryggsson átti góðan vin á Íslandi, Pál Þórarinsson á Halldórsstöðum. Þeir skrifuðust á alla tíð og hér að neðan er bréf Benedikts til vinar síns. Það er skrifað í Seattle og þar er þá fjölskyldan í Kasthvammi í Laxárdal búsett. Sitthvað hefur á daga Benedikts drifið síðan hann flutti öðru sinni vestur með foreldrum sínum og systkinum árið 1907. Bersýnilegt að þegar þarna er komið sögu hefur Benedikt átt eitthvað erfitt uppdráttar og er engan veginn sáttur við samfélagið vestra og gildir einu hvort um er að ræða aðra þjóðfélags- þegna en Íslendinga eða þá landa hans búsetta þar í borg. Lesandinn finnur á þessu bréfi að Benedikt er með hugann heima og útilokar ekki þann möguleika að flytja heim. Það er at-hyglisvert að hann hefur kynnt sér landbúnaðarvélar vestra og veltir fyrir sér þeim kosti að hefja búskap á Íslandi með bandarískum tækjum. Hann segir síðan frá högum fjölskyld-unnar þar sem áhugavert er að lesa frásögn hans af móður sinni og föður, hvorugt þeirra hefur nokkurn áhuga á að snúa aftur í Kasthvamm í Laxárdal
Seattle
Bréfið að ofan er dagsett 12. november, 1926 í Seattle í Washington en ári síðar flutti fjölskyldan til San Francisco þar sem Sigtryggur og Anna, foreldrar Benedikts báru beinin. Það er augljóst af bréfum Benedikts að hann hefur alla tíð verið stoð og stytta þeirra, jafnt í Kasthvammi og Ameríku. Hann fór vestur einsamall árið 1902, trúlega fyrst til Winnipeg og svo síðar vestur að Kyrrahafi. Þar hefur hann undirbúið komu þeirra, dvalið í Blaine, íslenska bænum í Washington og líka kynnt sér aðstæður í Seattle. Meðan á þessari ferð hans vestur stóð, hefur hann örugglega skrifað þeim reglulega og lýst því sem fyrir augu bar, reynt að gefa sem gleggsta mynd af samfélaginu, staðháttum, loftslagi, öllu sem hann telur skipta máli. Hann snýr aftur til Íslands árið 1906 í þeim tilgangi að aðstoða þau við að reka endahnútinn á vesturferðina sem þau fóru sumarið 1907. Baslið við búskapinn í Kasthvammi hefur eflaust haft þau áhrif að þau litu ekki við bændasamfélaginu á kanadísku sléttunni í Manitoba, Saskatchewan og Alberta því um haustið 1907 flytja þau vestur að Kyrrahafi og setjast að í Blaine. Sigtryggur er 57 ára, Anna 53 og Benedikt 26. Eflaust hefur íslenska samfélagið í Blaine og sveitunum þar um kring tekið vel á móti nýkomnum frá gamla landinu en eitthvað skorti þar því aðeins tveimur árum seinna flytur fjölskyldan til Seattle. Bréfið að ofan ber þess merki að Benedikt hafi ekki fundið starf sem honum líkaði, ljóst að baslið þar í borg var engu minna en í heimahögunum í Kasthvammi.
San Francisco
Tíu árum eftir að Benedikt skrifaði bréfið að ofan berst frá honum annað bréf til Páls á Halldórsstöðum, Sigtryggur fyrrum bóndi í Kasthvammi er látinn. Þessu lýsti Benedikt svo:
Benedikt brást ekki vini sínum heima á Íslandi því í næsta bréfi kemur ítarleg lýsing á síðustu dögum Sigtryggs og sama tryggðin við vin sinn Pál á Halldórsstöðum:
Bréfin frá Benedikt til Páls á Halldórsstöðum eftir lát Sigtryggs urðu ekki mörg eftir þetta, hann skrifaði og gat um móðurmissi árið 1942. Páll dó á Halldórsstöðum 11. júní 1948. Það er ljóst af skrifum Benedikts öll þessi ár að hann hefur mikið verið með hugann heima, það örlar víða á vonbrigðum með vesturförina, lífið í Ameríku. Og þótt foreldrar hans virðast hafa verið sátt og lítinn ef nokkurn áhuga haft á að snúa aftur heim þá var það Benedikt mikið kappsmál að grafa þau í vígðri mold á Íslandi og það gerði hann. Árið 1949 fer Benedikt til Íslands með ösku beggja og voru þau grafin í kirkjugarðinum á Þverá í Laxárdal. Á þessum tímamótum ætlaði Benedikt að eyða ævikvöldi sínu í Laxárdal en einhverra hluta eirði hann ekki á æskustöðvunum og fór vestur til San Francisco. Kannski var honum umhugað um systkini sín, einkum Áskel og Gínu en svo kallaði hann ætíð Regínu systur sína. Hvorugt þeirra festi ráð vestra frekar en Benedikt. Heilsu Benedikts hrakaði og aldurhniginn sneri hann enn aftur heim til Íslands og bjó sín síðustu ár á Akureyri.
Bréf Benedikts sem hér hafa birst eru úr einkasafni.